Dagskrá World Scout Moot á Úlfljótsvatni er skipt upp í fjölbreytt dagskrársvæði og eru fjögur þeirra nefnd eftir íslensku landvættunum.

Upp á ensku eru þau nefnd The Bull, The Eagle, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni. Öll vinna þau þó með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.

Á dagskrársvæðinu The Dragon (drekinn) er unnið með margvísleg viðfangsefni á sviði lista og sköpunar og gefst þátttakendum kostur á að taka þátt í trommuhring undir stjórn Karls Ágústs Úlfssonar leikara, mála rúnir, taka lagið við eldstæði inn í tjaldi og spreyta sig í joggli, húlla og fleira.