Árið 1961 skrifaði Ólafur Proppé grein fyrir Skátablaðið um „fjallarekkastarf“. Skátar á aldrinum 15-18 ára voru á þessum tíma stundum kallaðir „fjallarekkar“. Um þetta leyti stóðu yfir umræður um skátastarf þessa aldursstigs sem enduðu m.a. með því að nafni aldursstigsins var breytt í „dróttskáta“ og Forsetamerkið var tekið upp. „Rekkar og svannar“ voru hins vegar á sama tíma þeir skátar sem við köllum núna „róverskáta“. Í dag eru dróttskátar hins vegar 13-15 ára skátar, en skátar á því aldursstigi sem samsvarar „fjallarekkunum“ í upphafi sjötta áratugarins eru nú nefndir „rekkaskátar“. Þegar talað er um „skátasveit“ í greininni er fyrst og fremst átt við starf 11-14/15 ára skáta. „Ylfingar“ og „ljósálfar“ voru á sjötta áratugnum ekki kallaðir „skátar“.
Það getur verið fróðlegt og skemmtilegt að bera saman umræðuna í dag og fyrir 55 árum. Auðvitað ber greinin hér fyrir neðan einkenni síns tíma – en hefur eitthvað breyst?

Rabb um fjallarekkastarf (skrifað fyrir Skátablaðið 1961)

Fjallarekkastarf hefur oft verið til umræðu, en samt hefur enn ekki verið komist að niðurstöðu um hvernig þessum lið skátastarfsins skuli vera háttað.

Fjallarekkastarf þekkist víða um heim, í flestum þeim löndum þar sem skátahreyfingin hefur náð að festa rætur. Það ekki undarlegt þar sem frábrugðin verkefni eru nauðsynleg fyrir hina eldri skáta áður en þeir ljúka sínu raunverulega skátastarfi. Í sjálfu sér er það merkilegt og jafnvel til skammar að slíkt starf hafi ekki verið tekið upp hér heima.

Danir hafa komið sér upp ágætu kerfi fyrir sína fjallarekka, enda eru þeir með eitt elsta skátastarf í heiminum og hafa á að skipa mjög góðum foringjum. Aðstæður dönsku skátanna eru hvað líkastar okkar aðstæðum og því ættum við að notfæra okkur þá miklu reynslu sem þeim hefur hlotnast. Det danske spejderkorps hefur gefið út tvær bækur um fjallarekkastarf. Önnur heitir „Skovmandsbogen“ og er ætluð hverjum einstökum fjallarekka til aflestrar og hin, „Din skovmandspatrulje“, er einungis ætluð foringjum. Báðar þessar bækur eru ágætar og ráðlegg ég ykkur að lesa þær ef þið hafið tækifæri til.

Í Danmörku starfar skátasveitin líkt og hér, en þar er einn fjallarekkaflokkur innan hverrar skátasveitar og er sveitarforinginn flokksforingi í honum. Þetta krefst að vísu góðra foringja, en við verðum líka að krefjast þess af skátafélögunum að þau hafi sæmilega menntaða og dugmikla foringja. Að öðrum kosti getum við allt eins lagt niður skátastarf á Íslandi. En þetta skapar líka stórum fleiri tækifæri til fjörmikils fjallarekkastarfs.

Hver hefur betri tök á að leiða eldri drengina úr skátasveitinni en sveitarforinginn sjálfur? Engin hefur betri yfirsýn yfir skátana heldur en hann. Sumir segja ef til vill að þeir hafi svo miklum störfum að sinna innan sveitarinnar sjálfrar að þeir hafi hvorki tíma né getu til þess að sinna fjallarekkunum.

En þetta er reginmisskilningur. Hvað er því til fyrirstöðu að hver sveitarforingi hafi 2, 3 eða 4 aðstoðarsveitarforingja sér til hjálpar, bæði við starf yngri skátanna í sveitinni og fjallarekkastarfið. Auk þess á fjallarekkastarfið ekki að vera tómur leikur, heldur líka undirbúningur undir foringjastörf fyrir þá sem kæra sig um og hafa hæfileika til að halda áfram og starfa fyrir skátahreyfinguna og æsku landsins.

Eins á fjallarekkastarfið að skapa hverjum skáta góðan endi á skátaferil hans, sem raunverulega nær ekki lengra en til 18 ára aldurs, því þá tekur við foringjastarf, róverstarf eða ekkert skátastarf.

Er ekki nauðsynlegt að þeir skátar sem hætta starfi á þessu tímabili, en það gera margir, eigi ljúfar endurminningar frá skátaárum sínum. Hversu mikilvægt er ekki að skátaforingjar, róverskátar og þeir skátar sem hverfa úr starfi hafi jákvæðar skoðanir á skátahreyfingunni, markmiðum hennar og aðferðum.

Allt ber að sama brunni. Við sjáum að sá maður sem hefur með fjallarekkastarfið að gera verður að vera sérstaklega góður foringi og helst af öllu, eða öllu heldur skilyrðislaust, sveitarforingi.

Við vitum öll að skátastarfið er einungis skemmtilegur leikur í augum yngri skátanna. En í augum hinna eldri hefur þessi leikur ákveðið markmið og það nokkuð háleitt markmið – eða að gera nýtan borgara úr hverjum dreng og hverri stúlku sem er undir handarjaðri skátahreyfingarinnar.

Það er nauðsynlegt að fjallarekkinn fá smám saman innsýn í skátastarfið frá þessum sjónarhóli, eða með öðrum orðum frá sjónarhóli þess fullorðna. Við vitum vel að þetta er nauðsynlegt hverjum sveitarforingja (þó að töluvert vanti á að svo sé). Og ekki er síður mikilvægt að öllum þeim skátum sem hverfa úr hreyfingunni sé þetta ljóst. Við munum öll eftir sögunni um skátann sem hrökklaðist úr skátastarfinu vegna leiðinda og misklíðar og varð síðan einn ötulasti óvinur hreyfingarinnar, baktalaði hana og rægði. Þetta er ljót saga, en hún er of sönn til að láta hana sem vind um eyru þjóta og við verðum að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja að slík saga endurtaki sig.

En hvernig?

Ég vil halda því fram að gott fjallarekkastarf (og ungsvannastarf) gæti að einhverju leyti hjálpað okkur til að koma í veg fyrir slíkt.

Eitt þurfum við líka að athuga. Fjallarekkinn má ekki undir neinum kringumstæðum starfa annars staðar meðan hann er í fjallarekkaflokknum, t.d. sem flokksforingi eða sveitarforingi. Já, nú munið þið brosa og jafnvel segja sem svo „Hvaða fáráðlingur hefur skrifað þetta. Þekkir hann ekkert til skátastarfs á Íslandi. Veit hann ekki að aðalvandamál íslensku skátanna er ungir foringjar. Þetta er óframkvæmanlegt hér hjá okkur“. En ef þið segið þetta, þá segi ég að þið séuð eins og skátinn sem var nýbúinn að lesa erlenda skátabók og hélt því fram að það væri ekki hægt að fara í útilegu á Íslandi. Og hvers vegna? Jú, af því að á Íslandi eru engir skógar. Í mínum huga ber þetta vott um þröngsýni.

Þið megið vita að ég geri mér vel grein fyrir þeim vandamálum sem þjaka íslenska skáta. „Já, en það er ekki nóg að gera sér grein fyrir vandamálunum – þú verður að koma með einhverja tillögu til úrbóta“, segið þið.

Já, vissulega og það er einmitt gott og vel skipulagt fjallarekkastarf sem getur leyst málið – að minnsta kosti þetta vandamál með „ungu sveitarforingjana“. Að vísu verða nokkir erfiðleikar á vegi okkar í fyrstu, en síðar, þegar fjallarekkastarfið er orðin snar þáttur í starfi okkar, fáum við eldri og betur menntaða sveitarforingja.

Að síðustu vona ég að skátaforingjar láti heyra frá sér um þennan mikilvæga hluta skátastarfsins sem ég hef gert hér að umtalsefni, sérstaklega vegna þess að einmitt núna er nefnd að störfum á vegum bandalagsins til að gera út um þetta stórmál.

proppe

Ólafur Proppé