„Framkvæmd World Scout Moot undir stjórn íslenskra skáta hefur sett ný viðmið varðandi alheimsmót róverskáta. Skipulagið, fagmennskan og sá ótrúlegi mannauður sem býr í íslenskum skátum hefur gert það að verkum að Íslendingar hafa hækkað ránna svo um munar varðandi mótshald af þessu tagi” sagði Christy McCann skátahöfðingi írskra skáta á mótsslitum World Scout Moot í dag.

 

Christy McCann, skátahöfðingi Írlands tekur við keflinu af Hrönn Pétursdóttur, mótsstjóra World Scout Moot 2017. Ljósmynd: David Byatt

„Við Írar höfum lært mjög mikið af ykkar vinnu og munum gera okkar besta til að standast þær væntingar sem mótsgestir okkar munu gera til Moot” sagði Christy en Írar munu verða gestgjafar næsta World Scout Moot árið 2021.

World Scout Moot 2017 er lokið

„Mótsslitin eru vissulega endir á því sem við höfum upplifað saman síðustu daga en einnig upphafið á nýju ævintýri. Ævintýri sem breytt getur heiminum. Farið nú til ykkar daglegu starfa en gleymið ekki að miðla ævintýrinu á Íslandi með fjölskyldum ykkar, vinnufélögum og nágrönnum og segið þeim frá því sem við höfum upplifað hér saman” sagði Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot í ávarpi sínu við mótsslitin á Úlfljótsvatni í dag.

Moot hefur breytt lífi okkar allra

„Leyfið öllum í ykkar tengslaneti að njóta með ykkur, deilið Facebook-færslum, sýnið myndir, segið frá. Ég veit að mótið hefur breytt ykkur – nú farið þið heim til þeirra liðlega eitt hundrað þjóðlanda sem þið tilheyrið og gerið ykkar besta til að deila þessari mögnuðu lífsreynslu. Hún er jákvæð, hún er uppbyggjandi og hún mun svo sannarlega breyta til batnaðar. Munið að þið eruð ekki aðeins áhrifavaldar í eigin lífi heldur getið þið einnig haft ótrúlega jákvæð áhrif á ykkar samfélag”. bætir Hrönn við.

Þakklæti til sjálboðaliða

Í ávarpi sínu flutti Hrönn þakkir sínar til þeirra ríflega eitt þúsund sjálfboðaliða sem gefið hafa vinnu sína við undirbúning og framkvæmd mótsins. „Mörg ykkar hafa fórnað sparifé, sumarfríi og samvistum við fjölskyldu til að vinna við mótið. Saman höfum við sett mikinn tíma í verkefnið og mig langar að senda kveðju á vinnuveitendur, maka og fjölskyldur þeirra ríflega ellefuhundruð sjálfboðaliða sem hafa unnið að þessu frábæra verkefni – takk!“.

 

Ljósmynd: Diego Gonzalez