Dagana 17.-18. september stóðu Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni og Samtök áhugafólks um útinám fyrir ráðstefnu um Útinám.

Ráðstefnan, sem var haldin á Úlfljótsvatni, gekk mjög vel og var sótt af yfir 100 kennurum og tómstundafræðingum af öllum skólastigum. Hátt í 40 fyrirlestrar og smiðjur voru haldnar af fyrirlesurum frá sex löndum. Ráðstefnan, sem var styrkt af Erasmus+ og Evrópu Unga Fólksins (euf.is), dró saman fólk frá Pólandi, Slóveníu, Tékklandi, Englandi, Skotlandi og Íslandi. Fyrirlesarar komu frá útikennslumiðstöðvum og háskólum í Evrópu, þar á meðal Edinborgarháskóla en hann hefur lengi verið í fararbroddi við innleiðingu útináms í Skotlandi.

Reynsluboltar í pontu

Ráðstefnan hófst með ávarpi Helga Grímssonar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar en hann hefur lengi verið talsmaður útináms, ritað bækur um það og nýtt markvist í eigin starfi. Á eftir honum steig í pontu Beth Christie frá Edinborgarháskóla. Hún hefur bæði rannsakað útinám og skólabúðir ásamt því að vinna við kennslu nýrra kennara í Skotlandi og meta árangur útináms þar í landi. Beth tengdi eigin uppvöxt og reynslu við áhuga sinn á útiveru og síðar útinámi og námsferðum ýmiskonar í áhugaverðum opnunarfyrirlestri.

Gestir ráðstefnunnar gátu síðan valið á milli fjölda smiðja og fyrirlestra um efnið og varið því sem eftir var dagsins og sunnudagsins í að fræðast og læra nýja hluti.

Meðal þess sem var fjallað um voru áhrif útináms, sérstaklega námsferða, á árangur nemenda og það hvernig námsferðir eru gerðar þannig úr garði að þær geti skilað þessum árangri.

thatttakendur-1

Reglulegar ferðir bera mestan árangur

Fulltrúar Gilwell Park í Englandi fluttu fyrirlestur um Brilliant residentials for schools eða Frábærar námsferðir fyrir skóla. Brilliant residentials verkefnið er afrakstur fimm ára rannsóknarvinnu í Bretlandi þar sem leitast var við að kanna áhrif skólaferða á nám og árangur nemenda og setja niður hvað þarf að gera til að skólaferð geti talist frábærlega vel heppnuð.

Meðal þess sem kom fram í fyrirlestri þeirra var að námsferðir, og þá sérstaklega gistiferðir, hafa jákvæð áhrif á allt nám nemenda, ekki aðeins það sem snýr beint að ferðinni eða verkefnum hennar. Ferðirnar hafa einnig töluverð jákvæð áhrif á félagslega færni nemenda en þær eru vel til þess fallnar að efla samskipti nemenda og leyfa þeim að sjá hvern annan í öðru ljósi og öðrum aðstæðum en venjulega. Ávinningur þessara ferða er hins vegar ekki ótímabundin, það þarf í rauninni að endurnýja þessi áhrifa reglulega ef þau eiga að nýtast sem best. Það þarf með öðrum orðum að fara reglulega í námsferðir og þá sérstaklega gistiferðir á skólatímabilinu ef nemendur eiga að njóta þeirra áhrifa sem slíkar ferðir geta veitt.

Verkefnið lagði einnig mikla áherslu á það að aðrir kennarar sem vinna með nemendum séu vel tengdir við allan undirbúning og framkvæmd. Þannig verði til sameiginleg reynsla sem nemendur og kennarar geta nýtt í samstarfi sínu í framtíðinni. Þessi sameiginlega reynsla sé sérstaklega mikilvæg þegar um nemendur með sérþarfir eða nemendur sem standa höllum fæti félagslega er að ræða.

vorusynishorn-1

Mikil fjölbreytni og gróska í útinámi

Ráðstefnugestir lærðu einnig fjölda annarra áhugaverðra hluta. Sérstök námskeið voru um stafgöngu, leikræna tjáningu, útieldun og útistærðfræði. Rætt var um uppbyggingu skólabúða og útikennslu, uppbyggingu útisvæða, samskipti og einbeitingu í samskipum við ungmenni og manna á milli og farið í hlutverkaleiki með víkingavopnum.

Þetta var aðeins brot af því sem boðið var upp á en gestir voru almennt mjög ánægðir með ráðstefnuna og úrvalið af erindum. Helstu umkvörtunarefnin voru að geta ekki séð allt saman, því allt var svo áhugavert.

Það er ljóst af góðri þátttöku að það er töluverð gróska í útinámi og verkefnum tengdum því. Því var blásið til aðalfundar Samtaka áhugafólks um útinám á meðan á ráðstefnunni stóð. Nafni samtakanna var breytt á fundinum en þau hétu áður Samtök náttúru- og útiskóla. Um leið var skerpt á hlutverki og markmiðum félagsins og fjöldi nýrra félagsmanna gekk til liðs við það. Félagið mun í framhaldinu reyna að efla umræðu og samræðu um útinám og samstarf þeirra sem stunda kennslu á því sviði. Sérstaklega mun félagið einbeita sér að því að efla samskipti og upplýsingaflæði milli félagsmanna. Það má finna frekari upplýsingar um félagið á heimsíðu þess utinam.is.

utinam-ulfljotsvatn

Kveðja frá mennta- og menningamálaráðuneytinu

Því miður hafði mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki tök á að senda fulltrúa sinn á ráðstefnuna en sendi kveðju sína og óskaði eftir því að ráðstefnan sendi til baka skilaboð til ráðuneytisins um útinám. Ráðstefnugestir brugðust vel við þessari beiðni og sendu ráðuneytinu bréf sem má lesa á www.utinam.is

Þar er ráðuneytið hvatt til að huga betur að málefnum útináms og efla það með ráðum og dáð.

Það er óhætt að segja að ráðstefnan hafi gengið vonum framar. Gestir og fyrirlesarar fóru glaðir og innblásnir heim að lokinni langri helgi en jafnframt spenntir fyrir því að halda aðra ráðstefnu að ári, eða fyrr, enda málefnið brýnt.