Efnis sem tengist Úlfljótsvatni svo sem námskeið, viðburðir og fleira.

Neysluvatnið á útivistarsvæðinu á Úlfljótsvatni er ómengað og olli ekki magakveisunni sem gekk yfir svæðið á dögunum. Vatnssýni voru send til Finnlands og niðurstöður þaðan staðfesta að vatnið er hreint og hæft til drykkjar.

„Við áttum svosem ekki von á öðru, en auðvitað er samt léttir að fá þessa staðfestingu. Við höfum verið að sjóða neysluvatn eða flytja það á staðinn í flöskum. Nú getum við farið að nota kranavatnið aftur,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Það bendir allt til þess að einn gesturinn hafi komið með veiruna óafvitandi á svæðið og hún breiðst þaðan á meðal fólks. Það hefur hins vegar ekki borið á neinu eftir að þeir fóru heim aftur.“

Alls var 181 skáti fluttur í fjöldahjálparstöð í Hveragerði þegar smitið kom upp, en tæplega helmingur hópsins veiktist. Veikindin gengu þó fljótt yfir og urðu ekki alvarleg. Eftir að síðustu gestirnir voru farnir heim var ákveðið að loka Úlfljótsvatni fyrir gestum á meðan á þrifum stæði.

„Við ákváðum að hafa lokað í rúmar þrjár vikur, en það á að duga til að vera viss um að veiran sé dauð. Við höfum líka farið eftir leiðbeiningum frá Landspítalanum, sóttvarnalækni og heilbrigðiseftirlitinu varðandi þrif og sótthreinsun. Hér verður því allt hreint, fínt og heilsusamlegt þegar við opnum aftur 8. september. Þetta hefur verið heilmikið og lærdómsríkt ferli, en nú hlökkum við til að geta farið aftur að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, að taka á móti æskulýðshópum og fjölskyldum,“ segir Elín að lokum.

Í tilefni af 100 ára skátastarfi á Akureyri býður Skátafélagið Klakkur, Akureyringum og landsmönnum öllum í útilegu að Hömrum helgina 18. – 20. ágúst. Tilvalið tækifæri fyrir alla að nota útilegugræjurnar a.m.k. einu sinni enn fyrir veturinn.

Í boði eru frí tjaldsvæði og skemmtileg dagskrá á einu vinsælasta tjaldsvæði landsins. Svæðið opnar kl 16:00 á föstudag og verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá í boði frá föstudagskvöldi til hádegis á sunnudag. Nánari upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu skátafélagsins www.klakkur.is Einnig er hægt að hafa samband við Jóhann Malmquist á netfangið johann@hamrar.is eða í síma 6997546

Bátar – Vatnaþrautir – Hoppukastalar – Hjólabílar – Varðeldur – Kaffihús  – Folf – Gönguferðir – Náttúruskoðun – Skátatívolí – Minigolf – Ratleikur

Akureyri – Skátastarf í 100 ár

Síðustu skátahóparnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni þegar nóró-veirusýking kom upp í síðustu viku héldu heim á leið í morgun. Í framhaldinu tekur við hreinsunarstarf. Stefnt er á að staðurinn geti opnað aftur eftir þrjár vikur fyrir hefðbundna hauststarfsemi.

„Í raun ætti að duga að sótthreinsa allar byggingar sem hafa verið notaðar af þeim sem veiktust, en við viljum gæta fyllstu varúðar í þessum efnum,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Hér er starfsemi fyrir hópa allt árið og við viljum vera alveg örugg um að þessi kafli sé að baki áður en við höldum inn í haustið.“

Því hefur verið ákveðið að taka ekki á móti gestum í þrjár vikur. „Það miðast af mögulegum líftíma veirunnar og eftir þann tíma ætti vandamálið að vera úr sögunni. Næstu dagar munu svo fara í það hjá okkur að ákveða næstu skref, þrífa og gefa starfsfólkinu smá hvíld. Það hefur mætt mikið á öllum en á starfsmannafundi í dag var góður andi og mikill vilji til að klára þetta verkefni með gestum okkar.“

Auk starfsfólks og sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar hafa fjölmargir lagt hönd á plóg síðustu daga. „Rauði krossinn og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa reynst okkur gríðarlega vel, en líka lögregla, björgunarsveitir, heilbrigðiseftirlitið, bæjaryfirvöld í Hveragerði, Garðyrkjuskólinn og margir fleiri sem hafa veitt okkur ómetanlega aðstoð og fyrir það erum við þakklát.“

Nokkrir skátar sem dvöldu í fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði um nýliðna helgi hafa veikst í dag. Einkennin eru þau sömu og hjá þeim sem veiktust á aðfaranótt föstudags, uppköst og niðurgangur, en staðfest var að þá væri um nóró-veiru að ræða.

„Okkur skilst að þetta sé ekki óvenjulegt við þessar aðstæður, að einkenni komi seinna fram hjá sumum en öðrum og að í kjölfarið séu líkur á einhverjum smitum til viðbótar. Það var því allt eins von á þessu,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns, en þar dvelja skátarnir.

