Heimsmót skáta eða World Scout Moot (WSM) sem haldið verður á Íslandi árið 2017 er ekki bara stórviðburður í skátaheiminum heldur mun hann skapa gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir Ísland og hefur því verið jafnað við komur 16 skemmtiferðaskipa af stærri gerðinni.

Þó skátadagskráin og upplifun skátanna sé aðalatriðið þurfa fjármálin að vera í lagi. Búist er við allt að 5.000 þátttakendum og gangi það eftir verður velta mótsins um hálfur milljarður árið 2017.

Anna G. Sverrisdóttir formaður fjármálateymis segir að stærsta fjárhagslega áskorunin sé að tryggja fjárstreymi næstu tvö árin. „Mótið þarf um 40 milljónir til að standa undir markaðs- og kynningarkostnaði ásamt rekstri skrifstofu,“ segir Anna.  Hún talar þar af mikilli reynslu því bæði þekkir hún vel til stórviðburða skáta, sem og reksturs í ferðaþjónustu.

Mótið er fjárhagslega aðskilið rekstri Bandalags íslenskra skáta til að tryggja að það hafi ekki áhrif á grunnstarfsemi skáta á Íslandi.

John Neysmith og Marguerite Portart
John Neysmith og Marguerite Portart

Góð innsýn í reynslu annarra þjóða

Fjármálateymi World Scout Moot 2017 fékk góða gesti á vinnufund, sem haldinn var í Skátamiðstöðinni helgina 22. – 23. nóvember sl.  Það voru þau Marguriete Portart frá Evrópuskrifstofu skáta og John Neysmith, en hann átti til margra ára sæti í heimstjórn skáta.

John Neysmith deildi þekkingu sinni af starfi innan skátanna í Kanada, Afríku, sem og af reynslu sinni í heimsstjórninni.  Hann ræddi þar sérstaklega hvernig World Scout Moot gæti sótt styrki og stuðning fyrirtækja til að efla mótið. Jón Ingvar Bragason, viðburðastjóri, segir að nafni hans hafi komið hingað á eigin vegum því honum finnist mikið til okkar undirbúnings koma og vilji leggja sitt af mörkum til að gera gott betra.

Marguerite Portart er sérfræðingur hjá Evrópuskrifstofu skáta í Brussel í styrkjaöflun og samstarfi við aðra. Hún ræddi sérstaklega Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandins og hvernig við gætum tengt okkur við hana. Einnig hvernig standa megi að sameiginlegri styrkjaöflun stofnana og World Scout Moot.

Tengt efni

:: Heimsmót skáta haldið á Íslandi  – frétt

:: World Scout Moot 2017
:: World Organization of the Scout Movement