Fossbúar bjóða til afmælisveislu í tjaldbúð sinni morgun í tilefni af 70 ára afmæli félagsins. Sjö metra afmæliskaka verður á meðal þess sem boðið verður upp á í veislunni. Í slíkan veisluundirbúning veitir ekki af stóru eldhúsi en það er einmitt að finna í Önnu EA, einu best búna línuveiði skipi heims.

Fossbúar voru stofnaðir þann 28. júlí 1944 og fagna því 70 ára afmæli sínu nú um helgina. Þrátt fyrir að formlegu afmælisdagur sé ekki fyrr en á sunnudag ætla Fossbúar að gefa landsmótsgestum tækifæri til að samgleðjast með sér og nýta sér því hátíðardag mótsins.

Höfuðdjásn veislufanganna er sjö metra afmælisterta sem bökuð var á Selfossi. Þaðan var henni ekið með viðhöfn til Reykjavíkur, þá um borð í vél Flugfélags Íslands sem flaug henni hingað norður og þaðan fór hún um borð í Önnu EA. Þar verður lokafrágangur kökunnar unninn, skyrkreminu makað á og félagsmerkinu úr gómsætu marsipani komið fyrir. Einnig verður boðið upp á kleinur og kókómjólk en allar veitingarnar eru með upprunavottorð frá Selfossi!

Afmælisveislan hefst kl. 15:00 í tjaldbúð Fossbúa á flöt nr. 13.

Fyrir þá sem eru áhugasamir um þetta fljótandi Fossbúaeldhús má geta þess að skipið er með brunn í miðju skipinu, fremst í vélarrúmi þar sem línan er dregin í gegnum en fá skip í heiminum eru þannig útbúin. Skipið er smíðað í Noregi árið 2001 og er 52 metrar að lengd, 11 metrar á breidd og brúttóþyngd þess er 1.425 tonn – þar hafið þið það!