Þann 4. júní lögðu 15 skátar ásamt foringja og 2 foreldrum upp í ferð áleiðis til Cleveland Ohio í Bandaríkjunum. Þessi ferð var hluti af umhverfisverkefni sem Héraðsbúar eru búnir að vera að sinna ásamt skátum í Ohio. Síðan í haust eru skátarnir búnir að hittast vikulega á Skype-fundum og leggja drög að því hvað hægt sé að gera til að bæta umhverfið. Varð svo úr að þeir höfðu strandhreinsanir að meginmarkmiði. Héraðsbúar hreinsuðu fallega gönguleið sem liggur meðfram sjó út í Stapavík við Héraðsflóa. Skátarnir í Ohio lögðu áherslu á að hreinsa strendurnar við vötnin sem skilja að Bandaríkin og Kanada. Héraðsbúar fóru út til að hjálpa til við strandhreinsun þar.

                Það var Samfélagssjóður Alcoa sem stofnaði til samstarfsins með kvenskátafélögum um allan heim undir slagorðinu „Forever Green.“ Markmið þess er að auka meðvitund almennings um hvað framlag hvers einasta einstaklings getur skipt miklu máli fyrir umhverfið. Megináherslan er lögð á þrjá liði: að minnka úrgang sem fer til urðunar, draga úr óþarfa orkunotkun og græða upp svokallaða regngarða. Skátarnir standa fyrir ýmsum umhverfisverkefnum í þessum anda og fá aðra sjálfboðaliða til liðs við sig til þess að sýna góða fyrirmynd í verndun náttúrunnar.

Það voru þreyttir skátar sem voru mættir í skátabúðirnar Camp Timberlane seint um kvöldið, eftir rúmlega sólarhrings ferðalag, en fullir eftirvæntingar um hvaða ævintýri biðu þeirra næstu daga. Fyrsti dagurinn byrjaði á hvíld og skoðunarferð um svæðið sem var 300 hektarar að stærð og var mikið að skoða, hús, vatn, stjörnuskoðunarkúla, fullt af dýrum og margt, margt fleira. Næsti dagur fór í vísindaferð inn í Cleveland þar sem farið var á tvö söfn. 8. júní rann svo upp strandhreinsunardagurinn mikli sem, var megintilgangur ferðarinnar og gekk hann mjög vel í alla staði. Við týndum upp þó nokkuð mikið af rusli sem var allt flokkað eftir bestu getu. Þriðji dagurinn fór svo í að slæpast í búðunum, farið í bogfimi, kayak og kanó. Um miðjan dag var svo farið í grillveislu hjá henni Debbi sem stjórnar verkefninu í Ohio. Þann 10. júní var farið á fætur snemma til að fara út í eina eyjuna sem er þarna í nágrenninu og á fyrirlestur hjá sjávarlífræðisetri sem er að rannsaka lífríkið í vötnunum á svæðinu. 11. júní rann svo upp með mikilli eftirvæntingu því það var búið að bjóða okkur í stóran rússíbanagarð sem var þarna rétt hjá og voru teknir einir 13 tímar í honum og mátti sjá eitt stórt bros á öllum þegar farið var heim í búðirnar um kvöldið. Svo rann upp síðasti dagurin okkar í Ohio að sjálfsögðu fengum við að fara í Amerískt moll og versluðu allir eitthvað smotterý. Um kvöldið var svo komið að kveðjustund og mátti alveg sjá nokkur tár falla þarna um kvöldið. Var svo farið snemma á fætur eftir svefnlitla nótt og farið út á flugvöll og haldið heim á leið. Við millilentum í New York þar sem við fórum í skoðunarferð um borgina með tilheyrandi stoppi á merkum stöðum. Það voru svo þreyttir og sælir skátar frá skátafélaginu Héraðsbúum sem lentu á Egilsstaðaflugvelli kl. 13:45 föstudaginn 14. júní og fullir eftirvæntingar vegna fjölbreytts og spennandi skátastarfs í framtíðinni.

Með skátakveðju að austan.

Þórdís Kristvinsdóttir félagsforingi Héraðsbúa.