„Við höfum búið um þá veiku í sér húsi og höfum fengið lánaða bedda frá Rauða krossinum ef ske kynni að okkur skorti rúm. Alls hafa fimm einstaklingar veikst í dag og búið er að aðskilja þá frá öðrum á meðan þetta gengur yfir. Við erum í reglulegu sambandi við heilbrigðisstarfsfólk sem stýrði hjálpinni sem við fengum um helgina og á þessu stigi er ekki litið svo á að þörf sé á frekari aðgerðum,“ segir Elín.
„Á þessum tímapunkti er ekkert sem bendir til þess að það sé eitthvað á staðnum sem veldur þessu, en nú verður allt kapp lagt á að koma í veg fyrir frekari smit á milli fólks.“

Síðustu skátarnir sem höfðu sýkst af nóró-veiru voru útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði rétt fyrir klukkan 10 í morgun. Þar með er formlegum aðgerðum lokið en fjöldahjálparstöðin var opnuð aðfararnótt fimmtudags eftir að fjöldi skáta á Úlfljótsvatni veiktist.

Alls voru 181 skáti fluttur í Hveragerði en af þeim veiktust um 70 á einhverjum tímapunkti.

„Ég held ég hafi aldrei séð eins ánægt fólk og þegar síðustu skátarnir komu út í morgun,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Þau drógu djúpt andann og hlógu, enda sum verið lokuð inni með veiku fólki frá því að fjöldahjálparstöðin opnaði.“

„Það sem stendur uppúr er hvað allir sem komu að þessari aðgerð hafa verið einsettir í því að gera líf okkar auðveldara,“ segir Elín. „Það hefur verið mikil huggun í því að finna fyrir því öryggisneti sem sett var upp fyrir okkur, og hversu vel hefur verið hugsað um okkur. Ég vil því endilega nota tækifærið og þakka öllum sem hafa komið að þessari aðgerð fyrir. Rauði krossinn, heilbrigðisstarfsfólk, björgunarsveitir, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar voru fljótir til að bregðast við kalli um aðstoð en líka bæjaryfirvöld í Hveragerði og fjöldi einstaklinga, meðal annars úr skátahreyfingunni, sem hefur tekið að sér stærri og minni verkefni.“

Af þeim fimm hópum sem voru á Úlfljótsvatni þegar sýkingin kom upp hafa tveir þegar flogið heim. „Þriðji hópurinn fer svo í fyrramálið og þeir tveir síðustu aðfararnótt miðvikudags,“ segir Elín.

Enn á eftir að fá niðurstöður úr sýnatöku Heilbrigðiseftirlitsins en Elín vonar að þær niðurstöður liggi fyrir á mánudag. Þangað til sé aðeins notað við aðflutt neysluvatn í flöskum.

Skátarnir sem fengu magakveisu á Úlfljótsvatni eru allir á góðum batavegi og munu væntanlega langflestir útskrifast af fjöldahjálparstöðinni í kvöld eða á morgun. Búið er að gera ráðstafanir vegna gistingu fyrir þá þegar þeir útskrifast. Þeir sem þurfa munu fá nýjan viðlegubúnað í stað þess sem eyðilaðist í veikindunum. Það eru skátar að taka saman eigur skátana og koma þeim til þeirra í Hveragerði en skátarnir þurftu að skilja allan búnaðinn sinn eftir í nótt þegar þau fóru í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði. Búið er að senda skátana sem ekki veiktust í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði og skátaheimilið í Hveragerði. Sóttvarnarlæknir hefur gefið út staðfestingu á því að um sé að ræða Nóróveiru. Skátarnir sem veiktust munu hins vegar búa áfram í grunnskólanum í Hveragerði fram á sunnudag. Það voru alls 63 erlendir skáta sem sýktust af Nóró veirunni. Fylgst verður með skátunum áfram og gripið til aðgerða ef vart verður við einkenni að nýju.

Heilbrigðiseftirlitið vann við rannsóknir við Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni í dag og tók sýni. Heilbrigðisteftirlitið gaf skátunum leyfi til þess að grípa til viðeigandi aðgerða til að sótthreinsa svæðið þannig að unnt sé að opna það að nýju. Stefnt er að því að opna svæðið strax á sunnudagskvöld.

Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir að Bandalagið harmi þennan atburð en segist vera ánægður hve skjótt var brugðist við og að allir skátarnir sem sýktust muni ná sér að fullu. Hann segir að ennfremur að fyrirhugað skátamót ,,Camp Iceland“ sem átti að vera á Úlfljótsvatni hefur verið fært í Hafnarfjörð þar sem dagskrá mótsins verður aðlöguð nýjum aðstæðum.

Hermann segir að það sé ljós í myrkrinu að Nóró veiran hafi ekki farið að grassera þegar voru um 5.000 erlendir skátar á svæðinu á alþjóðlega skátamótinu sem er nýlokið.

Hermann þakkar heilbrigðisyfirvöldum og viðbragðsaðilum fyrir skjót viðbrögð.