Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni bauð gestum og gangandi uppá vöfflukaffi í gær, 22. febrúar, í húsnæði setursins við Ljósafoss. Tilefnið var ærið, afmælisdagur Baden-Powell og tímamót í starfsemi setursins en þar er nú lokið verklegum framkvæmdum við endurbætur sem staðið hafa yfir síðan í haust.
fraedasetur_skata_merki-250pix
Merkið hannaði Birgir Ómarsson.

Liðlega 100 gestir komu í heimsókn og tóku þátt í gleðskapnum en formleg dagskrá hófst kl. 14:00 með ávarpi Guðmundar Pálssonar, formanns félagsins „Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni“. Guðmundur rakti sögu og tilurð verkefnisins sem varð til í kjölfar samstarfs skáta og Landsvirkjunar um sýninguna „UNDRALAND – minningar frá Úlfljótsvatni“ sem sett var upp vorið 2012 í Ljósafossstöð í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. „Það verkefni tókst vonum framar og er umfangsmesta kynning á skátastarfi sem sett hefur verið upp fyrir almenning til þessa“ segir Guðmundur. „Í upphafi var gert ráð fyrir að það verkefni stæði yfir í eitt ár en Landsvirkjun óskaði eftir samstarfi við skáta í eitt ár til viðbótar og því var það ekki fyrr en núna í vetur sem við lokuðum formlega og tókum saman en þá höfðu um 7.000 gestir sótt sýninguna heim“.

Sýningarverkefnið tekið skrefinu lengra

Fyrir hönd skáta voru það félagar úr Smiðjuhópnum sem önnuðust sýningarverkefnið og hafa þau einnig borið hitann og þungan að undirbúningi Fræðaseturs skáta Úlfljótsvatni. „Okkur langaði að taka sýningarverkefnið lengra og þannig þróaðist fræðaseturs-hugmyndin. Í hugmyndaferlinu nutum við góðs stuðnings Jónatans Smára, formanns Úlfljótsvatnsráðs, Hermanns framkvæmdastjóra BÍS og fleiri góðra aðila og síðastliðið haust var svo leitað til Landsvirkjunar um frekara samstarf. Þar komum við ekki að tómum kofanum frekar en endranær og leggur fyrirtækið okkur til þetta glæsilega hús sem gerir okkur kleyft að stíga fyrstu skrefin“ segir Guðmundur.

Það húsnæði sem um ræðir er 400fm2 bygging sem stendur rétt austan við Ljósafossstöð og var byggð um 1940 og hefur lengst af hýst fjölskyldur stöðvarstjóra og aðstoðarstöðvarstjóra Sogsvirkjanna.

„Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni er nú í stakk búið til að safna, flokka, skrá og sýna skátamuni og –minjar en það verða fleiri áherslur í starfseminni“ segir Gunnar Atlason, einn forsprakka verkefnisins. „Við eigum þann draum að geta gert fjölbreyttri náttúru svæðisins skil í starfseminni, hér er einstakt fuglalíf, sagan drýpur af hverju strái og að sjálfsögðu munum við byggja frekar upp samstarf okkar við Landsvirkjun og gefa gestum okkar innsýn inn í orkuframleiðslu.

Guðmundur og Páll taka við gjöfum og góðum óskum frá Heiðrúnu Dóru Eyvindardóttur, forstöðumanns Bókasafns Árborgar.
Guðmundur og Páll taka við gjöfum og góðum óskum frá Heiðrúnu Dóru Eyvindardóttur, forstöðumanns Bókasafns Árborgar.

Góðar kveðjur og gjafir

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar flutti ávarp og fagnaði þessari viðbót við menningarlífið á Suðurlandi. Heiðrún færði fræðasetrinu mikinn fjársjóð að gjöf sem eru allar Íslendingasögurnar, innbundnar í glæsilegt skinnband og gefnar út um aldamótin 1900 auk þjóðsagnasafns og fleiri dýrgripa.

Jafnframt færði Heiðrún setrinu kveðjur frá Ástu Stefánsdóttur, framkæmdastjóra sveitarfélagsins Árborgar og þeirri kveðju fylgdi einnig glæsileg bókagjöf.

