Skátafélagið Mosverjar hefur innleitt gæðamat í starfi sínu og í gær fékk félagið afhenta viðurkenningu sem félag „á réttri leið“, eins og það er kallað hjá Bandalagi íslenskra skáta.

Kolbrún Reinholdsdóttir í stjórn Mosverja leiddi vinnu félagsins. Hún segir að margt af því sem gerðar eru kröfur um að sé til staðar hjá í félagi „á réttri leið“ hafi lengi verið til í Mosverjum. „Helsta vinna mín fólst í því að taka þetta saman og bæta úr þar sem betur mátti fara, gefa út handbók og reka smiðshöggið á þetta,“ segir Kolbrún.

Mikilvægt að virkja félaga

Beðin um að rifja upp minnisstæðan áfanga í ferlinu nefnir Kolbrún starfsdag en þá voru sveitarforingjar og aðstoðarforingar fengnir til að marka framtíðarstefnu og markmið Mosverja. Einnig voru foreldrar fengnir í heimsókn á starfsdeginum til að koma með hugmyndir. „Ég tel að með því að virkja fleiri í félaginu séu meiri líkur á að allir séu á sömu leið“, segir hún.

„Ég tel að sú vinna sem fór fram og það að fá viðurkenninguna skipti miklu fyrir félagið. Það er gott fyrir alla að skoða félagið sitt með gagnrýnum augum og finna metnað hjá sér til að gera gott starf betra,“ segir Kolbrún um gildi vinnunar.

„Það er gott fyrir skátafélag að hafa slíkt gæðakerfi þegar semja á við sveitarfélagið um aðstöðu eða styrki. Einnig er þetta gott gagnvart foreldrunum og skátunum sjálfum, foreldrar sjá að um ábyrgt uppeldisstarf er að ræða, einnig er það gott fyrir félagsstjórnina og sveitirnar að setja innri ramma um starfið.“

Bragi Björnsson skátahöfði afhenti viðurkenningu til skátafélags á réttri leið. Ævar Aðalsteinsson félagsforingi tók við fyrir hönd stjórnar Mosverja.
Bragi Björnsson skátahöfðingi afhenti viðurkenningu til skátafélags á réttri leið. Ævar Aðalsteinsson félagsforingi tók við fyrir hönd stjórnar Mosverja. /gp

Oft þarf bara að skjalfesta gott starf

„Maður gleypir ekki fílinn í einum bita, heldur byrjar smátt“, segir Kolbrún aðspurð um hvort hún hafi ráð til annarra félaga. Skoða þarf hvað sé til af efni, hvað er félagið að gera rétt, hvað vantar uppá og svo smátt og smátt er bætt úr því. Kolbrún segir að flest félög séu að gera mikið af þessu fyrir, eins og að halda aðalfundi, gera fundargerðir, gefa út ársreikninga, ársskýrslur, vera í samstarfi við foreldra, BÍS, sveitarfélögin, björgunarsveitirnar, osfrv. „Það vantar kannski bara að skjalfesta allt það góða starf sem fer fram og gera það þá meira formlegt. Handbók BÍS frá árinu 2005, er mjög góð og leiðir mann í gegn um verkefnið. Þar eru gátlistar og fleira sem var mjög gagnlegt í þessari vinnu. Einnig hafa önnur félög farið í þessa vinnu og ég notfærði mér það t.d. Hraunbúar og Vífill,“ segir Kolbrún.

„Vinnan var skemmtileg og hvet ég önnur félög til að skoða þessa hluti hjá sér. En vinnunni er auðvitað ekki lokið því reglulega þarf að endurskoða og bæta handbókina og aðlaga hana að því starfi sem er í félaginu á hverjum tíma, þó að handbókin sé komin út, þá er hún engan veginn meitluð í stein“.

Fjölmenni var á hátíð Mosverja.
Fjölmenni var á hátíð Mosverja. /ga

 

Gæði bæði inn á við sem og gagnvart samfélaginu

Á réttri leið er gæðamat í skátastarfi og má sjá nánar um það í handbók sem gefin var út árið 2005. Gæðamatið hefur tvíþættan tilgang, annan sem snýr að innra starfi félagsins og hinn sem snýr að því umhverfi sem skátafélagið starfar í. Gæðamatinu er skipt í fimm hluta: Skipulag félags, starf félags, fjármálastjórn, fræðslumál/menntun og samstarf.

Til þess að efla innra starf skátafélags þarf félagsstjórn að skipuleggja starfið fram í tímann, setja ramma utan um það og marka því stefnu. Stjórnir skátafélaga þurfa því að spyrja sig hvað þær ætli að gera og hvernig, hvaða áherslur ætlar félagið að hafa og hvernig eiga þær að koma fram. Með markvissu starfi stjórnar aukast líkur á að starfið í skátasveitunum eflist og þannig skipta störf stjórnar verulegu máli fyrir skátana og foreldra þeirra.

Þegar félag hefur hlotið gæðaviðurkenninguna getur það á áþreifanlegan hátt sýnt sveitarfélagi, fyrirtækjum og öðrum að á vegum þess fari fram gæðastarf viðurkennt af Bandalagi íslenskra skáta.