Á Víkinganámskeiðinu á Úlfljótsvatni um síðustu helgi hitti bogfimin svo sannarlega í mark, en hún var einn þeirra pósta sem þátttakendur fóru í. Aðrir dagskrárliðir sem einnig vöktu lukku var leðurvinna að hætti víkinga og fornir leikir.
Guðmundur leiðbeindi um bogfimi
Guðmundur leiðbeindi í bogfiminni

Góð þátttaka var í námskeiðinu, en það var fyrir drótt- og rekkaskáta á aldrinum 13 – 18 ára.  Alls tóku 35 skátar frá 9 skátafélögum þátt. Væntanlega hefur þar hjálpað að verðlag var með fornum hætti, en aðeins kostaði 4 þúsund ríkisspesíur fyrir mat, rútu, gistingu og dagskrá.

Guðmundur Finnbogason sagði að krakkarnir hefðu spurt mikið um bogfimina, hvar þau gætu fengið boga og hvar þau gætu æft sig. Hann sagði að þessi áhugi hefði endanlega sannfært hann um að það væri rétt skref að stofna Íþróttafélag Úlfljótsvatns til að bjóða möguleika og aðstöðu fyrir þetta sport og annað jaðarsport. „Bogfimi hefur verið fastur liður í skátastarfi hjá mjög mörgum bandalögum úti í heimi enda íþróttagrein sem er bæði krefjandi og spennandi að stunda,“ segir Guðmundur.

Mikilvægt að hittast

Aðstaða fyrir bogfimina var sett upp í Strýtunni og aðrir dagskrárliðir voru hér og þar í húsakynnum Úlfljótsvatns, sem var ekki þurrt á manninn þessa helgina. Guðmundur sagði að sérstaklega hefði verið gaman að fá aðstoð frá víkingunum Magga og Stebba, en þeir eru bæði skátar og meðlimir í víkingafélagi og sameinuðu það tvennt sem var í gangi yfir helgina. Þeir Maggi og Stebbi stjórnuðu leikjum og leðurvinnu, en Guðmundur bogfiminni. „Við lögðum upp með að hafa dagskrána einfalda enda er það jafn mikilvægt fyrir þennan aldur að hittast og vera saman eins og að taka þátt í þéttri dagskrá,“ sagði Guðmundur.

Verður örugglega aftur

Það má gera ráð fyrir því að bæði bogfimin sem og þetta námskeið verði að föstum lið í framtíðinni enda almenn ánægja með þetta. „Það eru allir sammála um að þetta þurfi að gera aftur,“ segir Guðmundur sem  er strax farinn að skoða dagatalið með framhald í huga.

Hvað er:

Í hljóðri andakt við leðurvinnu.
Í hljóðri andakt við leðurvinnu.

 

Víkingur leiðbeindi um leðurvinnu
Víkingur leiðbeindi um leðurvinnu