flugu_katlar-yfir-hlodir-700x453Síðasta ár var einstaklega glæsilegt í starfsemi Gilwell-skólans og luku þrjátíu skátar leiðtogþjálfun skólans. Allir sem lokið hafa eða eru byrjaðir í leiðtogaþjálfun skólans ætla að eiga saman góða stund í næstu viku, en árviss Þrettándagleði Gilwell-teymisins verður fimmtudaginn 14. janúar Gleðistundin verður í skátaheimilinu í Kópavogi að Digranesvegi 79 klukkan 20.00. Skráning á Facebook.

„Við viljum einfaldlega gleðjast saman í góðum félagsskap og þétta hópinn,“ segir Björk Norðdahl. „Allir sem tengjast Gilwell eru hjartanlega velkomnir og þeir sem mögulega byrjuðu fyrir einhverjum árum en náðu ekki að klára geta litið við og fengið innsýn í þær breytingar sem búið er að gera.“

Björk vekur sérstaka athygli á námskeiðum 16. janúar og 20. febrúar þar sem Gilwell skátar brautskráðir fyrir 2012 geta fengið kröftuga innsýn í nýjan starfsgrunn skáta.

Aðlögun að þeim sem taka þátt

Sumar-Gilwell2015
Sumar-Gilwell var haldið á Úlfljótsvatni 2015 og verður aftur nú í ár.

Í fyrra voru haldin fjölmörg námskeið og fóru þau fram í Vestmannaeyjum, á Úlfljótsvatni og í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ. Liðlega 150 þátttakendur sóttu námskeiðin auk fjölda sjálfboðaliða sem ýmist komu að kennslu eða öðrum verkefnum.

Boðið var upp á fjarkennslu á hluta námskeiðanna sem gerði þátttakendum víða af landinu tækifæri til þátttöku og mæltist þessi nýbreytni vel fyrir og verður framhald á slíku kennslufyrirkomulagi á nýju ári.

Leiðtogaþjálfuninni er skipt upp í fimm skref til að auðvelda þátttöku. Í fyrra var til að mæta óskum haldið sérstakt Sumar-Gilwell á Úlfljótsvatni í ágústmánuði. „Á því námskeiði var lögð áhersla á útilíf og upplifun í náttúrunni í bland við fræðilega þjálfun. Námskeið af þessu tagi höfða helst til unga fólksins sem var ánægt með hvernig til tókst. Það er því ljóst að þessi útfærsla er komin til að vera,“ segir í nýútkomnum Gilwell tíðindum. Skoða Gilwell-tíðindi.

Jöfn og þétt dagskrá yfir árið

Gilwell-skólinn á Íslandi er rekinn af Bandalagi íslenskra skáta (BÍS). Hann býður bæði grunnþjálfun í samræmi við ramma alþjóðasamtaka skáta (WOSM) og símenntun – bæði endurmenntun og framhaldsþjálfun á fjölmörgum sviðum leiðtogafræða.

Gilwell-mai2015-gauti_5399
Allt samkvæmt áætlun

Gengið hefur verið frá áætlun um Gilwell-námskeið fram til næsta hausts og þar eru námskeiðin sett jafnt yfir vetrarmánuðina, auk þess sem boðið verður aftur upp á Sumar-Gilwell:

  • 16. janúar 2016 – 1.skref (Skátamiðstöðinni í Reykjavík).
  • 23.-24. janúar 2016 – 5. skref og útskrift (Úlfljótsvatni).
  • 20. febrúar 2016 – 2. skref (Skátamiðstöðinni í Reykjavík).
  • 21. febrúar-15. apríl 2016 – 3. skref (vettvangsnám fyrir þá sem vilja útskrifast í lok mai 2016).
  • 16. apríl 2016 – 4. skref (Skátamiðstöðinni í Reykjavík).
  • 28.-29. maí 2016 – 5. skref og útskrift (Úlfljótsvatni).
  • 26.-28. ágúst 2016 – 1. og 2. skref „Sumar-Gilwell“ (Úlfljótsvatni)
  • 16.-18. september 2016 – 5. skref og útskrift (Úlfljótsvatni).