„Það er búið að ganga fáránlega vel” segir Jóhanna Aradóttir sem leiðir dagskránna í Arnarþorpinu (The Eagle Village). „Við erum með algjört snilldar starfsfólk sem sér um dagskrárpóstana. Meðal þeirra eru hollenskir sérfræðingar í frumbyggjastörfum sem deila hér þekkingu sinni með okkur” bætir Jóhanna við.

Þema dagskrárinnar á Úlfljótsvatni er Alþingi og er vísað til þess ævafornar siðar Íslendinga að koma saman til Alþingis eftir langt og strangt ferðalag.

The Eagle Village er eitt fjögurra dagskrárþorpa sem nefnd eru eftir landvættum Íslands. Hin eru The Bull, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni þótt öll vinni þau með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.

Í Arnarþorpinu eru hlutirnir settir í sögulegt samhengi og þátttakendur skoða hvernig sagan hefur haft áhrif á okkur sem mannenskjur og hvað við getum gert til að hafa áhrif á framtíð okkar – sem einstaklingar, sem samfélag og sem skátahreyfing.

Degið undirbúið fyrir kleinubakstur og ástarpungagerð. Ljósmynd: André Jörg

Handverkið vinsælt

„Það er búið að vera mikið að gera í prjónaskapnum og ísgerðina hefðum við getað haft fimmfalt stærri því hún hefur verið svo vinsæl” segir Jóhanna.

Fleiri vinsæl verkefni hafa verið leðurvinna, útskurður, málmsteypa og bakstur á kleinum og ástarpungum.

„Hér er afar skemmtilegur hollenskur skátahópur í mínu starfsliði. Þau hafa sérhæft sig í margvíslegum frumbyggjastörfum og fara á milli móta með þá dagskrá. Af þeim erum við að læra handbragð og verklag sem er víða gleymt” segir Jóhanna.

Dæmi um þá dagskrárliði sem hollendingarnir bjóða uppá er útskurður og að kveikja eld með tinnu annars vegar og svokölluðum eldboga hins vegar.

Fræðasetur og fiskerí

„Við erum með tvo dagskrárliði utan svæðis. Annar er veiðipóstur þar sem skátarnir geta fengið hjá okkur veiðistangir og farið og rennt fyrir fisk. Hinn er heimsókn í Fræðasetur skáta við Ljósafossstöð sem við köllum „The Scout Museum” uppá ensku. Mikill áhugi hefur verið á Fræðasetrinu.

Stöðug röð í málmsteypuna

„Það er búin að vera stanslaus traffík og löng röð til okkar, allan daginn í gær og einnig í dag” segir Hans Ágústsson sem ásamt Claus Hermann Magnússyni stýra málmsteypupósti. „Hér geta þátttakendur steypt skartgrip í laginu eins og Ísland og þórshamar”.

Þess má geta að Hans er búsettur í Þýskalandi en gerði sér sérstaka ferð heim til Íslands til að geta lagt mótinu lið sem sjálfboðaliði.

Góð stemmning hefur ríkt í The Eagle Village og þátttakendur fengið að spreyta sig á spennandi verkefnum. Ljósmynd: André Jörg