„Hér hefur verið hörkustemmning frá því á þriðjudagskvöld þegar 9 rútur renndu í hlað í einni halarófu. Veðrið var meiriháttar þetta kvöld þannig að það má með sanni segja að við höfum fengið fljúgandi gott start” segir Magnea Tómasdóttir, einn fjölmargra sjálfboðaliða mótsins.

Það er Skátafélagið Kópar í Kópavogi ásamt Hjálparsveit skáta í Kópavogi sem annast tjaldbúðirnar í Heimalandi í Landssveit, rétt við Heklurætur.

Sjálfboðaliðar svöruðu kalli fljótt og vel

„Það gekk ótrúlega vel að manna þetta verkefni. Við leituðum til eldri skáta úr Kópavogi og undantekningalaust brugðust þeir hratt og vel við og við höfum átt frábærlega skemmtilegt undirbúningstímabil fram að móti“.

Magnea leiðbeinir þátttakendum

„Með okkur er einnig öflugur hópur frá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og fleira þaulvant útivistarfólk. Það er því gaman að þetta skuli vera farið svona vel af stað og við uppskerum nú eins og við sáðum” bætir Magnea við.

Öll störf unnin með brosi á vör

Fjölbreytt og krefjandi dagskrá

Þátttakendum í Heimalandi gefst kostur á að taka þátt í fjölbreyttri og krefjandi dagskrá. „Við bjóðum upp á margvíslegar gönguferðir svo sem á Fimmvörðuháls frá Skógum og að Seljalandsfossi” segir Jóhanna Björk Másdóttir sem leiðir tjaldbúðina.

„Þá gefst þátttakendum einnig tækifæri til að spreyta sig í leitartækni, klifri og sigi og straumvatnsbjörgun svo nokkuð sé nefnt og að sjálfsögðu leggjum við okkar af mörkum í fjölbreyttum samfélagsverkefnum“.

„Í opnu dagskránni bjóðum við upp á magvíslega handavinnu, gaga-ball, risa-billiard og ferð í Paradísarhelli og allt hefur þetta mælst vel fyrir.” bætir Jóhanna Björk við.

Göngustígur lagfærður

Stemmning í samfélagsþjónustu

Mikil stemmning hefur skapast í samfélagsþjónustunni við Seljalandsfoss en þar hafa skátarnir tekið hressilega til hendinni, týnt sorp og lagfærðt göngustíga.

Upplifun fyrir allan peninginn

Jóhanna Björk segir að jarðskjálftarnir í gær hafi aukið á spennustig þátttakenda þótt engin hætta væri á ferðum en það væri klárt að erlendu gestirnir væru að upplifa íslenska náttúru fyrir allan peninginn!

Róverskáta rómantík

Sterk vinatengsl hafa myndast á meðal þátttakendanna og eru birtingarmyndir þess með ýmsum hætti. Sem dæmi skapaðist óvissuástand eitt kvöldið þegar kom í ljós að einn þátttakandi hafði ekki skilað sér í tjaldið sitt. Hann fannst þó skömmu síðar…í öðru tjaldi.

Vaðandi róverskátarómantík ríkir í Heimalandi

Ljósmyndir: Björn Larsson

/gp