Margvísleg skemmtileg vitleysa hefur verið aðalsmerki göngumótsins Ds. Vitleysu, sem verður haldið nú um helgina og stefnir í góða þátttöku, en yfir 40 skátar á aldrinum 13 – 15 ára hafa skráð sig til leiks. Mótið í ár er 5 ára afmælismót og má búast við extra gleði vegna þess.
Fjallafagn
Fjallafagn

Gleðin hefst á föstudagskvöld í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Ekki er þó víst að nokkur gisti innandyra því gefin verða aukastig fyrir þá sem gista í tjaldi. Þá er skipt í gönguhópa og sköpuð stemning fyrir laugardaginn, sem er stóri göngudagurinn.

Lagt af stað í gönguna á laugardegi
Lagt af stað í gönguna á laugardegi

Talsmaður mótsstjórnarinnar, Sigurgeir B. Þórisson, segir að þetta sé bara hófleg ganga. „Þetta eru eitthvað um 17 – 18 km,“ segir hann. Á göngunni er stoppað 5 – 6 stöðum þar sem boðið er upp á verkefnapósta í anda Vitleysu. Póstarnir skipta í raun meira máli en gangan sjálf og því er sigur ekki tryggður með því að vera fyrstur í mark. Mótið reynir á samvinnu og jákvæðni og er fyrst og fremst skemmtilegt. „Það er alltaf verið að finna upp á einhverju nýju,“ segir Sigurgeir sem vill láta verkefnin koma þátttakendum á óvart. Af póstum liðinna ára má nefna blindrastultuþrautabraut og að komast með hópinn óséðan vissa vegalengd.

Ekkert pústað í göngunni - bara ,,póstað"
Ekkert pústað í göngunni – bara ,,póstað“

„Þetta er í anda útilífshelganna sem haldnar voru þegar ég var á dróttskátaaldri,“ segir Sigurgeir aðspurður um upphaf Ds. Vitleysu. „Við ákváðum síðan að endurvekja þær árið 2010 undir þessu nafni.“ í mótsstjórninni í ár eru auk Sigurgeirs, Sif Pétursdóttir, Bergur Ólafsson (Kelti) og Egill Erlingsson.

Ds. Vitleysa er litrík.
Ds. Vitleysa er litrík.

Nánari upplýsingar: Vefsíða Ds.Vitleysu í Skátadagatalinu.

og svo er safn af myndum inn á facebook.com/skatarnir frá fyrri Vitleysum