Nú um helgina útskrifaðist hópur úr leiðtogaþjálfun skáta og var mikil gleði ríkjandi á Úlfljótsvatni og var boðið til útskriftarveislu í námskeiðslok. Vegna slæmrar veðurspá þurfti þó að flýta þessum hluta námskeiðsins þar sem veðurstofan var búin að vara við slæmu veðri og færð. Flestir þeirra sem tóku þátt núna eru starfandi skátar eða hafa starfað sem skátar og nota þjálfunina til að komast inn í starfið á nýjan leik.

Nokkra breytingar hafa verið gerðar undanfarin ár á leiðtogaþjálfun skáta. Hún byggir á alþjóðlegum grunni og er meðal annars kennd við Gilwell Park í London.  Þetta er annar hópurinn sem lýkur Gilwell-leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarfi samkvæmt breyttu fyrirkomulagi. Með þessum hópi sem nú lýkur þjálfuninni hafa yfir 30 Gilwell-skátar útskrifast á innan við einu ári. Meðalaldur þeirra er um 35 ára.

Námið höfðar betur til fullorðinna

Ólafur Proppé, sem leiðir fræðslumál skáta segir að beytingarnar felist aðallega í því að gera námið sveigjanlegra, brjóta það upp í smærri skref og koma þannig betur til móts við ólíkar aðstæður fullorðinna sjálfboðaliða. „Breytingarnar eru líka fólgnar í því að aðlaga leiðtogaþjálfunina betur að kenningum og reynslu af fullorðinsfræðslu. Við endurskoðun á Gilwell-þjálfuninni höfum við stuðst mikið við reynslu á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum eins og t.d. Bretlandi og Írlandi svo einhver séu nefnd,“ segir Ólafur.

Leiðarbók fyrir Gilwell-þjálfunina er endurútgefin og byggir sú endurskoðun á reynslu eins og hálfs árs. Ólafur segir að í grunninn hafi tekist vel til og breytingar fólgnar í minni hátta lagfæringum.  „Breytingarferlinu er þó alls ekki lokið, en það er nátengt miklu átaki skátahreyfingarinnar um fjölgun fullorðinna í skátastarfi og virkjun nýs mannauðskerfi skátafélaga og Bandalags íslenskra skáta. Stefnt er að því að um 100 Gilwell-skátar verði útskrifaðir á ári innan fárra ára“, segir Ólafur.

Alþjóðlegt nám aðlagað aðstæðum hér

Gilwell-leiðtogaþjálfunin stendur á gömlum merg. Hún hófst 1919 í Gilwell Park í London og frá 1959, eða í rúmlega hálfa öld, hefur reglubundið verið boðin slík leiðtogaþjálfun hér á landi. Þjálfunin er fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarfi en gagnast þátttakendum líka í persónulegu lífi. Hún er byggð á samræmdum ramma frá alþjóðasamtökum skáta og er boðin í meira en hundrað löndum. Gilwell-þjálfunin er þó aðlöguð menningu og aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Dæmi um ávinning af alþjóðlegri tengingu skátanna er að  ástralskir skátar haf boðið íslenskum skátum að nota netnámskerfi sitt þannig að hægt verður að ljúka hluta þjálfunarinnar í fjarnámi (e-learning).

Leiðtogi í fimm skrefum

Fyrsta námskeið næsta hóps sem fer af stað innan ramma Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar verður laugardaginn 18. janúar næstkomandi. Eins og áður segir er þjálfuninni áfangaskipt til að gera hana aðgengilegri.

Þjálfuninni er lokið í fimm skrefum:

·         Fyrri hluti (skref 1 og 2) eru tvö dagslöng námskeið um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi.

·         Seinni hluti (skref 3-5) samanstendur af tveimur dagslöngum námskeiðum um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og einu helgarnámskeiði um leiðtogafræði þar sem þátttakendur fá m.a. tækifæri til sjálfsmats sem gagnast við leiðtogastörf bæði í skátastarfi og á öðrum sviðum lífsins.

Þátttakendur eru hvattir til að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefunum innan 12-18 mánaða. Reynslan sýnir að þjálfunin tekur yfirleitt um eitt ár.

Stefnt er að því að sem allra flestir fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi ljúki Gilwell-leiðtogaþjálfun. Þeir eru alls ekki skuldbundir til að taka að sér störf sem skátaforingjar, heldur er ekki síður ávinningur „að þeir verði leiðtogar í eigin lífi“,  eins og Ólafur Proppé segir.

Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að vera í samband við Dagbjörtu í Skátamiðstöðinni í síma 550-9800

Öflugur hópur þátttakenda:

Þátttakendur sem luku leiðtogaþjálfuninni núna um helgina eru:

 • Kolbrún Reinholdsdóttir, Mosverjum
 • Valborg Sigrún Jónsdóttir, Árbúum
 • Björk Norðdahl, Kópum
 • Eiríkur Pétur E. Hjartar, Mosverjum
 • Sölvi Þór Hannesson, Hraunbúum
 • Bergný Dögg Sophusdóttir, Skátafélag Akraness
 • Hjördís Jóna Gísladóttir, Svönum
 • Kristín Rós Björnsdóttir, Svönum
 • Bergþóra Sveinsdóttir, Segli
 • Valdimar Már Pétursson, Kópum
 • Þórgnýr Thoroddsen, Vífli
 • Guðrún Inga Úlfsdóttir, Fossbúum
 • Steinunn Alda Guðmundsdóttir, Fossbúum
 • Birna Dís Benjamínsdóttir, Árbúum  

 

Tenglar:  Gilwell – leiðtogaþjálfunin  http://skatamal.is/sjalfbodalidar/gilwell-leidtogathjalfun

Fleiri myndir:

Revolution Slider Error: Slider with alias gilwell_jan_2014 not found.