Kristinn Ólafsson, gjaldkeri BÍS, ávarpaði gesti og færði baráttukveðjur frá stjórn Bandalags íslenskra skáta. Hann fjallaði um mikilvægi þess fyrir skátahreyfinguna að fullorðnir sjálfboðaliðar leggðu sig fram af krafti eins og sýningin í Ljósafossstöð og verkefnið um fræðasetrið væru góð dæmi um. Slík verkefni bæri að styðja og þakka fyrir.

Jónatan Smári Svavarsson, formaður Úlfljótsvatnsráðs, rifjaði upp skemmtilega hugmyndafundi með Smiðjuhópnum frá þeim tíma sem hugmyndin var að fæðast og fagnaði þeim krafti og eljusemi sem frumkvöðlar verkefnisins hefðu sýnt sem hefði skilað sér í að á ótrúlega skömmum tíma væri hugmyndin komin af teikniborðinu og orðin að veruleika.

Magnús Hallgrímsson tók næstur til máls og vildi þakka framtakið fyrir hönd Úlfljótsvatnsráða fyrri tíma – hér væri á ferðinni einstakt verkefni sem bæri að styðja við og hlúa að, hér væri enginn kotbúskapur og á ferð og hugsað til framtíðar.

Kveðja og gjafir bárust frá Hrefnu Hjálmarsdóttur Landsgildismeistara sem sendi setrinu tvær einstakar krosssaumsmyndir sem hún hafði sjálf unnið, myndir af skátastúlkum saumaðar eftir uppskrift úr erlendu skátablaði á æskuárum Hrefnu.

Ágúst Þorsteinsson, fyrrverandi skátahöfðingi, átti svo lokaorðin í formlegri dagskrá. Ágúst lýsti ánægju sinni með fræðasetrið og þeim metnaði sem ljóst væri að lagður væri í þetta verkefni. Ágúst lét ekki þar við sitja heldur færði setrinu að gjöf einstaka muni. Þar á meðal útskorinn göngustaf sem faðir hans hafði átt og glæsilegan bókakost skátabóka úr einkasafni sínu.

Samstarf, samstarf, samstarf!

„Við höfum skilgreint svæðið sem samstarfssvæði Landsvirkjunnar, fræðasetursins, Útilífsmiðstöðvar skáta, aðila í ferðaþjónustu og annarra hagsmunaaðila og okkar sameiginlega markmið er að byggja hér upp til framtíðar á grundvelli ferðaþjónustu og eflingar svæðisins sem atvinnusvæðis“ sagði Páll Viggósson einn stjórnarmanna fræðasetursins. „Við sjáum fyrir okkur nú þegar fjölmörg tækifæri með hvaða hætti starfsemin getur eflt Útilífsmiðstöðina og munum vinna markvisst og ákveðið í þá átt á næstu mánuðum og vonandi sjáum við fyrstu ávexti þess samstarfs strax í sumar“ skaut Guðmundur Jónsson kynningarmeistari hópsins inn í.

„Þetta er okkar sameiginlega verkefni, allra skáta“ bætir Guðmundur Jónsson við. „Við þurfum og ætlum að vinna náið með gildunum, Skátasambandinu, minjanefnd, Gilwell-hringnum, skátafélögunum og öllum sem eiga og vilja hafa aðkomu að þessu sameiginlega verkefni okkar allra. „Samstarfið og samvinnan við BÍS og Úlfljótsvatnsráð hefur verið frábær frá fyrsta degi“, bætir Gauti Torfason við, „og þar fara fremstir í flokki jafningja þeir Hermann Sigurðsson, Jónatan Smári og Guðmundur Finnbogason, þannig þarf þetta að vera ef vel á til að takast“.

Páll bætir við að þrátt fyrir það að það hafi verið félagar úr Smiðjuhópnum sem hafi hrint verkefninu af stað og leitt starfið þá hafi mikill fjöldi skáta lagt fram aðstoð sína og muni áfram gera. „Við eigum forláta dagbók hér í eldhúsinu þar sem við höfum bókhald yfir unnin verkefni og ætli þetta sé ekki að slaga í 1.000 klst. sem sjálfboðaliðar hafa lagt hér fram frá því í haust. Jóhann og Ragnar úr Þorlákshöfn, bakland Vífils undir stjórn Bjössa Hilmars og fleiri og fleiri hafa komið hér við sögu.

