Heimsmót fyrir skáta á aldrinum 18 – 25 ára – World Scout Moot – verður haldið á Íslandi árið 2017 og er gert ráð fyrir 5.000 þátttakendum. Skátarnir á Íslandi halda mótið fyrir alþjóðahreyfingu skáta – World Organization of the Scout Movement (WOSM) en fulltrúar hennar eru væntanlegir til Íslands um næstu helgi á vinnufund með mótsstjórninni.

Mótið á Íslandi verður það 15. í röðinni og fá skátar í 216 löndum boð um að koma á mótið. Síðast þegar mótið var haldið í Evrópu, en það var í Svíþjóð 1996, voru þátttakendur frá 77 löndum.

Þúsund sjálfboðaliðar leggja lið

Mótsstjórnin hittist á Úlfljótsvatni um liðna helgi til að undirbúa mótið og samstilla hópinn. „Vinnuhelgin var notuð til að kenna mótsstjórn aðferðafræði verkefnisstjórnunar og notkun sérstaks verkefnisstjórnunarhugbúnaðar“ segir Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri. Á fundinn um helgina mættu flestir úr mótsstjórn og einnig nokkrir sem eru í starfsteymum um hvern málaflokk.
Hrönn gerir ráð fyrir góðri þátttöku íslenskra skáta og jafnframt þátttöku sjálfboðaliða í hin ýmsu störf til að láta mótið verða að veruleika. Hópurinn verður stækkaður jafnt og þétt er nær dregur en gert er ráð fyrir að á milli 700-1000 sjálfboðaliða, bæði innlenda og erlenda, þurfi til að tryggja framkvæmd mótsins. Hvetur hún áhugasama til að hafa samband við skrifstofu BÍS. „Ég vona að við fáum alla íslenska skáta eldri en 26 ára, bæði þá sem nú eru starfandi en líka þá sem eru hættir virku starfi, til að leggja okkur lið í vinnubúðum eða með öðrum hætti,“ segir Hrönn.

Frá Snæfellsnesi til Skaftafells

Mótið verður haldið á Úlfljótsvatni hluta tímans og þar hafa staðið yfir framkvæmdir til að geta tekið á móti svo miklum fjölda. Tjaldsvæði hafa verið stækkuð og hreinlætisaðstaða stórbætt. Fyrstu dagar mótsins verða þó með skipulagðri dagskrá út frá 10-12 stöðum víða um Ísland og þar meðtalið samfélagsverkefni af margvíslegum toga. „Við munum sennilega nota svæðið frá Snæfellsnesi til Skaftafells undir ferðadagskrána, sem og Akureyri,“ segir Hrönn. Skipulag er að því leyti svipað og þegar Ísland hélt stórskátamótið Rover Way fyrir fimm árum síðan. Þar fékkst mikilsverð reynsla sem kemur að miklu gagni núna.

Í hnotskurn:

• Mótið heitir World Scout Moot og það verður haldið á Íslandi 25. júlí – 2. ágúst 2017.
• Búist er við 5.000 þátttakendum á aldrinum 18 – 25 ára.
• Mótið verður haldið víða um Ísland hluta mótstímans
• og seinni hluta tímans á Úlfljótsvatni, þar sem undirbúningur er þegar hafinn.

 

Tengd frétt: Mikil uppbygging á Úlfljótsvatni 

Vefsíða mótsins