„Það er fullt hús hjá fálkaskátum tvö kvöld í viku og nú er varla pláss fyrir fleiri nema fjölga verulega foringjum“, segir fálkaskátaforinginn Hrafnhildur Sigurðardóttir í skátafélaginu Vífli, en þar hefur skátum fjölgað mikið eftir að flokkakerfi og þematengt skátastarf var innleitt í starfið.  Hrafnhildur segir mætingu skátanna líka hafa batnað til muna. „Kannski eru þau að mæta svona vel af því að þau vita hvað þau eru að fara að gera og hafa valið það sjálf“.

Hrafnhildur Sigurðardóttir, fálkaskátaforingi er ánægð með starfið
Hrafnhildur Sigurðardóttir, fálkaskátaforingi er ánægð með starfið


Flokkakerfið virkar

Hrafnhildur er hrifin af flokkakerfinu en skv. því kerfi vinna krakkarnir saman í 5 – 8 manna hópum sem saman mynda eina sveit sem allir tilheyra. „Þau fá að njóta sín betur í minni hópum og það er auðveldara að gera hluti sem í stærri hópi myndu vera mun erfiðari. Það er t.a.m. ekkert mál að vera með háværa rýmingaræfingu með 7 strákum miðað við að hafa 25 – 30 börnum í einu“.

Skátarnir velja sér verkefni innan þema

Hrafnhildur segir að krökkunum finnist gaman að fá að ráða sjálf hvað þau gera og þau séu mun áhugasamari þegar þau fái sjálf að ráða. Þau þurfi að skipulegga og greina hvað þarf að gera til að geta framkvæmt það sem þau völdu. „Þau fá svona hálftíma að velja fyrir næstu þrjá flokksfundi“ segir Hrafnhildur og bætir við að hjá sumum hópum gangi það strax en aðrir hópar séu lengur að velja. „Við hjálpum þeim þá af stað með því að vera með langan lista sem þau geta valið úr, en ef það gengur ekki, sem er nú sjaldgæft þá kemur sveitarforinginn til hjálpar“.  Smám saman venjist þau svo á að velja og eftir stuttan tíma verði skipulagning og greining verkefnanna bara spennandi hluti starfsins, eins konar verkefni útaf fyrir sig.


22032014478

 

 

23012014440Hlutverk fullorðinna sveitarforingja

Yngri sveitarforingjarnir sjá um samskipti við foreldrana og starfið með krökkunum og Hrafnhildur og starfsmaður Vífils, Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir eru þeim stuðningur og grípa inn ef þarf, en eru á staðnum.  „Svo vinnum við með þeim að skipulaginu og hjálpum til þar sem þarf“ segir Hrafnhildur.

„Ef upp koma erfiðari agamál þá ræðum við Guðrún við skátana við viðkomandi um af hverju hann sé í skátunum, hvernig við viljum vinna og vísum í skátalögin okkar og hvetjum þau til betri hegðunar. Það skiptir miklu máli að hafa fullorðinn einstakling í því hlutverki“.