grein_rakel_osk_kandersteg

Hefur þú einhvern tímann vaknað upp alveg ótrúlega ástfanginn?

Það er eflaust besta tilfinning i heimi og satt best að segja, þá er það eina leiðin til þess að lýsa töfrunum hér í Kandersteg.

Kandersteg er einstök upplifun, ekki nóg með að maður fær að þrífa klósett alla daga, elda matinn, þvo þvott og smíða heldur fær maður líka að hafa endalaust fjör og gaman. Þetta tímabil, vor 2009, eru alls ellefu skammtímastarfsmenn(short term staff) frá átta ólíkum löndum (Íslandi, Rússlandi, Englandi, Kanada, Þýskalandi, Kóreu, Spáni og Ástralíu). Auk þeirra eru langtímastarfsmenn(long term staff) frá tíu ólíkum löndum. Það er ótrúlegt hvað bakgrunnur fólks er mismunandi en samt erum við öll eins, við erum öll að vinna að því markmiði að halda draumi Baden Powells á lofti.

Lífið hér er ekki ósvipað og á hvaða skátamóti sem er eða í hverri skátamiðstöð. Það er alltaf nóg að gera og að sjálfsögðu er það misskemmtilegt, en með öllu þessu fólki og allt þetta gaman í kringum þetta gerir vinnuna svo ótrúlega skemmtilega og gefandi. Á hverju kvöldi er alltaf gert eitthvað skemmtilegt, eins og að skella sér í keilu, sitja í kringum varðeld, sögustund og göngutúrar. Það er alveg á hreinu að hérna leiðist manni ekki og þessi staður er töfrum líkastur. Ég mæli eindregið með því að allir skelli sér til Kandersteg, hvort sem það er sem starfsmaður eða bara til þess að koma í heimsókn. Ég endurtek: Einstök upplifun…

Það er erfitt að lýsa þessum stað. Þetta eru bara töfrar og maður finnur alltaf fyrir þeim, sama hvenær og á hvaða tíma dags. Ég er nokkuð viss um að þetta sé einn besti staður til að vera á á þessum tíma, burt frá öllu krepputali og hér þarf maður ekki að hafa neinar áhyggjur. Hér er allt svo skátalegt og allir voða góðir vinir. Ég mun allavega seint gleyma þessari dvöl minni, án efa eitt af þvi besta sem hefur komið fyrir mig.

Í augnablikinu er verið að leggja lokahönd á Kanderlodge, sem er nýja byggingin á svæðinu. En Kanderlodge mun opna formlega núna í lok maí. Í Kanderlodge verða stúdíóíbúðir fyrir starfsmenn, venjuleg svefnherbergi, þvottahús og aðstaða fyrir dagskráliði innan dyra. Svo styttist í sumarið þannig að það er nóg að gera á tjaldsvæðinu.

Rakel Ósk Snorradóttir

12. maí 2009