Í gær var heldur betur líf í tuskunum á Úlfljótsvatni þegar hver rútan á fætur annarri mætti á svæðið, hver og ein troðfull af flottum skátum og farangri þeirra. Síðustu daga hafa skátarnir dvalið á ellefu dagskrársvæðum víða um landið en nú eru allir mættir á Úlfljótsvatn þar sem eitt af stærri byggðarlögum landsins reis á nokkrum klukkustundum.

Hverju byggðarlagi fylgir að sjálfsögðu ákveðin grunnþjónusta svo sem aðgangur að vatni, rafmagni, samgöngum, menntun, verslun og þjónustu svo dæmi séu tekin. Úlfljótsvatn er engin eftirbátur annarra byggðarlaga hvað það varðar og gerir reyndar betur á mörgum sviðum.

Fjölmenningarleg og fjölbreytt kaffihús

Á Úlfljótsvatni eru nú fleiri kaffihús per íbúa en dæmi eru um og því finna svo sannarlega allir eitthvað sitt hæfi. Hvert og eitt þeirra hefur skírskotun í tiltekna menningu og lífsviðhorf og því má með sanni segja að fjölbreytileikanum sem fagnað á kaffihúsum mótsins.

Á kaffihúsum Ítala, Svisslendinga, Ungverja og Hollendinga má gæða sér á yndislegu kaffi, mat og meðlæti að þeirra sið og íslenska kaffihús þeirra „Jellý-systra“ (Icelandic Country Café) nýtur gríðarlegra vinsælda en þar er boðið upp á margvíslega rétti sem hefð er fyrir hér á landi svo sem kleinur og fleira.

Kristín Birna

Skátavinkonur sem halda hópinn

„Við kynntumst allar í skátunum sem stelpur og höfum haldið saman síðan“, segir Kristín Birna Angantýsdóttir, ein „Jelly-systra“. Kristín Birna segir að þær stöllur hafi ávallt verið viðbúnar að takast á við margvísleg verkefni fyrir skátana og á skátamótum undanfarin ár hafi þær oft haldið úti kaffihúsi fyrir mótsgesti.

„Þetta er rosalega gaman og gefandi, auðvitað mikil vinna en gamla skátaklíkan klikkar aldrei og við ætlum okkur að gera eins vel og við getum sem endranær“ segir Kristín Birna. Þær stöllur eru með opið frá kl. 11:00 til 01:00 alla dagana og þetta er því mikil vinna.

„Við vorum einu sinni tvítugar en það eru nokkur ár síðan“ segir Kristín Birna hlægjandi. „Það var því ekki í boði að þessu sinni að standa þessar löngu vaktir og skríða síðan inn í tjald þar sem nærsamfélagið hrýtur og því leigðum við okkur sumarbústað og gistum þar meðan á mótinu stendur“.

„Það er skyldumæting í heita pottinn klukkan tvö eftir miðnætti – þar förum við yfir daginn og skipuleggjum næstu skref og stöndum svo klárar fyrir næstu vakt“ bætir Kristín Birna við.

Klikkað að gera

„Það er búið að vera bókstaflega klikkað að gera hér í kvöld“ segir Unnsteinn skipuleggjandi „Rainbow Café“ en þar var fullt út úr dyrum þegar blaðamann bar að garði.

„Okkar kaffihús er frábrugðið hinum að því leyti að hér erum við ekki með þjóðlega tilvísun heldur leggjum við áherslu á að skapa stemmningu sem fagnar fjölbreytileikanum og umvefur mismunandi lífsviðhorf. Hér á þessu móti er hver og einn algjör snillingur, sama hvaða „boxi“ hann hugsanlega tilheyrir í daglega lífinu og við leggjum okkur fram um að undirstrika slík gildi hér á „Rainbow Café“.