Eitt þeirra ellefu dagskrársvæða sem bjóða upp á dagskrá fyrir þátttakendur á World Scout Moot er staðsett í Reykjavík. Í þeirri dagskrá víkur líkamlega krefjandi fjallapríl fyrir mýkri og menningarlegri viðfangsefnum.

„Við leggjum meiri áherslu á fjölbreyttari menningarupplifun en gengur og gerist á öðrum dagskrársvæðum” segir Heiður Dögg Sigmarsdóttir einn af skipuleggjendum dagskrárinnar í Reykjavík.

Skátarnir fegra borgina. Ljósmynd: David Baker

Dagskráin dreifð um alla borg

Að sögn Heiðar fer dagskráin víða fram allt frá sjósundsferðum í Nauthólsvík, miðbæjarrottu hangsi í miðbænum, gönguferðum upp á Esju og Grímannsfell, heimsóknum á Árbæjarsafn í Gljúfrastein, Viðey og í höfuðstöðvar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar auk þess sem skátarnir taka hressilega til hendinni við ýmis samfélagsverkefni.

Bragða á íslenskri menningu

„Vinsælasta verkefnið er menningarverkefni á vegum fyrirtækisins Tin Can Factory. Þar fá þátttakendur að læra smá um íslenska menningu, tungumálið, ýmsa frasa og fá að smakka á alls kyns íslensku góðgæti” bætir Heiður við.

Bryggjuball í Viðey

Í Viðey er fjölbreytt dagskrá fyrir þátttakendur sem innifelur meðal annars leiðsögn um eyjuna og fræðslu um sögu hennar, friðarsúlan er heimsótt og umræður fara fram um frið í heiminum. Skátarnir vinna einnig ýmis samfélagsverkefni í eyjunni og setja upp dúndrandi Bryggjuball eins og hefð er fyrir á skátamótum í Viðey.

Kanna borgina á eigin spýtur

Allir þátttakendur í Reykjavík fá hálfan dag í frí til að kanna Reykjavíkurborg á eigin spýtur. Þau eru með Reykjavík City Card sem gefur þeim aðgang að strætó, Viðeyjarferjunni, sundlaugunum, Þjóðminjasafninu og Borgarsögusöfnunum.

frístundaheimili fyrir börn og ungt fólk með fatlanir. Ljósmynd: Friederike Hoffmann

Gefandi verkefni með fötluðum

Einn liður í dagskrá skátanna eru heimsóknir í Öskju og Guluhlíð en það eru frístundaheimili fyrir börn og ungt fólk með fatlanir. Þar er farið í leiki, spjallað, boðið upp á útieldun og fleiri skátaleg verkefni

Strætó rokkar

„Hjá okkur eru 3 þátttakendur í hjólastól, þar af tvö í sama flokki. Það hefur gengið ótrúlega vel að koma þeim á milli staða en við höfum notast við leigubíl með hjólastólaaðstöðu og strætó til þess”, segir Heiður.

Ljósmynd: Friederike Hoffmann

„Við erum sérstaklega ánægð með starfsfólk Strætó sem hefur verið að vera mjög liðleg og hjálpsöm við okkar fólk og erum við þeim mjög þakklát fyrir þeirra góða starf.

Einn af okkar þátttakendum í hjólastól er mjög ánægður með rampana í strætó og sömuleiðis vagnstjórana sem hafa verið þægilegir í samskiptum og hjálpsamir við að koma hjólastólnum í og úr strætó”.

Heiður bætir við að þau hafi sent 45 manna hóp upp í Esju með strætó úr Hagaskóla upp í Ártún þar sem þau áttu að skipta yfir í strætó númer 57.

Svo óheppilega vildi til að ekki var nægt pláss í þeim strætó fyrir þau öll svo vagnstjórinn tók á það ráð að hringja og biðja um nýjan strætó fyrir þau því það var 2 tíma bið í næsta vagn.

Skömmu síðar kom viðbótarvagn, sótti hópinn og skutlaði þeim beint upp að Mógilsá! Vel gert Strætó!

 

 

Sundlaugapartý í Vesturbæjarlaug. Ljósmynd: Friederike Hoffmann

Tóm hamingja

Heiður segir að allt hafi gengið mjög vel og stöku sólbruni sé það eina sem hafi verið að hrjá skátana. Eins og fram hefur komið er dagskráin fjölbreytt en auk þess sem hér hefur verið nefnt héldu skátarnir sundlaugarpartý í Vesturbæjarlauginni, heimsóttu Hellisheiðarvirkjun og fræddust um endurnýtanlega orku og fúavörðu skátaskálann Kút á Hellisheiði.