Það uppeldis- og menntunarstarf sem felst í skátastarfinu hefur það að markmiði að skapa ungu fólki tækifæri til sjálfsnáms og aukinnar samfélagsvitundar – til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar og til að láta gott af sér leiða í nærsamfélagi sem og í samfélagi mannkynsins í heild.
Skátastarf snýst um uppeldi til lýðræðislegrar þátttöku og sjálfbærrar þróunar. Það eflir raunhæft sjálfsmat einstaklingsins og sjálfstraust – en jafnframt hæfileika til að vinna með öðrum. Skátastarf er leiðtogaþjálfun – ekki í þeim skilningi að í skátastarfi séu einstaklingarnir þjálfaðir til að stjórna öðrum heldur til að vinna með öðrum að settu marki og ekki síst til að verða leiðtogar í eigin lífi.