Grænir skátar hafa sótt í sig veðrið að undanförnu og hefur söfnunargámum verið fjölgað um rúmlega helming á síðustu mánuðum. Eftir að 35 nýir gámar bættust við er hægt að gefa dósir á 82 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Þá var í þessu átaki rúmur tugur eldri gáma endurnýjaður.

Flestir gámanna eru á grenndarstöðvunum þar sem fólk kemur og losar sig við endurnýtanlega hluti. Einnig eru komnir gámar við sjö skátaheimili og það sem þar safnast kemur skátafélaginu til góða.

„Við stefnum að því að koma gámum fyrir við öll skátaheimilin á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Stefán Benónýsson rekstrarstjóri Grænna skáta. „Nokkur skátafélög höfðu strax samband eftir að frétt kom í Þriðjudagspóstinum.“ Þá er eftir að koma nýjum gámum á nokkrar grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og verður það verkefni klárað fyrir sumarið segir Stefán. Stefnt er að því að í sumar verði söfnunargámar Grænna skáta á öllum grenndarstöðvum höfuðborgarsvæðisins.

Nýju kassarnir eru hærri og auðveldara að losa sig við margar umbúðir í einu með veltibúnaði í toppnum.
Nýju kassarnir eru hærri og auðveldara að losa sig við margar umbúðir í einu með veltibúnaði í toppnum.

Aukin þjónusta – betri afkoma

Þessi aukna þjónusta Grænna skáta með fleiri söfnunarkössum hefur mælst vel fyrir og það hefur safnast betur en áður að sögn Stefáns sem bætti við starfsmanni hálfan daginn til að tæma kassana. Þá hefur þeim fjölgað sem koma í Endurvinnsluna í Hraunbænum og fá sitt skilagjald. Túrbótalningavélin sem þar er nýtist bæði fyrir þá sem koma á staðinn og við talningu á því sem safnast í kassana.

Með reglubundinni tæmingu söfunarkassanna við skátaheimilin er auðvelt að bæta við flöskum og dósum í sendinguna ef dósasöfnun er i gangi hjá skátunum. Það kemur öllum til góða, segir Stefán. Skátarnir spara sér ferðina og Grænir skátar fá dósir og flöskur inn á gólf hjá sér utan álagstíma.
Nánar um Græna skáta