Eitt af ellefu dagskrársvæðum World Scout Moot er staðsett á fallegu athafnasvæði Garðyrkjuskólans á Reykjum fyrir ofan sundlaugina í Laugaskarði. Þar hefur alþjóðleg skátastemmning blómstrað síðustu daga. Um helmingur þátttakenda ætlar að ganga yfir á Úlfljótsvatn þegar dagskrádögum í Hveragerði lýkur.

Það er Skátafélagið Strókur sem hefur veg og vanda að dagskrá og umgjörð með dyggum stuðningi Hveragerðisbæjar, Garðyrkjuskólans og íbúum bæjarins.

Fanný, Kristjana og Sjöfn

„Girl Power”

Þær Fanný Björk Ástráðsdsdóttir, Kristjana Sveinsdóttir, Sjöfn Ingvarsdóttir og Sæbjörg Lára Másdóttir hafa stýrt undirbúningi og framkvæmd þessa viðamikla verkefnis fyrir hönd skátafélagsins. „Við fjórar höfum staðið að mestu í þessu einar og eins og gefur að skilja þá hefur þetta verið mikil vinna” segir Kristjana en hún fer með yfirstjórn öryggismála á svæðinu.

Mikill meðbyr í sveitarfélaginu

„Það hefur verið ótrúlega dýrmætt að upplifa þann mikla meðbyr og stuðning sem við höfum fengið frá bæjarfélaginu, fyrirtækjum og íbúum og án alls þess hefði þetta aldrei tekist eins vel og raun ber vitni“, segir Fanný Björk sem gegnir starfi „Head Advisor” á svæðinu. „Sem dæmi má nefna að Hveragerðisbær hefur verið og er vakandi og sofandi með okkur í þessu.

Bærinn leggur til starfsfólk og tæki til að sjá um hreinlætismálin, býður í sund og grillveislu og veitir mótsgestum alla þá þjónustu og aðstoð sem óskað hefur verið eftir og meira til“ bætir Fanný við.

Einnig vildi Fanný taka fram að sem dæmi um stuðning bæjarins þá væri dagskrárliður í boði sem snérist um íslenska matargerð og það er starfsmaður Hveragerðisbæjar sem sinnir því verkefni sem hluta af sínu starfi þessa dagana.

Tásubað í Hveragerði. Ljósmynd: David Byatt

Bæjarstjórinn hvatti til baksturs

Kaffihús mótsins er í „bananahúsinu“ í Garðyrkjuskólanum og þar una þátttakendur sér vel á kvöldin innan um gróður og rómantískar ljósaseríur. Rekstur þess er fjáröflun fyrir skátafélagið og foreldrar skáta úr Strók standa vaktina í sjálfboðaliðavinnu.

„Veitingarnar koma svo að mestu úr ofnum bæjarbúa” segir Sjöfn hlæjandi en hún ber ábyrgð á dagskrármálunum. „Þegar bæjarstjórinn okkar, Aldís Hafsteinsdóttir, heyrði af þessum pælingum um kaffihúsið var hún ekki sein á sér að senda út skilaboð til allra bæjarbúa í gegnum Facebook þar sem hún hvatti þá til að græja heimabakstur og færa okkur. Viðbrögðin létu svo sannarlega ekki sér standa og til okkar hefur verið stöðugt rennsli af fólki sem vill gefa veitingar í kaffihúsið og styðja þannig við bakið á skátafélaginu.

…og meira af svipuðu

Verið er að vinna heimildarmynd um mótið og tökur fóru fram í Hveragerði eitt kvöldið í vikunni. Þegar á hólminn var komið sá leikstjórinn að gaman væri að fá dróna til að mynda vettvanginn en drónaflugmenn mótsins voru þá fastir í öðrum verkefnum.

Aftur voru skilaboð send til bæjarbúa í gegnum Facebook og 15 mínútum síðar mætti drónaflugmaður úr bænum á svæðið með sinn búnað og reddaði málum!

Gurrý og Garðyrkjuskólinn gulls ígildi

Í spjalli við þær stöllur kom fram að Garðyrkjuskólinn og starfsfólk hans hafi verið ómetanlegur stuðningur í verkefninu. Svæðið sem skátarnir hafa til afnota hefur verið snyrt og snurfusað af starfsmönnum skólans og mótið hefur aðgang að þeim tækjum og tólum sem skólinn hefur yfir að ráða. „Prentarinn okkar bilaði í vikunni og Gurrý var ekki sein á sér að opna skrifstofu skólans til að bjarga málinu og það er ágætis dæmi um okkar frábæra samstarf sem við erum afar þakklát fyrir” segir Kristjana.

Gríðarleg göngustemmning er í hópnum sem dvelur í Hveragerði. Ljósmynd: David Byatt

200 skátar ganga til Úlfljótsvatns

Sjöfn dagskrárstjóri og hennar fólk hafa undirbúið frábæra dagskrá sem byggir á þeim auðlindum og náttúruperlum sem eru í Hvergerði og nágrenni þess. „Til viðbótar við jarðvarmann, ylræktina og fleira í þeim dúr fá skátarnir tækifæri til að arka hér um nágrennið og eru göngferðir á Skálafell, Reykjafell og auðvitað upp í Reykjadal afar vinsælar” segir Sjöfn.

Ganga frá Hveragerði yfir á Úlfljótsvatn var sett á dagskrá, meira í gamni en alvöru, sem dagskrárliður á laugardaginn en þann dag sameinast allir þátttakendur World Scout Moot á Úlfljótsvatni.

„Við gerðum ráð fyrir að fylgja kannski 30-40 skátum í þessa síðustu gönguferð dagskrárinnar hér í Hveragerði en nú þegar hafa ríflega 200 skráð sig og ekki ólíklegt að fleiri bætist í hópinn“ bætir Sjöfn við.

Endalaust þakklæti

Stelpurnar vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem stutt hafa við bakið á þeim og skátafélaginu. Hveragerðisbæ, Garðyrkjuskólanum, Hjálparsveit skáta í Hveragerði sem annast hefur sjúkragæslu, Kjörís fyrir að senda hverja sendinguna af ís á fætur annarri til að kæla niður starfsfólkið, öllu frábæra erlenda starfsfólkinu sem unnið hefur með þeim síðustu daga, fjölmörgum stuðnings- og styrktaraðilum og síðast en ekki síst öllum bæjarbúum sem svo sannarlega hafa lagt sitt af mörkum til að gera viðburðinn að jafn ánægjulegri upplifun og raun ber vitni.

„Ég vildi óska þess að allir 5.000 gestir World Scout Moot hefðu átt þess kost að koma til okkar og upplifa allt það stórkostlega sem hér hefur verið í gangi síðustu daga” segir Sjöfn dagskrárstjóri að lokum.

Skátar senda hlýja strauma og þakklæti til samstarfs- og stuðningsaðila. Ljósmynd: David Byatt

Kveðjupartý í kvöld

Það líður að lokum dagskrárinnar í Hveragerði því á laugardaginn fara skátarnir á Úlfljótsvatn og hitta þar skátasystkin sín frá ríflega 100 þjóðlöndum sem dvalið hafa víða um land síðustu daga. Af því tilefni verður slegið upp stórkostlegri skemmtun í Listigarðinum fyrir skátahópinn. Glæsileg grillveisla í boði bæjarins í forrétt, dúndrandi dansleikur með hljómsveit í aðalrétt og notalegt tásubað í ylvolgri Varmánni í eftirrétt þar sem Reykjafoss spilar hvert lokalagið á eftir öðru í stöðugri bunu.

/gp