„Dagurinn fór frábærlega af stað og stemmningin er hreint út sagt ótrúleg” segir Sölvi Melax, kynningarfulltrúi World Scout Moot en í dag er mikill hátíðisdagur á mótinu.

Dagurinn hófst á andlegu nótunum með katólskri messu sem fylgt var eftir með fjölmenningarlegri trúarathöfn. Þá tók við opin fjölmenningardagskrá (Walk-in-activites) þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá af ýmsum tagi.

Nú eftir hádegið hefst alþjóðlegt carnival þar sem þar sem þátttökuþjóðirnar kynna margvíslegt markvert frá sínu heimalandi og menningarsvæðum og mun fjölbreytt tónlist, fatnaður og dansar undirstrika fjölbreytileika mótsins.

„Í dag er einnig opinber heimsóknardagur mótsins og er von á fjölmenni gesta sem koma og fá skátaævintýrið beint í æð“ bætir Sölvi við. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, lætur skátamótið að sjálfsögðu ekki fram hjá sér fara og var hann að renna í hlað rétt í þessu.

Ljósmynd: Nicolas Mercier