„Við höfum haft hér vinnukvöld flest miðvikudagskvöld í vetur og alla laugardaga og stundum sunnudaga líka“ segir Guðmundur Jónsson. „Stundum hef ég verið hér einn á ferð en stundum höfum við verið hér um 15 manns að hamast“.

Gæðastarf og fagmennska

„Tæknihliðin skiptir miklu máli í svona verkefni“ segir Sturla Bragason tæknistjóri setursins. „Hér höfum við komið upp tæknibúnaði af fullkomnustu gerð, hér eru þegar tvö öflug tölvuver, unnið er að uppsetningu á ljósmyndaaðstöðu til að geta myndað muni og skannað gögn. Gengið verður frá samningi við Landskerfi hf. í komandi viku þar sem fræðasetrinu verður tryggður aðgangur að Sarpur.is sem er sameiginlegur gagnagrunnur safna á Íslandi og við leggjum okkur fram um að vinna þetta faglega og samkvæmt ströngustu stöðlum og kröfum“.

Sturla bætir við að með aðgangi að Sarpur.is verði straumhvörf í almennu aðgengi að skátamunum og –minjum. „Í þennan gagnagrunn skráum við allar upplýsingar um hvern einasta hlut, tökum af honum ljósmynd og færum inn í kerfið. Vefhluti gagnagrunnsins gerir okkur svo mögulegt að birta upplýsingar um viðkomandi gagn á vefnum þannig að allir landsmenn geta skoðað og fræðst um þá muni sem skráðir eru án þess að koma á staðinn. Við höfum líka væntingar um að geta opnað aðgang fyrir skátafélögin þannig að þau geti einnig skráð sína muni og minjar inn í kerfið“ segir Sturla.

Stóra rammaáætlunin!

Þeir nafnar og Smiðjubræður Atli Bachman og Atli Smári Ingvarsson hafa starfað af krafti við verklegar framkvæmdir síðustu mánuði auk þess sem þeir hafa borið ábyrgð á verkefni sem kallað hefur verið „Stóra rammaáætlunin“. Atli B. segir þetta hafa verið skemmtilegt verkefni: „Við ákváðum að ramma inn hverja einustu ljósmynd sem var til sýnis á sýningunni í Ljósafossstöð og fengum lánuð sérstök verkfæri í því skyni – þetta er búin að vera hreint ótrúlega tímafrek vinna en nú er henni loksins lokið“ segir Atli B. með brosi á vör.

„Það var ekkert um annað að ræða en að leggja í þessa vinnu“ bætir Atli Smári við. „Okkur langar nefnilega að færa stóran hluta af þessum ljósmyndum upp í skátaskálana og skreyta þar sali og veggi með alvöru skátamyndum. Margir hafa bent á að skálarnir okkar mættu vera örlítið skátalegri og nú getum við lagt okkar af mörkum til að bæta úr því“ segir Atli Smári.

Unga kynslóðin tók virkan þátt enda framtíðin þeirra. Hér má sjá þær Þórey úr Skjöldungum, Sæbjörgu úr Svönum og Eriku úr Hamri en þær eru allar félagar í RS. Fantasía sem tók að sér þjónustuverkefni við opnunina.
Unga kynslóðin tók virkan þátt enda framtíðin þeirra. Hér má sjá þær Þórey úr Skjöldungum, Sæbjörgu úr Svönum og Eriku úr Hamri en þær eru allar félagar í RS. Fantasía sem tók að sér þjónustuverkefni við opnunina.

Næstu skref

„Ætli við förum ekki og höllum okkur aðeins “ segir Guðmundur Pálsson, aðspurður um næstu skref. „En að öllu gríni slepptu þá fer nú vinnan að hefjast fyrir alvöru, næstu vikur fara í að ganga frá ýmsum formsatriðum svo sem samningnum við Landskerfi, skipulagningu vinnuferla varðandi afhendingu og mótttöku á munum og minjum. Við þurfum líka að ganga frá kynningarefni og slíkum hlutum svo hægt verði að hefja kynningu á verkefninu gagnvart opinberum aðilum, aðilum í ferðaþjónustu og væntanlegum samstarfsaðilum svo það verður í nógu að snúast á næstunni“.

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar um Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni veitir Guðmundur Pálsson (gudmundur@skatar.is).

Skoða:: Myndir frá vöffluboðinu má sjá á Facebook-síðu fræðasetursins.