Í gær fór fram kaffishúsakvöld í Skálanum, Skátaheimili Mosverja. Kaffishúsakvöldið var fjáröflunarkvöld fyrir Skálann, skátaheimili sem Mosverjar keyptu sl. haust. Síðustu vikur hafa farið í  að standsetja salinn í skátaheimilinu til þess að hægt verði að leigja hann út og þar með auðvelda reksturinn á húsinu.

Auglýsingin fyrir kvöldið lofaði m.a Bræðrabandinu, töfrabrögðum, leynigest og flugeldasýningu. Þar sem notkun flugelda er aðeins leyfð samkvæmt lögreglusamþykkt dagana 28.-31. desember og 6. janúar fór bara fram sýning á flugeldum. Þeim verður svo skotið upp 28. desember n.k.

Einnig var boðið upp á dýrindis veitingar: heitt kakó, vöfflur, kaffi og súkkulaðitertu.

Mosverjar vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra er lögðu leið sína í Skálann í gær og einnig sérstakar þakkir til allra þeirra er tróðu upp og skemmtu. Rikk Tikk fyrir þeim.

Að lokum skora Mosverjar á önnur félög að standa fyrir skemmtikvöldum svo við skátarnir getum haft gaman saman.