European Jamboree Pólland 2020

Hvað er European Jamboree?

European Jamboree (eða Júrójambó) er heimsálfumót skáta í Evrópu og verður haldið árið 2020 í fyrsta sinn í fimmtán ár  og verður haldið í Gdansk í Póllandi og er ætlað skátum fædd 2006 til 26. júlí 2002.

Hvað gerist á  European Jamboree?

Mótið mun standa yfir í 11 daga frá 27. júlí til 6. ágúst, yfir þann tíma munu þátttakendur upplifa allskonar dagskrá ásamt því að kynnast fjölþjóðlegum hópi skáta frá allri Evrópu og víðar að.  

Hvernig tek ég þátt?

Bandalag íslenskra skáta stefnir á mótið og hægt er að gerast hluti af íslenska fararhópnum sem almennur þátttakandi, IST liði, sveitarforingi og jafnvel í öðrum hllutverkum á vegum mótstjórnar

Almennir þátttakendur

Hvernig gerist ég almennur þátttakandi?

Ef þú ert fædd/ur eftir 27. júli 2002 og fyrir árslok 2006 gefst þér tækifæri til að taka þátt í mótinu sem almennur þátttakandi.

Þú ferð inn á skatar.felog.is, og skráir þig í íslenska fararhópinn.

Hvað kostar að fara á Júrójambó?

Verðið er 229.000 krónur fyrir þátttakendur og innifalið í því er ferð á mótið, mótsgjald ásamt þriggja daga dvöl og dagskrá með íslenska fararhópnum í Gdánsk eftir mót. 
Júrójambó bátar

Hvernig verður ferð þátttakenda á mótið háttað?

Íslensku þátttakendunum verður skipt upp í 9 manna flokka, hver flokkur hefur síðan sinn flokksforingja. Flokkunum er síðan raðað saman í 36 manna sveitir og foringjar þeirra flokka eru sveitarforingjar hverrar sveitar. Ef fararhópar mynda ekki heilar sveitir gæti verið að flokkum frá ólíkum löndum sé raðað saman í eina sveit.

Á vormánuðum 2020 munu íslensku þátttakendurnir hittast í undirbúningsferð fyrir mótið þar sem þátttakendur og foringjar þeirra munu ásamt fararstjórnarhópnum fara yfir allt sem viðkemur ferð hópsins og kynnast tjaldbúðarlífi mótsins í mýflugumynd.

Hópurinn ferðast síðan allur saman út á mótið. Á mótinu dvelja þátttakendur í tjaldbúð og taka þátt í dagskrá í sínum sveitum. Eftir mótið verður síðan dvalið í þrjá daga í Gdánsk þar sem þátttakendur munu skoða saman borgina og menningu hennar. Að lokum lýkur ferðiðinni eftir að hópurinn hefur ferðast aftur saman heim til Íslands.

Hvenær rennur skráningarfrestur út fyrir þátttakendur?

Skráningarfrestur þátttakenda er til 30. október 2019.

Geta þátttakendur ferðast á mótið á eigin vegum?

Þátttakendur geta ekki ferðast á mótið á eigin vegum og verða að ferðast með íslenska fararhópnum á mótið.

Hvernig verður fjáröflunum fyrir mótið háttað?

Ferðalög á borð við EJ2020 krefjast góðs undirbúnings og verða ekki síður eftirminnileg fyrir þær sakir. Ýmsir möguleikar verða á fjáröflunum en þar mun samstarf fararstjórnar, félaganna, forráðamanna og skátanna sjálfra stýra för. Fararstjórn mun leita uppi tækifæri til fjáraflanna og auglýsa eftir fremstu getu en mun ekki persónulega standa að skipulagi og framkvæmd fjáraflana. Við hvetjum alla til að láta okkur vita af góðum hugmyndum og tækifærum svo við getum komið þeim upplýsingum til þátttakenda. Fararstjórn mun einnig hafa augun opin fyrir og auglýsa sérkjör sem kunna að bjóðast þátttakendum. 

IST liðar

Hvernig gerist ég IST?

Ef þú ert fædd/ur fyrir 27. júli 2002 getur þú tekið þátt á Júrójambó sem IST. Fyrirvari er settur á að hámarksfjölda  IST liða hafi ekki enn verið náð.
Skráning fer fram á skatar.felog.is

Hvað kostar að fara á Júrójambó sem IST?

IST liðum býðst að velja um skráningu með eða án flugs. Með flugi er gjaldið 190.000 krónur fyrir IST en 135.000 krónur án flugs. Utan flugs er innifalið í báðum gjöldum mótsgjald IST liða, einkenni og þriggja daga dvöl í Gdánsk eftir mót. Athygli er vakin á því að dvöl IST liða í Gdánsk er þar til daginn eftir brottför þátttakenda.

Hvernig er ferð IST liða frábrugðin ferð þátttakenda?

IST liðar fara í undirbúningsferð fyrir mótið snemma sumars 2020 en hún er aðskild undirbúningsferð þátttakenda.

IST liðum er skipt upp í alþjóðlega flokka eftir þeim störfum sem þeir vinna á mótinu. IST liðar mæta tveimur dögum á undan þátttakendum á mótssvæði þann 25. júlí og ólíkt þátttakendum má hópurinn mæta sitt í hvoru lagi. IST liðar sem kjósa að fljúga á og af mótinu með fararhóp BÍS flýgur því út þann 25. júlí.

IST liðar gista í alþjóðlegri tjaldbúð og sinna sínum störfum yfir mótið með vinnuflokkum sínum. IST liðar taka ekki þátt í dagskrá mótsins á sama máta og þátttakendur, þeir eru iðulega að sinna sínum störfum en síðan er sérstök dagskrá skipulögð fyrir þá. Á mótinu fá IST liðar tíma aflögu til þess að kanna mótsvæðið og taka þátt í hefðbundinni dagskrá mótsins.

IST liðar yfirgefa mótsvæðið degi seinna en þátttakendur en auk þess að aðstoða við frágang mótsins verða sérstök slit IST liða. IST liðar munu líkt og þátttakendur dvelja í þrjá daga í Gdánsk eftir mótið og stefnt er að því að þeir gisti á sama stað og þátttakendur. Á meðan að dvalið er í Gdánsk hafa IST liðar val um ýmsa dagskrá innan borgarinnar og í kring. Þátttakendur yfirgefa Gdánsk 10. ágúst en IST liðar munu dvelja einum degi lengur í borginni og lýkur sameiginlegri dvöl IST hópsins í Gdánsk þann 11. ágúst og munu þeir sem kjósa að fljúga með IST fararhóp á og af mótinu fljúga heim þann dag.

Hvernig lýkur skráningarfrest IST liða?

Skráningarfrest IST liða lýkur 30. nóvember með þeim fyrirvara að mótið sjálft gæti takmarkað frekari þátttöku íslenskra IST liða fyrir þann tíma.

Hvar fæ ég upplýsingar um þau störf sem ég mun sinna á mótinu?

IST liðar sinna allskyns ólíkum störfum á alþjóðlegum skátamótum, á Júrójambó verður IST liðum gefinn kostur á að lista upp áhuga sinn á vissum störfum. Þetta ferli fer fram í 6 skrefum og öruggast er að þau sem máta það við sig að verða IST liðar kynni sér það ferli á upplýsingasíðu mótsins um IST liða.

Hvers vegna geta IST liðar ferðast á mótið á eigin vegum?

Bæði er það vegna þess að IST liðar eru allir sjálfráða frá því að ferð íslenska fararhópsins hefst en einnig því að mótið sjálft gerir ekki kröfu um að IST liðar frá vissum fararhópum mæti öll saman á mótsvæði. Því tók fararstjórn ákvörðun um að IST liðar sem vildu nýta tækifærið og ferðast um meginland Evrópu fyrir eða eftir mótið hefðu færi á því.

Sveitarforingjar

Hversu margir sveitarforingjar fara?

Fjöldi sveitarforingja mun ráðast af fjölda þátttakenda en fyrir hverja 9 þátttakendur fer einn sveitarforingi á mótið. Því er enn óráðið hversu margir sveitarforingjar fara á mótið.

Hvernig gerist ég þá sveitarforingi?

Til að gerast sveitarforingi þarft þú minnst að vera 20 ára. Þegar skráningu þátttakenda lýkur þann 30. október verður auglýst eftir sveitarforingjum. Val þeirra verður tilkynnt fyrir lok nóvember.

Get ég enn gerst IST liði ef ég kemst ekki að sem sveitarforingi?

Vonandi! Þeir sem sækja um sem sveitarforingjar en komast ekki að munu enn geta skráð sig sem IST liða ef að mótið sjálft hefur ekki takmarkað frekari fjölda IST liða með íslenska fararhópnum.

Hvernig verður ferð sveitarforingja háttað?

Sveitarforingjar mæta í undirbúningsferð með þátttakendum mótsins um vorið 2020. Þeir ferðast með þátttakendum frá Íslandi og út á mótið 27. júlí 2020, dvelja með sínum flokkum á meðan á mótinu stendur og taka þátt með þeim í dagskrá. Eftir mótið dvelja þeir með þátttakendum í Gdánsk í þrjá daga og ferðast síðan heim með þátttakendum þann 10. ágúst 2020. Þá lýkur ferð þeirra.

Hvenær lýkur skráningarfresti sveitarforingja?

Auglýst verður eftir sveitarforingjum þegar nákvæmar upplýsingar liggja fyrir þann 30. október. Þá verður auglýstur viss frestur til umsókna og föst dagsetning afgreiðslu að hálfu fararstjórnar. Nákvæmra upplýsinga er að vænta 30. október.

Hlutverk á vegum mótstjórnar

Hvaða hlutverk standa til boða?

Mótstjórn Júrójambó hefur auglýst eftir hæfum aðilum til ýmissa verka. Hægt er að sjá hvaða hlutverk standa til boða á sérstakri upplýsingasíðu þess efnis á vegum mótsins

Eru íslenskir skátar í hlutverkum á vegum mótstjórnar hluti af íslenska fararhópnum?

Íslenska fararstjórnin telur einfaldast fyrir alla aðila ef að þeir sem sækja um og fá hlutverk á vegum mótstjórnar séu utan íslenska fararhópsins. Fararstjórnin vill ólm vita ef íslenskir skátar taka þátt í þessum mikilvægu störfum og hægt verður að versla einkenni fararhópsins en einstaklingar ferðast sjálfir á mótið og af mótinu og taka ekki þátt í dagskrá fararhópsins eftir mót.