Ekki bíða eftir að eldast

,,Maður verður aldrei of gamall fyrir skátana,“ segir hinn síungi skáti Hreiðar Sigurjónsson sem tók fyrir nokkrum árum að sér að leiða skátasveit á yngsta aldursstigi hjá skátafélaginu Hraunbúum í Hafnarfirði. ,,Einn skátinn spurði mig um daginn hvað ég væri gamall og þegar ég svaraði 62 ára, þá varð honum að orði: Vá, og getur ennþá hlaupið.”

,,Það er mjög gefandi og skemmtilegt að vinna með krökkunum,“ segir Hreiðar, en hann vinnur með drekaskátum sem eru á aldrinum 7– 10 ára. Hreiðar kaus að aldurskipta hópnum og er því með með tvær sveitir í sinni umsjá. ,,Mér fannst auðveldara að fylgja þessu eftir með þessum hætti. Þá verður meiri samfella í starfinu og auðveldara að byggja ofan á frá fyrra árinu,“ segir hann. Og ekki skemmir að hafa afa strákinn minn í yngri hópnum. Í eldri sveitinni, sem heitir Grábræður, eru 22 strákar og um 12 í þeirri yngri, Rauðúlfum.

Hér fyrir neðan eru svipmyndir úr starfinu og svo einnig fleiri inn á Facebook síðu skátanna.

Hreiðar í starfi með drekaskátunum. Hann er þessi fyrir miðri mynd.

Hreiðar í starfi með drekaskátunum. Hann er þessi fyrir miðri mynd.

Niðursuðudósasímar hitta í mark hjá iPad kynslóðinni

,,Starfið er nú bara hefðbundið skátastarf og svo hef ég stuðst við nýju handbækurnar sem eru mjög góð viðbót. Þetta er skemmtun, ærsl og gleði í bland við alvarlega tóna og íhugun,og öll gömlu trixin sem virka jafn vel í dag og í gamla daga,“ segir Hreiðar „Jafnvel iPad kynslóðin hefur gaman af síma sem er búinn til úr niðursuðudósum, að kveikja eld og matreiða, halda tombólu, smíða,“ segir hann um starfið sem byggist á vikulegum klukkustundar löngum fundum.
Aðstoðarsveitarforingjarnir Daði, Kristleifur, Svanur, Bjarni og Haukur, sem allir eru í Rekkaskátunum hjálpa til með að halda fundina með Hreiðari. Þá segir Hreiðar að síðast en ekki síst hafi Unnar, pabbi sem upphaflega beið eftir strákunum sínum frammi á gangi meðan á fundi stóð, hafi aðstoðað sig ómetanlega undanfarin tvö ár. Unnar byrjaði á að létta undir en er nú kominn vel inn í starfið. „Og ég held að hann fái bara heilmikið út úr því,“ segir Hreiðar glaður í bragði.

Smíðarnar vekja ávallt áhuga.

Smíðarnar vekja ávallt áhuga.

Þetta gamla góða með dassi af nýjum áherslum

– Hvað kom til að Hreiðar tók að sér skátasveit?

„Í raun snérist þetta um það hjá mér að fara heim á þriðjudögum eftir vinnu, og slappa af, lesa blöðin,leggja sig eða undirbúa matinn og bíða eftir að eldast eða t.d. fara á skátafund. Og það verður að segjast að það gefur mikið að ögra sér, með því að reyna að hemja og stýra þróttmiklum strákaormum í skátastarfi og jafnvel að reyna að koma einhverjum af gömlu góðu gildunum inn í kollinn á þeim. “ segir Hreiðar og á þá meðal annars við skátalögin sem hann tengir við þjóðfélagsumræðuna. ,,Þetta er samhljóma við gildin sem þjóðin valdi á þjóðfundinum“.
„Það eru svo sem ekki mörg ár síðan í minningunni að miklir vinir mínir Rúnar Brynjólfsson heitinn og Hörður Zóphaníasson tóku að sér ylfingasveit, sem drekaskátarnir hétu þá, með sama aldurshópi og stýrðu henni með glans. Mér fannst þeir þá háaldraðir, á svipuðum aldri og ég er í dag. Margir af þeim strákum sem voru í þeirri sveit eru ennþá viðloðandi Hraunbúana í dag og eru búnir að vera mikill styrkur við félagið í gegnum árin svo trúlega gerðu þeir eitthvað rétt. Kannski kveikti þetta líka í mér að ég gæti þetta.“

Kanó var settur á tjörnina við Víðistaðatún. Allt verður að ævintýri.

Kanó var settur á tjörnina við Víðistaðatún. Allt verður að ævintýri.

Eldhressir skátagamlingjar upp úr sófunum

Hreiðar segir að skátahugsjónin eigi fullt erindi í nútíma þjóðfélagi og kannski sem aldrei fyrr. „Það er hægt að nota nánast allt þetta gamla góða áfram, með góðu „dassi “ af þessum nýju og flottu áherslum sem sem unnið er ötullega að hjá bandalaginu í dag . Gamalt og nýtt getur farið svo ágætlega saman og þarf algerlega á hvoru öðru að halda“, segir Hreiðar, sem hvetur eldri skáta til að koma á fullu inn í starfið á ný. „Standið upp úr sófunum þið eldhressu „skátagamlingjar“og gerið það sem þið kunnið best og finnst skemmtilegast. Vinnið með krökkunum í skátastarfi, frekar en fyrir þau. Það er aldrei of seint og hverrar mínútu virði, okkur vantar foringja, líka gamla“.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar