Drekar á neyðarlínunni

Í tilefni hins árvissa 112 dags fékk drekaskátasveitin í Vífli góðfúslegt leyfi til að æfa sig í að hringja í neyðarlínuna. Unnsteinn Jóhannsson foringi sveitarinnar sagði það hafa átt sérlega vel við þar sem að þema á fundinum á þriðjudag var einmitt „Skáti er hjálpsamur“.

Hver og einn drekaskáti fékk að hringja í 112 og láta eins og eitthvað hefði komið fyrir. „Það var gaman að fylgjast með drekunum sem allir stóðu sig frábærlega, byrjuðu á að segja nafnið sitt, svo hvað bjátaði á og tóku skýrt fram að „slysið“ hefði átt sér stað í Jötunheimum, Bæjarbraut 7 í Garðabæ,“ sagði Unnsteinn.

Það sem Unnsteini fannst eftirminnilegast var saga eins drengsins í sveitinni sem átti ekki erfitt með að sækja í ímyndunaraflið. Þegar hann var spurður um hvað hefði komið fyrir stóð ekki á svörum; „Ég er fastur inn í skáp,“ sagði hann pollrólegur. Sagan sem hann var búinn að skálda upp var sú að hann hefði farið í feluleik með drekaskátasveitinni kvöldið áður og nú 24 tímum seinna var hann læstur inní skáp og enginn í skátaheimilinu. Starfsmaður neyðarlínunnar átti í stökustu vandræðum með að leyna hlátri sínum yfir þessari frábæru sögu.

„Það var lærdómsríkt að fá að hringja í neyðarlínuna og erum við mjög þakklát þeim starfsmönnum sem tóku á móti símtölunum og hvöttu skátana til dáða og útskýrðu hvað myndi gerast ef símtölin væru í raun og veru sönn,“ sagðu Unnsteinn.

drekar-og-neyðarlínanB

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar