Íslenskir skátar eiga fjölmörg tækifæri til ungmennaskipta og þátttöku í dagskrá hjá Evrópu unga fólksins. Þeir geta einnig boðið sig fram sem sjálfboðaliðar í skátamiðstöðvum og sumarbúðum erlendis. Þá geta skátasveitir og skátafélög einnig nýtt sér fjölmörg boð um erlend skátamót eða önnur samskipti.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við alþjóðaráð um starfið og við kynnum einnig fólkið sem er í ráðinu. Hver eru þau og hvaða áherslur vilja þau leggja?  Á næstu vikum segjum við svo frá öðrum starfsráðum Bandalags íslenskra skáta (BÍS).

Íslenskir skátar eru virkir þátttakendur í heimssamtökum skáta og alþjóðaráð BÍS heldur utan um þau mál. Það annast samskipti bæði við alþjóðleg samtök skáta, WOSM og WAGGGS, sem og erlend skátabandalög. Þá annast ráðið kynningu á erlendu skátastarfi til íslenskra skáta, sem og kynningu á íslensku skátastarfi erlendis. Allt að sjálfsögðu í samvinnu við starfsmenn Skátamiðstöðvar.

AlradSML_0043Sameindalíffræðingur, bóksali, húsasmiður, fálkaskátaforingi og píanósnillingur

Í alþjóðaráði eru fjórir skátar auk formannsins, Jóns Þórs Gunnarssonar.  Við áttum samtal við Jón Þór eftir kjör hans á síðasta skátaþingi og birtist það hér á Skátamálum > Skátastarf er alþjóðastarf .

Nú tókum við aðra í alþjóðaráði tali.

Arnór Bjarki Svarfdal er 23 ára líffræðingur, kennari, bóksali og margt fleira eins og hann segir sjálfur.  „Ég er í alþjóðaráði vegna þess að alþjóðastarf skátanna er sennilega það lærdómsríkasta og skemmtilegasta sem ég geri  og ég vil hjálpa öðrum skátum njóta sömu tækifæra og ég hef notið. Mér finnst gaman að kynna alþjóðastarf, vinna með fólki frá ýmsum löndum, ogsvo hef ég bara svo nördalegan áhuga á skrítnum fyrirbærum á borð við WOSM,“ segir Arnór Bjarki, sem kemur úr skátafélaginu Svönum á Álftanesi.

En hvaða skemmtilegu staðreynd vita fáir um Arnór Bjarka?  „Ég tala Esperanto!“

AlradSML_0044
Liljar og Fríða, sem er með félagsklút frá Svíþjóð, frá skátafélagi í Gautaborg

Fríða Björk Gunnarsdóttir er einnig 23 ára lífefna- og sameindalíffræðingur. „Mér fannst mjög spennandi að fá tækifæri til að starfa í einhverju af fastaráðum BÍS og fannst alþjóðaráð alltaf mjög spennandi ráð. Þegar Jón Þór hringdi í mig fyrir nokkrum árum og spurði hvort ég hefði áhuga á að bjóða mig fram ákvað ég að slá til og hér er ég enn,“ segir Fríða Björk, en hún starfar einnig sem fálkaskátaforingi í skátasveitinni Þórshamri í Landnemum.

„Skilningur, umburðarlyndi og opinn hugur,“ segir hún vera það sem komi sér best í alþjóðastarfinu, en hvaða skemmtilegu staðreynd vita fáir um Fríðu Björk?  „Ég get skrifað með Tengwar álfaletrinu úr LOTR og get sett báða fótleggi aftur fyrir höfuð :)“

Berglind Lilja Björnsdóttir er tvítug og kemur frá Akureyri.  „Af því að ég elska skátastarf og vil leggja mitt af mörkum til að gera skátastarf á íslandi enn betra,“ er ástæða Berglindar fyrir starfinu með alþjóðaráði.  En hvað kemur sér best í þessu starfi?  „Þekking á erlendum tungumálum kemur sér klárlega mjög vel en svo skiptir líka miklu máli að vera með gott tengslanet innan skátahreyfingarinnar,“ segir hún, en hvaða skemmtilegu staðreynd vita fáir um Berglindi? „Ég er með framhaldsstigspróf á píanó og ég er mjög góð í að þylja upp aukastafina af pí.“

Liljar Már Þorbjörnsson er 24 ára húsasmiður sem nú er við nám í tölvunarfræði. Hann hefur áhuga á ungmennahreyfingum, ferðalögum, heimsfriði og heilsurækt. „Ég byrjaði í alþjóðaráði því ég vildi stuðla að sterku fjölbreyttu alþjóðastarfi fyrir bæði innlenda og erlenda skáta. Svo óttaðist ég um þegar ég yrði 22 að það væri aðeins foringjastörf sem biðu mín innan skátastarfs. Í þessum félagsskap fæ ég enn að upplifa skátastarfið,“ segir Liljar Már.

Hver er svo hin skemmtilegu staðreynd sem fáir vita um Liljar Má? „Hitti einu sinni Bear Grylls baksviðs á Alheimsmóti skáta í Svíþjóð eftir að hann var búinn að liggja í hugleiðslu í góða tvo tíma. Bað hann um að skipta á skátaklút við mig.  Hann hló að mér og sagði nei, en gaf mér high five og eiginhandaráritun.“

AlradSML_0037
Arnór með einkennisklút Kandersteg og Liljar setti einkennistákn Messenger of Peace um hálsinn.

Margvíslegir möguleikar eru í boði

„Ég vil að sem flestir íslenskir skátar nýti sér þau tækifæri sem eru í ungmennaskiptum og annarri dagskrá hjá Evrópu unga fólksins,“ segir Arnór Bjarki þegar kemur að spurningunni um áherslur sem þau vilja leggja í starfi alþjóðaráðs.

