Skátafélagið Kópar í Kópavogi fagnar 70 ára afmæli á þessu ári, en það var stofnað þann 22. febrúar 1946.

Í tilefni afmælisins stendur félagið fyrir fjölmörgum viðburðum og hefjast hátíðarhöld ársins á sunnudag með afmælishátíð í Álfhólsskóla á  Digraneshæð en þar verður kvöldvaka, afmælisterta og diskótek fyrir alla Kópa, foreldra og systkini þeirra. Hátíðin verður frá  kl. 17.00 – 19.30.

Félagar í Ds. Andrómedu við Þrist fyrr í vetur.
Félagar í Ds. Andrómedu við Þrist fyrr í vetur.

Opið hús á afmælisdaginn

Á afmælisdaginn sjálfan mánudaginn 22. febrúar verður opið hús fyrir alla í skátaheimilinu  kl.18:30-20:00. Margir munu ugglaust nota tækifærið og skoða húsið, sem stendur við Kópavogslækinn að Digranesvegi 79. Til sýnis verða myndir, minjar og rifjaðar upp minningar úr starfinu síðastliðin 70 ár.

„Við Vonumst til þess að sem flestir sjái sér fært um að mæta og fagna með okkur,“ segir Jónína Aðalsteinsdóttir í afmælisnefnd félagsins.  Hún segir að fleiri viðburðir verði síðar á árinu og hefur meðal annars verið talað um að í haust verði „opið hús“ í Þristi, skála félagsins í Þverárdal.  Vegna opna hússins 22. febrúar falla reglubundnir skátafundir niður.

Öflugt skátastarf í Kópavogi

Í Kópavogi hefur í gegnum tíðina verið öflugt skátastarf og félagið hefur notið skilnings bæjaryfirvalda á hverjum tíma. Skátafélagið er í góðum tengslum við Hjálparsveit skáta í Kópavogi, en sveitin er stofnuð af skátum úr Kópum.

Hreiðar Oddsson er félagsforingi Kópa. Aðrir í stjórn eru Andri Týr Kristleifsson, Þóra I. Guðnadóttir, Þór Hinriksson, Ásdís Erla Pétursdóttir, Jóhanna Björg Másdóttir og Valdimar Már Pétursson.

12717749_1084101644968634_233212015300317628_n
Stjórn Kópa talið frá vinstri: Valdimar Már Pétursson, Þóra I. Guðnadóttir, Andri Týr Kristleifsson, Þór Hinriksson, Jóhanna Björg Másdóttir, Ásdís Erla Pétursdóttir og Hreiðar Oddsson

Félagið býður upp á reglubundið skátastarf allan veturinn og í sumar taka skátamótin við. Kópar fara á Landsmót skáta og önnur mót hér innanlands, auk þess sem hópur dróttskáta fer til Skotlands á mót kennt við Blair Atholl. Í tengslum við félagið starfar St. Georgsgildi og foreldrahópurinn Selirnir.

 

Nánari upplýsingar um starf félagsins eru á vef þess kopar.is