Síðastliðinn sunnudag hittust drekaskátar af höfuðborgarsvæðinu í Mosfellsbæ og tóku þátt í fjörugum póstaleik!
Dagskráin var úti og skátarnir gengu stóran hring með foringjum sínum í kringum Álafosskvosina og stoppuðu á nokkrum stöðum til að leysa skemmtilegar þrautir.

Dagurinn einkenndist af gleði, söng, þrautseigju og snilli. Þema dagsins var byggt á  Dýrheimasögm (e. Jungle book) og þrautirnar voru margvíslegar. Til dæmis reyndi á traust hópsins þegar skátarnir fóru í traustaleik, þau æfðu sig í samvinnu og lærðu umgengni við náttúruna.

Uppáhalds verkefnið okkar var samfélagsverkefni dagsins, að týna rusl í poka. Hver hópur fékk 1 poka til að fylla af rusli, en skátarnir voru svo duglegir að margir hópar voru komnir með nokkra auka poka og týndu ótrúlegt magn af rusli! Skáti er sko náttúruvinur og drekaskátarnir eru með það á hreinu!

Drekaskátadagurinn tókst mjög vel upp og voru þátttakendur mjög heppnir með veður, það var sól, lítill vindur og engin rigning eða snjókoma! Reyndar var svolítið kalt en þá var bara um að gera að klæða sig vel og hreyfa sig!

Dagskrá lauk svo með kakó og kexi við skátaheimili Mosverja.

Takk fyrir daginn allir og sjáumst á Drekaskátamóti í sumar!

Hér má sjá fleiri myndir frá Drekaskátadeginum.