Folf, golf, veiði og kaffihúsastemning er meðal dagskráratriða á Landsmóti skáta 40+ sem haldið verður á Úlfljótsvatni eftir rúma viku, dagana 27.-29. júní.  Þó 40+ finnist í heiti mótsins eru áherslur í dagskránni fyrir aldurshópinn frá 22 ára og uppúr, segja aðstandendur þessa Landsmóts sem nú er haldið öðru sinni.

Gert ráð fyrir betri þátttöku nú en í fyrra þar sem mótið er betur kynnt að þessu sinni. „Fjölmargir fréttu ekki af mótinu fyrr en of seint en drifu sig í heimsókn og tóku þátt í magnaðri kvöldvöku á laugardagskvöldið eftir grillið,“ segir Guðmundur Jónsson einn þeirra sem undirbúa mótið.  Í fyrra voru 100 í tjaldbúðum og annar eins fjöldi sem kom í heimsókn.

Landsmótið er opið öllum eldri skátum, fjölskyldum þeirra og velunnurum.  Markmið þess er að skapa vettvang fyrir eldri skáta til að koma saman og endurnýja vinskapinn.  Gömlu góðu skátafélögin og skátaklíkurnar eru hvött til að halda hópinn og fjölmenna á mótsstað.

Dagskráin í fyrra var vel heppnuð og tekur dagskráin nú mið af henni.  Góð þátttaka var í alla dagskrárliði og nefnir Guðmundur 100% þátttöku í fjölmargar göngur sem boðið var upp á. Auk þess verður golfvöllur Fræðaseturs skáta og Sogsvirkjana við Ljósafossstöð opin öllum frá fimmtudeginum og yfir mótsdagana.  Þá má geta þess að tvö Íslandsmeistaramót skáta verða haldin á laugardag, annars vegar í Folfi og hins vegar í Golfi.

Mótsgjald er aðeins 2.500 krónur og gistigjald er aðeins 1.200 kr. per. mann per. nótt. Aðeins er greitt fyrir 16 ára og eldri. Þeir sem þess óska geta fengið gistingu í skála og er verðið 3.400 kr. per. nótt, auk þess er rafmagn í boði á 700 krónur per. nótt. Við komuna á Úlfljótsvatn  skrá gestir sig í Þjónustumiðstöðinni og ganga frá móts- og gistigjaldi. Þar fást upplýsingar um hvar svæði gömlu skátafélaganna eru.

Dagskrá á Landsmóti skáta 40+

Föstudagur 27. júní:

 • Tjaldsvæði Landsmóts skáta 40+ opnar formlega
 • Golfvöllurinn við Fræðasetrið opinn allan daginn
  Vallarskorkort afhent í Fræðasetrinu – ekkert gjald
 • Fræðasetur skáta opið frá kl. 13:00 – 19:00
 • Veiði í Úlfljótsvatni fyrir mótsgesti
  Munið bara eftir að taka veiðistöngina með ykkur á mótið
 • Mótssetning og varðeldur kl. 21:00
 • Kaffihúsastemmning eldri skáta hefst kl. 22:00.
  Að sjálfsögðu verðum við aftur með kaffi, kakó og vöfflur

Laugardagur 28. júní:

 • Opin dagskrá og fjöldi dagskrártilboða
  Veiðikeppni, skemmtileg og uppbyggjandi verkefni í þágu staðarins og Fræðasetur skáta verður opið allan daginn
 • Íslandsmeistaramót skáta í Folfi kl. 10:00
  Keppt verður í karla- og kvennaflokki
 • Gönguferðir undir leiðsögn kl 13:30
  Þrjár mismunandi leiðir farnar undir leiðsögn
 • Íslandsmeistaramót skáta í golfi kl. 15:00
  Mótið fer fram á golfvellinum við Fræðasetur skáta
 • Landsmótsgrillið kl. 18:30
  Sameiginlegt grill er á tjaldsvæðinu eins og í fyrra. Kveikt verður upp í grilli og hver og einn kemur með sinn mat
 • Hátíðarvarðeldur kl. 21:00
  Dúndrandi söngur, skemmtiatriði og tilheyrandi
 • Kaffihúsastemmning eldri skáta hefst kl. 22:00.
  Að sjálfsögðu verðum við aftur með kaffi, kakó og vöfflur

  Sunnudagur 29. júní:

 • Tjaldbúðaskoðun með gamla laginu kl. 10:30
 • Opin dagskrá og fjöldi dagskrártilboða
  Veiði í vatninu, kaffihúsastemning í lokin og ýmis verkefni í þágu staðarins. Fræðasetur skáta opið frá kl. 10  – 12
 • Brekkusöngur og mótsslit kl. 13:30
Ungliðar í gönguferð
Ungliðar í gönguferð