Skátarnir ætla að fjölga fullorðnum í skátastarfi og nú um helgina var þétt setið á námskeiði um mannauðsstjórnun sem er liður í því uppbyggingarstarfi.  „Við viljum opna skátahreyfinguna, bjóða nýtt fólk velkomið til okkar og fjölga fullorðnum,“ segir Benjamín Axel Árnason stjórnandi námskeiðsins.

„Þátttaka var langt umfram væntingar og er okkur mikil hvatning til að halda áfram á þessari braut,“ segir hann. Námskeiðið var vel sótt en yfir sjötíu þátttakendur voru á námskeiðinu og komu frá 19 skátafélögum, Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni, og Bandalagi íslenskra skáta.

Frískir vindar í leiðtogaþjálfun

Námskeiðið um helgina var fyrsta framhaldsnámskeiðið í leiðtogaþjálfun skátanna eftir breytingar sem gerðar voru nýlega. Fjallað var um mannauðsstjórnun í skátastarfi og hvernig leiða á það starf, bjóða fólk velkomið og gera starfið aðgengilegt og aðlaðandi. Leiðtogaþjálfun skáta heitir Gilwell og eins og nafnið bendir til er það hluti af alþjóðastarfi hreyfingarinnar.  Leiðbeinendur sem fengnir voru hafa mikla reynslu af mannauðsstjórnun í fyrirtækjum og í sjálfboðastarfi.

„Skátahreyfingin vill bjóða fleiri börnum og ungmennum til þátttöku kraftmiklu og vönduðu uppeldisstarfi. Til að við náum því verðum við að fá fleiri fullorðna til liðs við okkur og einnig viljum við styðja við þá sem eru þegar í starfi. Við viljum veita fólki góðar og hagnýtar upplýsingar og aðferðir til að útfæra gott starf. Undirtektir við þessu námskeiði og frábær þátttaka færa okkur mikinn kraft í að halda áfram á þessari braut“, segir Benjamín.“

Sjálfboðaliðar nauðsynlegir í barna- og ungmennastarfi

„Það er ekki hægt að reka íþróttastarf á Íslandi án sjálfboðaliða, það er svo einfalt,“ segir Þráinn Hafsteinsson yfirþjálfari hjá frjálsíþróttadeild ÍR. Hann deildi reynslu sinni með skátunum en starf frjálsíþróttadeildarinnar er mjög öflugt um þessar mundir. Skátahreyfingin og íþróttastarfið eigi það sameiginlegt að vera byggt upp á sjálfboðavinnu og því sé mikilvægt sé að hlúa vel að þessum hópi og umbuna honum.

„Þetta er ekkert sjálfsagt mál heldur er þetta mikilvægt framlag inn í starfið og samfélagið almennt. Að taka ábyrgð og vinna með öðrum í samfélaginu er mjög göfugt og við teljum okkur vera að leggja fólki til verkefni þar sem það lærir samvinnu og samfélagslega ábyrgð,“ segir Þráinn.

Mikilvægt umræðuefni

„Ég er ánægður með framtakið. Þetta er þarft umræðuefni sem kemur okkur öllum við, sérstaklega til að koma í veg fyrir að fólk brenni út of snemma og hætti í hreyfingunni,“ segir Kristján Jóhannes Pétursson, fyrrverandi félagsforingi Skátafélags Borgarness og einn af þátttakendum námskeiðsins. Valborg Sigrún Jónsdóttir, sveitarforingi í Árbúum og þátttakandi tók undir orð Kristjáns.

„Við komumst að því hvar við sem hreyfing stöndum höllum fæti, við þurfum fleira fólk. Okkur voru sýndar aðferðir til að bæta úr því svo núna getum við byrjað að gera eitthvað í málunum og vonandi fengið fleiri með okkur í lið,“ segir Valborg.

Skátahreyfingin er opin öllum sem hafa áhuga á starfinu og gildum þess. Þar er þörf fyrir fjölda fullorðna sjálfboðaliða til að vinna með öðrum fullorðum og sinna störfum sem ekki snúa beint að börnum og unglingum.

Seinni hluti námskeiðsins verður 1. febrúar 2014. Það er opið öllum og mun skráning fara fram á heimasíðu skátanna  www.skatar.is.