Hveraeldað læri og veðurbarðir skátar

Skátar úr Landnemum dvöldu á Hellisheiði um þar síðustu helgi og nutu tímans þrátt fyrir leiðindaveður á köflum. Þeir höfðu ,,grafin lambalæri“ í matinn, en það þýðir að lærin eru grafin í hveraleir sem er um 70 gráðu heitur og gengur þessi brekka undir heitinu Bakaríið.

Ferðin var farin 10.- 12 janúar og voru níu dróttskátar og fjórir foringjar með í för. Eftir að hafa farið úr rútunni á Hellisheiði við fyrsta afleggjara eftir Skíðaskálann Hverárdölum þurfti hópurinn að ganga dágóðan spöl inn á heiðina. Grípum hér niður í ferðasöguna:

,,Klukkan hálf níu gengum við af stað í átt að skálanum. Það var vindur og mjög lélegt skyggni. Þoka og snjókoma ollu því að við sáum lítið annað en snjóinn rétt fyrir framan höfuðljósið. Sem betur fer voru tveir eldri Landnemar á breyttum jeppum sem fylgdu okkur og gátu tekið farangur fyrir þá sem voru orðnir þreyttir. Eftir að hafa gengið í þrjá tíma í óveðrinu komumst við í skálann. Þá var lítið annað gert en að koma sér fyrir og fara að sofa.

 Heiðin falleg í birtunni

Á laugardeginum vöknuðum við allir hressir og drifum okkur út að leika í snjónum. Strákunum var skipt í flokka og þurftu þeir að leysa ýmis verkefni. Veðrið úti var frábært og Heiðin mjög falleg í birtunni. Á meðan við vorum úti að leysa verkefni komu Arnlaugur og Mathilda. Eftir ágætt spjall fór Arnlaugur í bæinn en Mathilda varð eftir.

 

Snjógrafinn Landnemi.

Snjógrafinn Landnemi.

Hveragrafin læri

Eftir hádegismat komu svo Jonni og Kiddi. Því næst fórum við að elda kvöldmatinn. Í kvöldmatinn ætluðum við að hafa „grafin“ lambalæri. Lærin eru grafin í heitan leir  í brekku sem kölluð er bakaríið. Lærin bakast svo leirnum við um það bil 70°C. Það tekur dágóðan tíma að elda lambalæri með þessum hætti og við hefðum helst þurft að grafa þau á föstudagskvöldinu. Við brugðum á það ráð að skera lærin niður og ákváðum að grafa þau dýpra þar sem er meiri hiti. Á leiðinni í bakaríið mættum við Stefáni Frey og Huldu Rós sem ákváðu að koma í laugardagsheimsókn. Eftir að lærin höfðu verið grafin fóru allir nema tveir í fjallgöngu. Kiddi hafði nefninlega gleymt nestinu sínum í bílnum og þeir Kári ákváðu að ná í það. Eftir fjallgönguna fóru Kári og Jonni og grófu upp lambalærin á meðan Orri og Mathilda suðu kartöflur og bjuggu til Bernaise sósu. Kvöldmaturinn var kominn á borðið klukkan hálf tíu.

Heiðin heillar

Heiðin heillar

 

Vetraráskorun á næsta ári

Sunnudagurinn fór í að taka til og ganga í rútuna. Vegna fregna af óveðri ákváðum við að flýta rútuferðinni úr þrjú í eitt. Því miður dugði það ekki til og við lentum í miklum vindi og skafrenningi. Þegar við vorum að ganga síðasta spölinn hittum við björgunarsveitina Suðurnes sem skutlaði okkur að rútunni. Þeir voru þar að hjálpa til í vetraráskoruninni Crean. Vetraráskorunin er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta. Áskorunin er fyrir 14- 16 ára skáta og er því tilvalin fyrir þennan hóp á næsta ári. Það má lesa nánar um Crean hér: http://skatamal.is/?s=Crean

Frábært ævintýri að baki!

Fleiri myndir eru á Facebook síðu skátanna > Beint í myndaalbúm

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar