vefwsm2017-logo-color-300x8Stærsta skátamót Íslandssögunnar verður haldið eftir þrjú ár þegar 5.000 skátar frá öllum heimhornum taka þá í hinu alþjóðlega skátamóti World Scout Moot. Mótið er fyrir þátttakendur á aldrinum 18- 25 ára og það sem haldið verður hérlendis er það 15. í röðinni.

 

Mótið er að uppbyggingu svipað og hið fjölsótta Roverway mót sem haldið var hér árið 2009. Mótssetning verður í Reykjavík en svo skiptast þátttakendur upp í tíu tjaldbúðir víðs vegar um landið og verða þar í fjóra daga við margvísleg verkefni. Eftir það sameinast allir hóparnir á Úlfljótsvatni og verða þar í fjóra daga.

Þetta heldur sig ekki sjálft

Íslendingar njóta þess að fá ævintýrið heimsent, bæði almennir þátttakendur sem og eldri skátar sem beðnir eru um að leggja mótinu lið.   Nú er kallað eftir sjálfboðaliðum í starfsmannabúðir og þar er gert ráð fyrir ekki síðri stemningu en meðal almennra þátttakenda. Allir fullþroska og gleðibærir skátar eru beðnir um að taka frá dagana 25. júlí – 2. ágúst  árið 2017. Í starfsmannabúðir komast þeir sem eru fæddir 1. ágúst 1991 eða fyrr.

 Þurfum einfaldlega alla eldri skáta til liðs við okkur

Mót af þessari stærðargráðu kallar á mikinn undirbúning og mikinn fjölda starfsmanna,  bæði íslenskra og erlendra.  „Okkar takmark er að ná í 600 íslenska starfsmenn heilu ári fyrir mótið,“ segir Björn Hilmarsson, sem er í mannauðsnefnd Moot.

Mannauðshópurinn er fyrirhyggjusamur og hefur ákveðið að fyrsti stóri starfsmannafundurinn fyrir World Scout Moot verði haldinn á Landsmóti skáta á Úlfljótsvatni árið 2016. „Við ætlum í framhaldi af honum að fjölmenna á hátíðarvarðeld mótsins,“ segir Björn. „Enn er auðvitað töluverður tími fram að mótinu 2017, en við viljum strax kveikja á þeirri hugmynd hjá öllum að taka frá tíma fyrir mótið. Staðan er auðvitað einföld,  við þurfum alla eldri skáta og skátahópa til að taka þátt og því erum við búin að opna fyrir skráninguna.“

 Nú vantar aðeins 594 skáta í hópinn

Í mannauðsnefnd Moot 2017 eru auk Björns Hilmarssonar, þau Guðfinna Harðardóttir, Helgi Jónsson, Páll  Línberg Sigurðsson, Ragna S. Ragnarsdóttir og Unnur Flygenring.  Það vantar því aðeins 594 til að ná í tilskilinn fjölda. Þau hvetja alla til að hafa samband og skrá sig. „Við eigum ekki að bíða eftir því hvað skátarnir geta gert fyrir okkur,  heldur hvað við getum gert fyrir skátana ! „.

Forskráning hér