Efnis sem tengist Úlfljótsvatni svo sem námskeið, viðburðir og fleira.

Um helgina var haldið stærsta Ungmennaþing skáta á Íslandi fram til þessa þegar hátt í 40 skátar mættu á Úlfljótsvatn.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi setti þingið á föstudagskvöldið. Hún flutti ávarp þar sem hún talaði um mikilvægi þess að unga fólkið tæki virkan þátt í skátastarfi í dag og að þeirra skoðun skipti miklu máli.

„Unga fólkið er ekki framtíðin, það er nútíðin“.

Þessi orð frá Mörtu voru svo sannarlega lýsandi fyrir anda helgarinnar. Dagskrá föstudagsins endaði með spurningakeppninni „Ertu skarpari en fálkaskáti?“ en þau Benedikt Þorgilsson og Hulda María Valgeirsdóttir unnu keppnina.

Ungmennaþing 2018

Skátarnir að þinga!

Á laugardeginum fræddust þátttakendur um Skátaþing og hvernig á að komast í ráð og nefndir.  Einnig var fjallað um jafningjafræðslu og radíóskátun. Þátttakendur fengu kynningar á alþjóðlegum viðburðum framundan s.s. Agora, Jamboree 2019 og Landsmóti rekka- og róverskáta í sumar. Í Skátamasinu var rætt um hin ýmsu málefni eins og vefsíðu skátanna, fjölgun í skátastarfi, róverskátar 100 ára, sveitaforingjann o.fl. Ekki má gleyma leikjunum sem var farið í á milli dagskrárliða en það var Urður Björg Gísladóttir sem vann stólaleikinn mikla.

 

Þá var komið að þinginu sjálfu. Þar var mikið rætt og þá sérstaklega um aldur félagsforingja og að ungmenni hefðu aukin atkvæðarétt fyrir hönd skátafélaga á skátaþingi. Eftir þinghöld var komið að því sem allir biðu eftir. Fyrstu árshátíð rekka- og róverskáta á Íslandi. Allir fóru í sitt fínasta púss og komu saman í matsalnum þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð. Síðan var haldið í Norðursal þar sem dansað var fram eftir kvöldi.

Þegar búið var að þrífa Úlfljótsvatn á sunnudeginum var ákveðið að kíkja á Fræðasetur skáta þar sem Gunnar Atlason fræddi okkur um sögu skátastarfs á Íslandi. Helginni lauk svo í sundlaugarpartýi á Selfossi og fóru þátttakendurnir fullir eldmóðs heim, sannfærðir um að unga fólkið muni breyta heiminum!

 

Vetrarmót SSR

Vetrarmót Reykjavíkur var haldið í fjórða sinn um síðustu helgi í skátaparadísinni á Úlfljótsvatni. Rúmlega 150 skátar úr öllum átta skátafélögunum í Reykjavík tóku þátt og má með sanni segja að sannur skátaandi hafi ríkt á mótinu. Skátarnir tókust á við fjölbreytt verkefni við hæfi aldurstigsins;  Fálkaskátarnir fóru meðal annars í klifurturninn, lærðu skyndihjálp og renndu sér á því sem hendi var næst niður brekkurnar. Dróttskátarnir fóru í krefjandi gönguferð um svæðið þar sem þau fengu að læra á snjóflóðaýli ásamt því að rata um í náttúrunni. Rekkaskátarnir fóru í Gönguferð inn í Reykjadal þar sem skellt var sér í lækinn sem þau voru alveg rosalega ánægð með og foringjarnir stóðu sig frábærlega við að keyra skemmtilega dagskrá fyrir skemmtilegu skátanna.

Að venju þá gistu Róverskátarnir úti í tjaldi sem er útbúið kamínu sem hélt góðum hita þegar mannskapurinn fór í háttinn en í morgunsárið fór kuldinn að segja til sín þegar glóðin í eldinum voru búin og þá kom sér vel að kíkja inn í skála og vekja yngri skátanna.

Pulsupartý í snjónum!

Helstu markmiðin með þessum viðburði er að efla vetrarútivist skáta í Reykjavík, auka samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík sem og setja upp skemmtileg og krefjandi verkefni fyrir skátanna. Við slitin afhenti mótstjórinn skátunum mótsmerki fyrir vel unnin störf um helgina og voru skátarnir sammála um að vel hafi tekist. Að lokum er vert að þakka öllum þeim sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd mótsins og þá sérstaklega foringjum og einnig sjálboðaliðunum félaganna. Að þessu sinni kom skátaflokkurinn Hrefnunar og aðstoðaði okkur í eldhúsinu en í flokknum eru konur sem voru virkir skátar á árum áður. Það er mikilsvirði að eiga að fá svona hóp til aðstoðar á svona móti. Við fengum einnig góðan stuðning frá Hjálpasveit skáta í Reykjavík með bíla og búnað. Að lokum viljum við þakka INNES fyrir að gefa okkur kakó og Skátaland fyrir flutning á búnaði á mótið.

 

Neysluvatnið á útivistarsvæðinu á Úlfljótsvatni er ómengað og olli ekki magakveisunni sem gekk yfir svæðið á dögunum. Vatnssýni voru send til Finnlands og niðurstöður þaðan staðfesta að vatnið er hreint og hæft til drykkjar.

