Fullorðnir eru velkomnir

,,Við erum á hraðferð i að opna hreyfinguna og fá fleiri fullorðna sjálfboðaliða til starfa,“ segir Benjamín Axel Árnason sem um helgina stjórnaði fyrsta framhaldsnámskeiðinu hjá Gilwell-skólanum á Íslandi.

Þátttaka var vonum framar en 67 manns sóttu námskeiðið og voru nokkrir í þeim hópi sem komu í gegnum starf fullorðinna í skátunum í stað hinnar hefðbundnu leiðar að byrja sem skátar á unga aldri.

Benjamín Axel Árnason fékk öfluga leiðbeinendur með sér á fyrsta framhaldsnámskeiðið.

Benjamín Axel Árnason fékk öfluga leiðbeinendur með sér á fyrsta framhaldsnámskeiðið.

Öflugur hópur leiðbeinanda var með fyrirlestra og stýrði hópastarfi á námskeiðinu. ,,Við lögðum áherslu á gagn og gæði við undirbúning námskeiðsins,“ segir Benjamín og það virðist hafa gengið eftir því þátttakendur voru ánægðir í námskeiðslok.

Lausn ágreinings, hvatning og endurgjöf

Mannauðsstjórnun var efni þessa fyrsta framhaldsnámskeiðs Gilwell skólans og það er engin tilviljun. ,,Við viljum bjóða nýtt fólk velkomið, hjálpa því að kynnast skátastarfi og njóta þess. Við viljum gera starfið aðgengilegra og áhugavert. Það gerum við meðal annars með því að hjálpa skátafélögunum að greina sínar þarfir og aðstoða þau við að fá nýtt fólk inn til afmarkaðra verkefna,“ segir Benjamín. Námskeiðið tók tvo daga og var fyrri hluti þess haldinn í nóvember, eins og við sögðum frá hér á Skátamálum – Skoða frétt.

Góðir fyrirlestrar og hópvinna.

Góðir fyrirlestrar og hópvinna.

Nú um helgina var einnig valinn hópur leiðbeinenda. Halldóra G. Hinriksdóttir fjallaði um mönnun og samkomulag, Eyþór Eðvarðsson, stýrði umræðum um erfið samskipti og lausn ágreinings, Sigurjón Þórðarson, ræddi um hvatningu og endurgjöf og Hanna Kristín Sigurðardóttir kynnti frammistöðusamtöl og viðtalstækni. Einnig kynntu fulltrúar Rauða Krossins og Landsbjargar hvernig þau laða til sín fólk og hvaða áherslur lagðar eru í þjálfunina.

Samstilla væntingar með samningi

Nýtt mannauðskerfi skáta var til umræðu báða námskeiðdagana og í gær kynnti Benjamín þær áherslubreytingar sem gerðar voru eftir umræðuna í nóvember. Hann sagði að þessi rammi sem verið væri að innleiða væri mjög einfaldur og hugsaður til stuðnings skátafélögunum. ,,Þetta snýst um að auðvelda skátafélögum að fá nýtt fólk til starfa og að halda betur utan um þá sem eru í starfi. Með góðri greiningu drögum við fram hvað verkefni þarf að manna og hvaða kostum viðkomandi þarf að búa yfir. Það verður síðan til samkomulag eða samningur sem segir til um hvernig staðið skuli að verkefninu hvort heldur það er starf í stjórn félagsins, sveitarforingjastarf eða annað tímabundið verkfni. Með þessu móti vita allir hvaða væntingar eru gerðar,“ segir Benjamín og leggur áherslu á að skátar verði að leggja sig fram um að bjóða nýtt fólk velkomið. Nýtt fólk verði að finna að það tilheyri hópnum, en sé ekki bara notað í að vinna verkefni.

Næstu leiðtoganámskeið

Leiðbeinendaþjálfun skáta undir merkjum Gilwell skólans er drifin áfram af mikilum áhuga. Ólafur Proppé skólastjóri lýsti fyrirætlunum og væntingum næstu 3 árin og bauð nýtt fólk velkomið til samstarfs um uppbygginguna.

Stjórnendur skólans finna fyrir auknum áhuga og vilja leggja sig fram um að mæta þeirri þörf sem fyrir hendi er. Undir lok námskeiðsins voru síma-dagbækurnar á lofti og leitað logandi ljósi að lausum tíma sem hentaði flestum. Við kynnum það næstu daga hér á Skátamál. Þeir sem hafa óskir geta sent skeyti á skatar@skatar.is og því verður komið áfram til stjórnenda Gilwell skólans.

 

Nánar um Gilwell leiðtogaþjálfunina

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar