Foreldrar rata í skátana

Tækjaglaðir og fróðleiksfúsir Selir fjölmenntu í gærkvöldi á námskeið um GPS staðsetningartæknina sem haldið var í skátahúsinu við Kópavogslækinn. Sigurður Jónsson félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og um skeið yfirleiðbeinandi í rötun hjá Landsbjörgu leiddi þátttakendur í allan sannleika um GPS tæknina og rétta umgengni við tækin.

Hafi þátttakendur haldið að þeir væru komnir til að fá lausn alls síns áttunarvanda var Sigurður fljótur að koma þeim niður á jörðina. ,,GPS tækið má aldrei vera eina úrræðið,“ segir hann og nefnir nokkur dæmi af bilun í tækjum og seinheppnum ferðalöngum því til staðfestingar. ,,Þið þurfið að kunna á áttavita og grunnatriði í rötun. Það er mikilvægt að átta sig á korti, því þegar þokan skellur á er mikilvægt að vita hvar maður er. Takið því kortið reglulega upp þegar þið eruð á göngu.“

Mikill áhugi var fyrir námskeiðinu

Mikill áhugi var fyrir námskeiðinu

Sigurður fór yfir grunnatriðin í þeirri tækni og tækjabúnaði sem liggur að baki merkjasendingum frá gervitunglum og leiðréttingarmerkjum frá búnaði á landi, sem gefur okkur nákvæmni í staðsetningu upp á 2 – 3 metra radíus. Sagði frá nauðsyn þess að uppfæra hugbúnað í tækjunum, mismunandi stillingum á tækjum, mismunandi hnitasetningu korta og hvernig færa má punkta úr tækjum inn á aðrar tölvur. Þátttakendur lærðu að setja inn punkta, velja áfangastað og skilja mun á Route og Track.

Námskeiðið stóð í þrjá tíma sem voru fljótir að líða en Sigurður brýndi fyrir þátttakendum að það gæfi aðeins innsýn í þessa tækni. Mikilvægt væri að æfa notkun tækjanna og hann stakk upp á því að haldin yrði æfing með rötunarleikjum er himintunglið bjarta hækkaði á lofti og var því vel tekið.

Skátasveit foreldra

Selirnir sem stóðu fyrir námskeiðinu eru skátasveit foreldra, eldri Kópa og annarra sem vilja fá tækifæri til taka þátt í skátastarfi. Hugmyndin að GPS námskeiðinu kom fram á opnu hugmyndaþingi Selanna í haust og í tengslum við þá vakningu buðu þeir félagsráði og stjórn Kópa að koma meira inn í viðburði á vegum félagsins og/eða skátasveita í samvinnu foringja og Sela. Í boði er að Selir miðli þekkingu sinni til foringja félagsins og jafnvel leggi þeim lið við skátastarfið. Rætt hefur verið um ýmiss konar námskeið, til dæmis í ljósmyndun, rötun, ullarvinnslu, video, hjólaviðgerðum, heimasíðugerð eða hverju því sem fólki dettur í hug. Hugmyndablöð til að sýna hvernig þetta gæti virkað voru útbúin og kynnt. Tilboð um aukna þátttöku er enn í deiglunni, en þó er afráðið að næsti áfangastaður verði verkefna- og smiðjudagar, sem líklega verða haldnir í febrúar.

GSM_3

Tengt efni:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar