Framkvæmdir við uppbyggingu á Úlfljótsvatni halda áfram í sumar og tengjast þær undirbúningi við heimsmót róverskáta sem haldið verður árið 2017, en búist er við að 5.000 þátttakendur og 1.000 sjálfboðaliðar verði á staðnum í einu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár eða frá árinu 2011 þegar það lá fyrir að Bandalag íslenskra skáta myndi halda heimsmótið á Íslandi árið 2017.
Nýju tjaldflatirnar sem eru færðar inn á ljósmynda sýna vel hve aðstaðan stækkar til muna
Nýju tjaldflatirnar sem eru færðar inn á ljósmyndina sýna vel hve aðstaðan stækkar til muna
Séð yfir eitt þeirra svæða búið er að breyta í tjaldsvæði framtíðarinnar. Hægt og bítandi kemur svo „græna hliðin upp“.
Séð yfir eitt þeirra svæða búið er að breyta í tjaldsvæði framtíðarinnar. Hægt og bítandi kemur svo „græna hliðin upp“.

„Í vetur náðust margir stórir áfangar. Búið er að bæta hreinlætisaðstöðu við skála og á tjaldsvæðum, en settar voru niður þrjár rotþrær og tveimur salernishúsum bætt við.  Vatnasafaríið var þrefaldað, tjald- og dagskrárflatir stækkaðar úr 5 í 10 hektara, varðeldalaut endurbætt og löguð, auk þess sem keypt var svið til skemmtanahalds,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.

Betra aðgengi um svæðið

Í vor hófst vinna við að leggja helstu öryggisvegi fyrir sjúkra-, slökkviliðs- og lögreglubíla um svæðið. Stígagerð á nærsvæði verður lokið í sumar þannig að fatlaðir eigi auðveldara með að komast leiðar sinnar. Þá verður aðstaða við bátaskýli stækkuð, vegur niður að Borgarvík endurnýjaður og dagskrárflötum í Borgarvík komið í lag.  Sáð verður í  flatirnar í sumar þær ræktaðar upp til að mæta álagi framtíðarinnar. Hermann segir að ef afgangur verði af framkvæmdafé verði því varið til að byggja upp aðstöðu fyrir mótsstjórnir. Sú aðstaða mun nýtast sem kennsluaðstaða fyrir Úlfljótsvatn á milli móta. Stefnt er að því að öll aðstaða verði tilbúin til notkunar árið 2016.

Mikilvægt að byggja upp án þess að taka frá skátastarfinu

„Skátahreyfingin vill þakka  Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir dyggan stuðning úr Landsmótssjóð sínum. Án hans væri ekki hægt að halda World Scout Moot á Íslandi,“ segir Hermann. „Við teljum að fjármunir sem hafa verið settir í verkefnið hafi nýst vel. Við reynum að byggja upp aðstöðuna eins mikið og kostur er án þess að það fari að hafa áhrif á skátastarf í landinu í dag og án frekari skuldsetningar. Aðstaðan mun nýtast skátum og almenningi um ókomna framtíð“.