Leiðtogaþjálfun fyrir eldri skáta og fullorðna sjálboðaliða var haldin á Ísafirði nú um helgina. Námskeiðið er liður í að endurreisa skátastarf á Ísafirði, en það hefur verið í lægð undanfarin ár.

Ólafur Proppé, formaður fræðsluráðs skáta og skólastjóri Gilwell skólans, segir að námskeiðið hafi tekist vel og telur hann að slík námskeið gætu orðið ein leið til eflingar skátastarfi utan höfuðborgarsvæðisins. Námskeiðið sem Ólafur hélt fyrir vestan er 1. skref Gilwell-leiðtogaþjálfunar fyrir eldri skáta og fullorðna sjálfboðaliða. en þeirri þjálfun er skipt upp í fimm skref.  Sex þátttakendur voru frá skátafélaginu og er gert ráð fyrir að hópurinn sameinist öðrum hópum í 2. skrefi og halda áfram á Gilwell-vegferðinni. Ólafur gerir ráð fyrir að þjálfun ísfirsku þátttakendanna ljúki næsta haust.

Fyrsta Gilwell námskeið sérstaklega fyrir skátafélag

„Þetta er í fyrsta skipti sem haldið er Gilwell-námskeið hjá skátafélagi á landsbyggðinni,“ segir Ólafur. „Með breyttu skipulagi Gilwell-leiðtogaþjálfunar skátahreyfingarinnar er reynt að koma til móts við ólíkar aðstæður fullorðinna skáta með auknum sveigjanleika. Tilraunin tókst vel og gætu slík námskeið orðið ein leið til eflingar skátastarfs utan höfuðborgarsvæðisins“.

Skátastarf á Ísafirði á sér langa sögu, en 1928 vorur stofnuð tvö skátafélög. Skátafélagið Einherjar fyrir drengi og Valkyrjan fyrir stúlkur. Þau voru sameinuð í eitt félag eftir hálfrar aldar kröftugt starf í skátafélag sem ber nafnið Einherjar/Valkyrjan.

Nú er unnið markvisst að endurreisn skátastarfs á Ísafirði eftir nokkra lægð undanfarin ár og var námskeiðið hluti af því.

Vilji er til að endurreisa skátastarf á Ísafirði.
Vilji er til að endurreisa skátastarf á Ísafirði. Ólafur Bjarni Halldórsson, Salmar Már Salmarsson, Haraldur Júlíusson, félagsforingi Einherja/Valkyrja, Dagný Viggósdóttir, Guðmundur Ingi og Ólafur Proppé. Ingibjörg Snorradóttir Hagalín tók myndina.