Helgina milli jóla og nýárs tóku um 40 skátar á aldrinum 13 – 15 ára þátt í skátamóti fyrir dróttskáta, eins og skátastarfið fyrir þennan aldur er kallað.

Mótið sem ber heitið ,,Á Norðurslóð“ var haldið á Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni og nágrenni. Skátarnir skemmtu sér við gönguferðir, spil, snjóhúsagerð og eins verða vill á þessum árstíma var vakað fram á nætur.

,,Útilegan var geðveik, það er svo gaman að kynnast nýju fólki” segir Eydís Líf Þórisdóttir en hún kemur úr skátafélaginu Fossbúum á Selfossi. ,,Við byrjuðum á að fara í hike upp í Reykjardal við Hveragerði en snerum við þegar orðið var of dimmt og kalt til að halda áfram. Þegar við komum á Úlfljótsvatn var svo búið að elda fyrir okkur dásamlega súpu,” segir hún.

Skátarnir bjuggu til snjóhús og renndu sér á uppblásnum bátum niður hlíðarnar. Bakaðar voru bleikar og bláar vöfflur með kaffinu og allir tóku þátt í þjónustuverkefni fyrir Úlfljótsvatn.

,,Það er óhætt að segja að þessi útilega sé að festa sig í sessi enda er fátt betra en að komast út úr borginni eftir allt jólastressið og njóta þess að vera innan um hressa krakka á Úlfljótsvatni,“ segir Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni og umsjónarmaður með verkefninu Á norðurslóð.