„Við áttum svosem ekki von á öðru, en auðvitað er samt léttir að fá þessa staðfestingu. Við höfum verið að sjóða neysluvatn eða flytja það á staðinn í flöskum. Nú getum við farið að nota kranavatnið aftur,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Það bendir allt til þess að einn gesturinn hafi komið með veiruna óafvitandi á svæðið og hún breiðst þaðan á meðal fólks. Það hefur hins vegar ekki borið á neinu eftir að þeir fóru heim aftur.“

Alls var 181 skáti fluttur í fjöldahjálparstöð í Hveragerði þegar smitið kom upp, en tæplega helmingur hópsins veiktist. Veikindin gengu þó fljótt yfir og urðu ekki alvarleg. Eftir að síðustu gestirnir voru farnir heim var ákveðið að loka Úlfljótsvatni fyrir gestum á meðan á þrifum stæði.

„Við ákváðum að hafa lokað í rúmar þrjár vikur, en það á að duga til að vera viss um að veiran sé dauð. Við höfum líka farið eftir leiðbeiningum frá Landspítalanum, sóttvarnalækni og heilbrigðiseftirlitinu varðandi þrif og sótthreinsun. Hér verður því allt hreint, fínt og heilsusamlegt þegar við opnum aftur 8. september. Þetta hefur verið heilmikið og lærdómsríkt ferli, en nú hlökkum við til að geta farið aftur að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, að taka á móti æskulýðshópum og fjölskyldum,“ segir Elín að lokum.

Í tilefni af 100 ára skátastarfi á Akureyri býður Skátafélagið Klakkur, Akureyringum og landsmönnum öllum í útilegu að Hömrum helgina 18. – 20. ágúst. Tilvalið tækifæri fyrir alla að nota útilegugræjurnar a.m.k. einu sinni enn fyrir veturinn.

Í boði eru frí tjaldsvæði og skemmtileg dagskrá á einu vinsælasta tjaldsvæði landsins. Svæðið opnar kl 16:00 á föstudag og verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá í boði frá föstudagskvöldi til hádegis á sunnudag. Nánari upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu skátafélagsins www.klakkur.is Einnig er hægt að hafa samband við Jóhann Malmquist á netfangið johann@hamrar.is eða í síma 6997546

Bátar – Vatnaþrautir – Hoppukastalar – Hjólabílar – Varðeldur – Kaffihús  – Folf – Gönguferðir – Náttúruskoðun – Skátatívolí – Minigolf – Ratleikur

Akureyri – Skátastarf í 100 ár

Síðustu skátahóparnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni þegar nóró-veirusýking kom upp í síðustu viku héldu heim á leið í morgun. Í framhaldinu tekur við hreinsunarstarf. Stefnt er á að staðurinn geti opnað aftur eftir þrjár vikur fyrir hefðbundna hauststarfsemi.

„Í raun ætti að duga að sótthreinsa allar byggingar sem hafa verið notaðar af þeim sem veiktust, en við viljum gæta fyllstu varúðar í þessum efnum,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Hér er starfsemi fyrir hópa allt árið og við viljum vera alveg örugg um að þessi kafli sé að baki áður en við höldum inn í haustið.“

Því hefur verið ákveðið að taka ekki á móti gestum í þrjár vikur. „Það miðast af mögulegum líftíma veirunnar og eftir þann tíma ætti vandamálið að vera úr sögunni. Næstu dagar munu svo fara í það hjá okkur að ákveða næstu skref, þrífa og gefa starfsfólkinu smá hvíld. Það hefur mætt mikið á öllum en á starfsmannafundi í dag var góður andi og mikill vilji til að klára þetta verkefni með gestum okkar.“

Auk starfsfólks og sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar hafa fjölmargir lagt hönd á plóg síðustu daga. „Rauði krossinn og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa reynst okkur gríðarlega vel, en líka lögregla, björgunarsveitir, heilbrigðiseftirlitið, bæjaryfirvöld í Hveragerði, Garðyrkjuskólinn og margir fleiri sem hafa veitt okkur ómetanlega aðstoð og fyrir það erum við þakklát.“

Nokkrir skátar sem dvöldu í fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði um nýliðna helgi hafa veikst í dag. Einkennin eru þau sömu og hjá þeim sem veiktust á aðfaranótt föstudags, uppköst og niðurgangur, en staðfest var að þá væri um nóró-veiru að ræða.

„Okkur skilst að þetta sé ekki óvenjulegt við þessar aðstæður, að einkenni komi seinna fram hjá sumum en öðrum og að í kjölfarið séu líkur á einhverjum smitum til viðbótar. Það var því allt eins von á þessu,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns, en þar dvelja skátarnir.

„Við höfum búið um þá veiku í sér húsi og höfum fengið lánaða bedda frá Rauða krossinum ef ske kynni að okkur skorti rúm. Alls hafa fimm einstaklingar veikst í dag og búið er að aðskilja þá frá öðrum á meðan þetta gengur yfir. Við erum í reglulegu sambandi við heilbrigðisstarfsfólk sem stýrði hjálpinni sem við fengum um helgina og á þessu stigi er ekki litið svo á að þörf sé á frekari aðgerðum,“ segir Elín.
„Á þessum tímapunkti er ekkert sem bendir til þess að það sé eitthvað á staðnum sem veldur þessu, en nú verður allt kapp lagt á að koma í veg fyrir frekari smit á milli fólks.“