,,Við erum að mæta óskum um aukin þægindi og þjónustu,“ segir Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni, en mikil uppbygging hefur átt sér stað þar í vetur. Hreinlætisaðstaða bæði við skála og á tjaldsvæði var bætt, ráðstefnusalur er í undirbúningi, tjaldsvæðin sjálf voru stækkuð og vatnasafarí verður þrefalt stærra, ásamt betri aðstöðu við aðra afþreyingarpósta á staðnum.

,,Þessar breytingar gera okkur kleift að bjóða alhliða þjónustu allan ársins hring fyrir ferðamenn og skólabúðir,“ segir hann. Boðið er upp á gistingu, mat og ráðstefnuaðstöðu. ,,Við erum góður áningarstaður allan ársins hring,“ segir hann.

Yfirlitsmynd af Úlfljótsvatni og uppbyggingunni þar. Smella á tengil hér fyrir neðan til að skoða kortið stærra.
Yfirlitsmynd af Úlfljótsvatni og uppbyggingunni þar. Smella á tengil hér fyrir neðan til að skoða kortið stærra.

Skoða kort sem pdf skrá.

Nútímalegri tjald- og hjólhýsasvæði

Tjaldsvæðin á Úlfljótsvatni voru góð fyrir en nú hefur verið bætt um betur. Þau eru opin almenningi og á Guðmundur von á aukinni aðsókn í sumar og á næstu árum. Á Úlfljótsvatni verður eitt stærsta almenningstjaldsvæði landsins.

Til framkvæmda í vetur heyrði að stækka tjaldsvæðin um helming úr 5 hekturum í 10 hektara. Hér er verið að horfa til stórra skátamóta sem verða á næstu árum. Breytingarnar koma sér einnig vel fyrir minni hópa, t.d. ættarmót, sem vilja vera að einhverju leyti út af fyrir sig. Nýju flatirnar verða ekki teknar strax í notun, en einkum er verið að horfa til ársins 2017 þegar World Scout Moot Iceland, stórt alþjóðlegt skátamót, verður haldið. Sáð verður í flatirnar í vor og þær ræktaðar upp til að mæta álagi framtíðarinnar.

Einnig er verið að bæta hreinlætisaðstöðu fyrir gesti í tjöldum og hjólhýsum til mikilla muna. Tvö salernishús verða sett upp fyrir sumarið og koma þau til viðbótar við þau tvö sem voru fyrir. Í þessum efnum hefur hins vegar verið horft til framtíðar og í vetur voru gerðir grunnar og settar niður rotþrær fyrir fjögur salernishús.

Þeir sem koma á húsbílum eða með tjaldvagna geta náð í rafmagn á sex stöðum og verður þeim fjölgað á næstunni. Í vetur voru einnig gerðar vegabætur til að geta betur stýrt umferð um svæðið.

Gleði og gaman á Úlfljótsvatni

Vatnasafaríið, sem virkað hefur sem segull einkum á yngri kynslóðina, verður þrefalt stærra en viðbótin er um 3.000 fermetrar. Það þýðir á mannamáli að þar verða fjölbreyttari þrautir og mögulegt verður að hafa litla báta á pollinum. ,,Við getum þjónustan yngri börnin betur og hugað betur að öryggisþáttum,“ segir Guðmundur, en Vatnasafaríið hefur verið mjög vinsælt hjá krökkum i sumarbúðunum.

Varðeldalautin var einnig tekin í gegn, bæði svið og svæði þátttakenda. Brekkan var löguð, stækkuð lítillega og ræst þannig að nú ætti rassbleytan að heyra sögunni til. Þá var fjárfest í færanlegu sviði þannig að það verði til taks á staðnum og gefur það ýmsa möguleika fyrir tilfallandi viðburði, s.s. tónleika eða leikþætti.

Af annarri aðstöðu sem bætt var í vetur má nefna að keyptir voru 3 gámar, sem hægt verður að nota sem bátaskýli eða smíðaverkstæði.

Ráðstefnur og gisting

Skátaskálarnir á Úlfljótsvatni hafa í áranna rás stöðugt verið að færast í nútímalegra horf þó sögulegum skálum sé viðhaldið að mestu óbreyttum. Með hliðsjón af aukinni þátttöku staðarins í ferðþjónustu var í vetur bætt úr nokkrum þáttum. Guðmundur segir að ný sturtuaðstaða við gistiskálana verði tilbúin í mars. Þetta er mikil breyting frá því að geta aðeins boðið upp á sturturnar í hreinlætisaðstöðunni á tjaldsvæðinu. Fyrir ferðaþjónustuna er mikilvægt að hafa sturtur í tengslum við gistiaðstöðu. Þá eru uppi hugmyndir um heitan pott við gistiskálann og segist Guðmundur búast við að hann verði kominn í haust. ,,Frábært að geta boðið upp á slíka aðstöðu með frábært útsýni yfir vatnið og við minnum einnig á að staðsetning okkar er mjög góð fyrir þá sem vilja njóta norðurljósanna,“ segir hann og bendir á að það sé engin tilviljun að Norðurljósamyndavél MÍLU er staðsett í nágrenninu.

Ráðstefnu- og kennslusalur er í undirbúningi og kemur hann sér vel t.d. fyrir kennslu björgunarsveitanna sem nýta sér staðinn í auknum mæli. ,,Hér er frábær aðstaða fyrir björgunarsveitirnar. Nógu stór salur í góðum tengslum við aðra aðstöðu sem þær þurfa er mikill kostur,“ segir Guðmundur.

Mikil sóknarfæri fyrir Úlfljótsvatn

Það er Úlfljótsráð sem stendur fyrir þessum framkvæmdum með góðum styrk úr landsmótssjóði. Jónatan Smári Svavarsson, formaður ráðsins segir að framkvæmdirnar núna muni leiða til tryggari reksturs staðarins. Breytingarnar auðveldi að halda stórmót með lægri tilkostnaði og með uppbyggingu á almennri ferðaþjónustu felist tekjumöguleikar. Þetta sé þjóðhaglega hagkvæmt og gefi okkur tækifæri á gjaldeyrismyndun.

Skátamiðstöðin á Úlfljótsvatni tekur í auknum mæli þátt í samstarfi ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi og ræktar tengsli við ferðaskrifstofur.

_____________

Kort af Úlfljótsvatni sem pdf skrá: ulfljotsvatn-kortid

Nánar um þjónustuna á Úlfljótsvatni er að finna á vefnum ulfljotsvatn.is

Ljósmynd – Guðmundur Finnbogason  (3 Mb)  eða Sækja í Dropbox