Aukaskátaþing BÍS var haldið 4. febrúar sl. í Fólkvangi á Kjalarnesi. Þingið var vel sótt en um 140 manns frá 23 skátafélögum sátu þingið. Umræður voru málefnalegar og nokkrar ályktanir og áskoranir lagðar fyrir þingið.

 

Niðurstaða þingsins var sú að vantrauststillaga gegn aðstoðarskátahöfðingja var felld með yfirgnæfandi meirihluta og situr því Fríður Finna Sigurðardóttir áfram í stjórn BÍS. Þar sem skátahöfðingi hefur stigið til hliðar er Fríður núna starfandi skátahöfðingi fram að næstkomandi skátaþingi þann 10. -11. mars þegar nýr skátahöfðingi verður kosinn. Á þinginu tilkynnti hún að hún muni ekki gefa áfram kost á sér í stjórn á næstkomandi skátaþingi þegar kjörtímabili hennar lýkur.

 

Eftirfarandi ályktun var lögð fyrir þingið og samþykkt:

Aukaskátaþing BÍS 2017 er minnugt þess að hreyfingin starfar með opinberum stuðningi og frjálsum framlögum fyrirtækja og einkaaðila. Þingheimur skilur mikilvægi afkomu dótturfélaga BÍS fyrir starfsemi hreyfingarinnar og mikilvægi velvildar í þeirra garð. Því þarf meðferð fjármuna Bandalagsins, jafnt sem almennra skátafélaga og stofnana innan hreyfingarinnar, að vera yfir alla gagnrýni hafin og að öllu leyti í samræmi við lög og reglur. Þingið samþykkir að úttekt á fjárreiðum BÍS verði kláruð af óháðum endurskoðanda og skal sú úttekt kláruð svo fljótt er verða má.

Meirihluti þingfulltrúa samþykkti að lýsa yfir vanþóknun á starfsháttum og vinnubrögðum Braga Björnssonar fyrrv. skátahöfðingja við uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra BÍS.

Þá var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða áskorun til stjórnar BÍS um að draga uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra til baka.

Fyrir þingið var lögð fram ályktun um að beina því til stjórnar BÍS að hún skerpi áherslur, verkferla og viðbrögð hreyfingarinnar gegn einelti og öðru ofbeldi.

Sérstaklega skuli horft til þessara þátta:

Siðferðisleg gildi skuli höfð að leiðarljósi í allri meðferð allra slíkra mála

Verkferlar mála séu unnir á faglegan, upplýstan og gegnsæjan hátt

Meintir þolendur skuli njóti vafans

Ályktunin var samþykkt með lófaklappi.

 

Á næstkomandi skátaþingi var áætlað að kjósa um sæti aðstoðarskátahöfðingja, formanns ungmennaráðs og formanns upplýsingaráðs. Eftir að skátahöfðingi steig til hliðar í janúar sl. bættist það sæti við kjörlistann. Borist hafa tilkynningar frá formanni alþjóðaráðs, Jóni Þór Gunnarssyni, gjaldkera, Sonju Kjartansdóttur og formanni fræðsluráðs, Ólafi Proppé um að þau gefi kost á sér á ný og sækist eftir endurnýjuðu umboði á komandi skátaþingi en þau hafa ekki lokið kjörtímabilum sínum. Formaður dagsskrárráðs, Una Guðlaug Sveinsdóttir, sem á eitt ár eftir af sínu kjörtímabili, tilkynnti á þinginu að hún ætli að hætta í stjórn í mars og sjái sér ekki fært að klára tímabilið.  Ljóst er að miklar mannabreytingar verða í stjórn og nefndum BÍS því á skátaþinginu verður kosið um 17 embætti. Öll sæti í sjö ráðum Bandalagsins eru í kjöri á hverju ári svo þar bætast 28 sæti við. Áhugasömum er bent á að hafa samband við uppstillingarnefnd, sjá nánar tilkynningu nefndarinnar.

Nú eru félög um land allt að halda aðalfundi og skila inn gögnum til BÍS því næsta skátaþing verður eftir mánuð á Akureyri, nánari upplýsingar um þingið verða birtar á skátamál.is fljótlega. Sjá nánar reglur um Skátaþing í greinum nr. 16-20 hér.