Fríða Björk tekur undir það og segir betri miðlun vera lykilinn að því markmiði að leyfa flestum að njóta. „Aukið upplýsingaflæði um minni mót sem sveitir og félög geta farið á, ásamt því að fjölga þeim íslendingum sem fara erlendis til að vinna eða vera sjálfboðaliðar í miðstöðvum og sumarbúðum erlendis,“ segir hún vera á óskalistanum.

Berglind Lilja kemur með gott dæmi um hvernig færa megi alþjóðastarfið nær skátunum. „Á landsmótinu síðasta sumar var Alþjóðaráð með dagskrátjald í opnu dagskránni. Við vorum með fjölbreytt verkefni fyrir krakkana að leysa og svo fengu þau merki fyrir að klára öll verkefnin. Þetta verkefni gekk mjög vel upp og var tjaldið troðfullt af brosandi krökkum allt mótið,“ segir Berglind stolt af þessu framtaki þeirra.

Liljar Már segir að alþjóðastarf snúist ekki aðeins að pakka ofaní tösku og drífa sig út á flugvöll. „Ég vil að skátar um allan heim fari að styrkja vináttuböndin gegnum þessa frábæru tækni sem við höfum í dag. Internetið er landamæralaust, nýtum okkur það,“ segir Liljar.

Hann leggur einnig áherslu á friðarboðskap skáta og segist vera stoltastur af þátttöku sinni í slíku verkefni, en hann tók þátt í setningu Messengers Of Peace verkefninu í Saudi Arabíu, fylgdi  því síðan eftir til Singapúr og tók að endingu þátt í Friðarþinginu í Hörpu.  „Skátar eru boðberar friðar og við eigum mörg tækifæri til að gera heiminn að betri stað,“ segir Liljar.

AlradSMLogS_0045

Öðruvísi upplifun af skátastarfi

Hvað er eftirminnilegast úr starfinu í alþjóðaráði eða alþjóðastarfi almennt?

„Það sem stendur mest upp úr hjá mér er ævintýri mitt í sumar, þar sem ég var sjálfboðaliði í alþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg. Það er líklega það besta sem ég hef gert á ævinni og ég þreytist ekki á því að segja fólki frá því. Ég hef líka gert ýmislegt annað og eftirminnilegar eru t.d. tjaldútilegur í Sádi Arabíu, kvöldvökur í þýskum skátakastala og borgarastyrjöld á þýsku skátamóti,“ segir Arnór Bjarki og um það sem alþjóðastarfið hafi gefið honum segir hann: „Fyrst og fremst nýja vini, stórt tengslanet um allan heim og innsýn í stórkostlega ólíka menningarheima. Ég hef líka lært að taka ábyrgð og hugsa út fyrir kassann.“

Það er ekki hik á svari þegar spurt er um hvað mest er spennandi framundan. „Ég er á leiðinni til Kandersteg aftur og hlakka mikið til þess,“ segir Arnór.

Fríða Björk nefnir einnig eins og Arnór marga eftirminnilega viðburði.  „World Scout Moot í Kenýa 2010 þar sem við fórum í safarí og lentum í allskonar ævintýrum er mjög ofarlega á listanum því að það var svo allt öðruvísi en allt sem ég hafði upplifað áður í skátastarfi.  Að standa með 40.000 skátum allstaðar að úr heiminum of veifa skátaklútunum okkar á Sunrise day á Jamboree 2007 í Bretlandi var engu líkt og svo fannst mér líka æði að eyða heilu sumri í Bandaríkjunum þar sem ég vann í sumarbúðum í Kentucky fyrir Girl Scouts of America,“ rifjar Fríða Björk upp og aðspurð um hvað alþjóðastarfið hafi gefið henni. „Svo rosalega margt! Nýja vini, nýja sýn á heiminn, menningarvitund, skilning og virðingu á lífi og menningu annarra.“  Af dagskránni framundan er Fríða spenntust fyrir Roverway 2016. „Og svo að sjálfsögðu World Scout Moot á Íslandi 2017,“ segir hún.

AlradSML_0059
Berglind með þýskan skátaklút, Arnór og Liljar

Berglindi Lilju finnst einnig áhugavert að ferðast erlendis og kynnast fólki frá öllum heimshornum. „Ég hef lært mikið um menningu í öðrum löndum og ég hef eignast mikið af góðum vinum, bæði íslenskum og erlendum í gegnum alþjóðastarf,“ segir hún.  „Ég ætla að fara á Roverway sem er skátamót í Frakklandi sumarið 2016 og er mjög spennt fyrir því,“ segir Berglind um spennandi viðburði framundan.

Liljar tekur undir með Berglindi um reynslu af menningu annarra þjóða. „Þeir ótal menningarheimar sem ég hef fengið að heimsækja sem allir eiga það sameiginlegt að hafa frábært skátastarf,“ segir hann og bætir við að alþjóðastarfið gefi endalaus tækifæri til að verða víðsýnni og veraldarvanari.

Liljar segist hafa það fyrir venju að finnast það sem er næst á listanum mest spennandi. „Núna er það Young Spokesperson Training í Prag í lok nóvember, en annað mætti nefna er Norðurlandaþing skáta sem við erum að halda næsta haust. Ég er í fararstjórnarhóp Íslands á Roverway 2016 í Frakklandi og svo erum við náttúrulega öll gífurlega spennt fyrir World Moot hérna heim 2017.“

 

Tengt efni:

Alþjóðastarf