Liðsauki frá síðustu öld

Hvaða kostum þarf góður leiðtogi að búa yfir? Þessi spurning var í öndvegi á lokakvöldi leiðtogaþjálfunar Gilwellhóps sem var að ljúka sinni vegferð í gærkvöldi. Upphaflega átti þessi umræða og útskrift að fara fram á Úlfljótsvatni fyrir tveimur vikum síðan en gera þurfti breytingar á dagskrá vegna veðurs. Stærstur hluti hópsins fékk þá sín Gilwell einkenni og sögðum við frá því hér á Skátamálum. Skoða frétt á Skátamál

Í gær bættust þrír þátttakendur í útskriftarhópinn. Það voru Heiður Maríudóttir sem forfallaðist fyrir tveimur vikum og svo tveir sem voru að taka upp þráðinn að nýju, en þeir sóttu Gilwell á síðustu öld. Jón Halldór Jónasson, sem sótti Vetrar-Gilwell á Vestmannsvatni 1977 og Arthur Pétursson, sem tók þátt í Gilwell á Úlfljótsvatni árið 1993. Í tengslum við Gilwell leiðtogaþjálfunina leysa þátttakendur verkefni og tóku þeir sín verkefni í samráði við Ólaf Proppé skólastjóra Gilwellskólans .

Skátamál fengu Jón Halldór og Arthur til að segja frá sínum Gilwell verkefnum.

Upplýsinga- og samskiptaheimar

Jón Halldór tók að sér dróttskátasveitina Andrómedu í Kópum í framhaldi af sínu Gilwell námskeiði og var virkur í því starfi fram að tvítugu. Nám erlendis tók við og aldrei varð úr að ganga frá dagbók og skila inn einhverri skýrslu. Hann ákvað í fyrra að setja punktinn yfir i-ið í sinni leiðtogaþjálfun og sótti um að klára ferilinn. Verkefnið ,,upplýsinga- og samskiptaheimar skáta“ var samþykkt og hefur framvinda þess verið árangursrík. Hann tekur þó skýrt fram að það sé ekki eins manns verk heldur einstaklega ánægjulegt samstarfsverkefni, en Jón Halldór leiðir stýrihóp vefmála skáta og situr í upplýsingaráði. ,,Áfangarnir í þessu verkefni eru nokkuð skýrt afmarkaðir. Í ágúst var opnaður nýr kynningarvefur skatarnir.is, í haust var skátafélögum boðið upp á stílsnið fyrir félagssíður og í desember var vefhlutinn Skátamál opnaður, en þar leggjum við áherslur á fréttir, viðburði og tilkynningar,“ segir hann. ,,Mikið hefur áunnist og nú erum við komin með grunn til að vinna enn betur að miðlun og kynningu.“

Hard Rock skátareynsla

Eftir að Arthur Pétursson tók þátt í Gilwell vann hann í Bandaríkjunum í nokkur ár og þá var lítið svigrúm til að ljúka Gilwell verkefnum. Arthur vann sem yfirkokkur hjá Hard Rock Café Orlando á stað þar sem um tíu þúsund máltíðir voru afgreiddar á dag og hann stýrði starfsemi með um 144 starfsmönnum í eldhúsi, uppvaski og vörumóttöku. „Það rann upp fyrir mér í þessu aðstæðum hvað ég bjó vel að reynslu minni úr skátunum í viðburðahaldi og mannauðsstjórnun,“ segir hann. Gilwellverkefni Arthurs tengist starfi hans sem matreiðslumeistari, en hann tók að sér að gera matseðla fyrir stærri viðburði eins og t.d. Landsmót skáta og þar hefur náðst veruleg hagræðing í innkaupum. Arthur hefur einnig tekið að sér ýmis „minni verkefni“, eins og hann kallar þau, s.s. að elda á Gilwell námskeiðum en þar hefur hann t.d. kynnt útieldun.

Arthur langar til að fylgja verkefni sínu um skipulag máltíða á mótum eftir með því að útbúa vefsíðu sem skátar geta farið inn á og valið máltíðir fyrir sína útilegu og síðan fengið innkaupalista. Hann á gott uppskriftasafn, meðal annars fyrir útieldun. Það er nokkur vinna við að útbúa síðuna og Arthur er varkár í að gefa upp tímasetningu. Við hjá Skátamálum fylgjumst með.

Styrkleikar leiðtogans

Eins og áður segir var leitað svara við hverjir væru kostir leiðtogans og komust vinnuhóparnir í öllum meginatriðum að svipaðri niðurstöðu. Eldmóður, áhugi, árangursmiðaður, lausnamiðaður, áræðinn, mannþekkjari, góður hlustandi, umburðarlyndi, úthaldsgóður, sveigjanlegur og góður til að fá aðra til liðs og treysta öðrum voru atriði sem nefnd voru.

Meðvitað var unnið með umræðu út frá styrkleika leiðtogans og voru þátttakendur leystir út með verkefnablaði þar sem þeir voru beðnir um að fylla út eigin styrkleika og hvaða þætti þeir vildu styrkja enn frekar, hvernig þeir gætu nýtt styrk sinn og hvernig þeir gætu bætt sig. Með þessu verkefni má segja að sé undirstrikað það sem í Gilwell leiðtogaþjálfuninni er kallað persónuleg þroskabraut.

Breytingar sem gerðar hafa verið á Gilwell leiðtogaþjálfuninni undanfarin misseri gera hana aðgengilegri fullorðnum sjálfboðaliðum. Þjálfunin er boðin í aðgengilegri skrefum s.s. dagnámskeiðum í stað vikulangs námskeið. Um síðusu helgi hóf nýr hópur sína vegferð í grunnþjálfuninni og jafnframt er byrjað að bjóða framhaldsnámskeið.

Nánar um Gilwell leiðtogaþjálfun >>> Skoða hér á Skátamál

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar