grein_gunnlaugur_palestina

Bjartsýni og jákvæðni þrátt fyrir erfiðar aðstæður

Þann 27. febrúar síðastliðinn hélt undirritaður ásamt jafnöldru sinni, Kristínu Helgu Magnúsdóttur auk Sólveigar Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands til Palestínu. Ferðin var farin á vegum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands með styrk frá Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsin (ECHO) en ECHO auk Rauða kross Íslands, Danmerkur, Ítalíu og Frakklands styður verkefni Palestínska Rauða hálfmánans sem snýr að sálrænum stuðningi við stríðshrjáð börn þar ytra.

Ferðin stóð yfir í eina viku. Við lentum á flugvellinum í Tel Aviv að morgni laugardagsins 28. febrúar eftir að hafa verið á ferðalagi í um 15 klukkustundir. Fyrsta deginum eyddum við í Jerúsalem og sváfum þar einnig fyrstu nóttina. Næstu tvær nætur gistum við í Ramallah en það sem eftir lifði ferða gistum við í Jerúsalem en þaðan var okkur síðan keyrt á áfangastaði. Auk Ramallah og Jerúsalem heimsóttum við borgirnar Qalqilya og Hebron. Við heimsóttum skóla, ráðuneyti, heimili palestínskra fjölskyldna og fleiri staði.

Strax frá fyrsta degi blasti við mér nýr menningarheimur. Það fyrsta sem ég tók eftir var hin mikla nálægð við vopn, allir lögreglumenn, verðir og hermenn með vopn sem verður að teljast nýtt fyrir Íslending sem ekki verður var við vopnaburð í sínu daglega líf. Einnig má nefna framandi menningu í mat og drykk en matargerð á svæðinu var áberandi fjölskrúðug. Fæðuval fjölbreytt og maturinn afar góður. Umferðarmenningin á svæðinu var allt önnur en við eigum að venjast hér heimar fyrir, margar fjölskyldur eiga ekki bíla en þá var umferð á þjóðvegunum nokkuð mikil, frammúrakstur var stundaður á ótrúlegustu stöðum, bílflauturnar þöndu menn óspart, stundum til að láta vita af óæskilegu aksturslagi en oft á tíðum virtist engin sérstök ástæða liggja að baki flautukonsertnum. Húsbyggingar voru vissulega af framandi toga, fólk býr mestmegnis í litlum íbúðum, sem margar hverjar eru í illa förnum fjölbýlishúsum eftir marga ára skort á viðhaldi, sumir búa þó í stærri íbúðum og aðrir jafnvel í einbýlishúsum. Svo ekki minnst á allt aðra salernismenningu en arabísk klósett voru ansi ný fyrir mér ‐ tölum ekki meira um þau!

Það að hafa fengið tækifæri til að ferðast um Palestínu, heimsækja verkefni palestínska Rauða hálfmánans í sálrænum stuðningi sem unnið er í samstafi við 4 evrópsk landsfélög Rauða krossins og Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins, koma inn á heimili palestínskrar fjölskyldu, ræða við ráðamenn í Qalqilya og fleira var ómetanlegt fyrir mig og gerði það að verkum að ferðin skilaði mjög miklu.

Við að heimsækja svæðið kynntist ég daglegu líf fjölskyldna sem fjölmiðlar segja manni sjaldan frá. Í fjölmiðlum er almennt ekki fjallað um fólkið sem á þann draum að fá að lifa lífi sínu í friði. Fólk sem dreymir um að lifa frjálst í landi sínu, hafa aðstöðu til að ferðast, stunda nám og vinnu eins og fólk annarsstaðar í heiminum, án afskipta annarrar þjóðar. Ég fékk að kynnast þessu fólki, heyra sögur þeirra og drauma. Áberandi fannst mér hve börnin höfðu háleit og jákvæð markmið, öllum líkaði þeim vel í skólanum og sinntu sinni heimavinnu vel. Þau töluðu um áform sín um framhaldsnám hvort sem draumurinn var að verða kennari, lögfræðingur eða hvað annað.

Ég fékk að kynnast því hversu jákvæðir og bjartsýnir Palestínumenn eru þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður í heimalandi þeirra. Ég fékk að njóta ótrúlegrar gestrisni frá heimamönnum en sama hvar maður kom var boðið upp á veitingar.

Fjölskyldan sem opnaði heimili sitt fyrir mér, ásamt fleiri gestum, þrisvar sinnum á einni viku sýndi ótrúlegt örlæti er hún deildi með okkur af því sem hún átti, deildi með okkur gleði sinni og sorgum og ekki síst ótrúlega miklu magni af góðum mat! Fjölskyldan sem tók svo hlýlega á móti mér samanstóð af hjónum og börnum þeirra fimm, fjórum sonum og einni dóttur. Börnin eru á aldrinum 5 til 19 ára, en yngsti sonurinn átti einmitt 5 ára afmæli á meðan við dvöldum hjá þeim. Þau höfðu litla peninga milli handanna enda hafði heimilisfaðirinn afar ótrygga vinnu. Þau létu það þó ekki stoppa sig í gestrisninni og báru fram kræsingar af góðum mat og sýndu að bjartsýni og hamingja geta verið til staðar þó svo að peninga og frelsi skorti.

Það að heimsækja skóla í landinu og sjá hve ótrúlega gott starf er unnið innan þeirra veggja, þrátt fyrir bága stöðu, var frábært og það að heyra skólastjórnendur, kennara, foreldra og aðra tala um það hve miklum árangri verkefnið í sálrænum stuðningi hefur skilað vakti hjá mér hlýja og þægilega tilfinningu. Það er ólýsanlegt að finna að verkefni okkar, Rauða kross fólks, sé að skila svo miklum árangri og finna fyrir því mikla trausti sem heimamenn bera til Rauða krossins. Ég fann hvernig heimamenn tóku mér sem sjálfboðaliða Rauða krossins opnum örmum og það að keyra fram hjá barnahópi sem veifaði og hljóp brosandi á eftir bílnum einungis vegna þess að um bifreið frá Rauða krossinum var að ræða kveikti gleði í mínu litla hjarta en um leið von og hvatningu til enn betri verka í þágu þeirra sem minna mega sín.

Það að heimsækja Rauðu Davíðsstjörnuna í Ísrael og fá að kynnast því mikla samstarfi sem fram fer á milli þeirra og Rauða hálfmánans í Palestínu var ótrúlegt. Félögin tvö eiga í daglegum samskiptum sem ganga mjög vel þrátt fyrir erfitt ástand og miklar deilur þjóðanna á milli. Það var mjög ánægjulegt að sjá og heyra enn einu sinni að hin eina sanna Rauðakross hugsjón, grundvallarmarkmiðin sjö, lætur ekki stjórnast af pólitík, trú, deilum um landmæri eða öðru slíku.

Efst í huga mér fyrir utan gestrisnina og þær hlýju og persónulegu móttökur sem við fengum er það hve fólkið í landinu er sterkt en það stendur frammi fyrir aðstæðum daglega, hugsanlega alla ævi, sem mér fannst allt að því óyfirstíganlegar í þá viku sem ég dvaldi þar ytra. Minningar um ferðina, um landið sjálft og ekki síst fjölskylduna sem ég heimsótti mun lifa í huga mínum og hjarta um alla ævi. Það er einlæg von mín að ég fái tækifæri til að heimsækja landið sem allra fyrst á ný en ég vona innilega að þá verði aðstæður fólksins aðrarog betri.

Ég er glaður og hrærður en fyrst og fremst þakklátur fyrir það tækifæri að fá að heimsækja þetta fagra land og kynnast því góða fólki sem þar býr.

Nú erum ég kominn heim og mitt líf komið aftur í eðlilegar skorður. Líf án óeðlilegra afskipta annarra, ég kemst í skóla og á skátafund án þess að þurfa að sýna vegabréf eða lenda í annarskonar öryggiseftirliti. Ef mig langar á Úlfljótsvatn sest ég einfaldlega upp í bílinn minn og keyri þangað án vandræða.

Nú þegar ég er kominn til baka og búin að vefja mig aftur inn í bómullina sem ég skildi við mig í vikutíma leitar hugurinn eðlilega út á ný. Hugurinn leitar til alls þess góða fólks sem ég hitti, fjölskyldunnar sem þrátt fyrir mikla fátækt deildi með okkur því sem hún átti, gleði, sorgum og góðum mat. Uppúr stendur hin mikla gestrisni sem okkur var sýnd hvar sem við komum.

Á slóðinni http://palestinufarar.blog.is má lesa nánar hvað á daga okkar dreif og sjá myndir frá ferðinni.

Reykjavík, 23.mars 2009

Gunnlaugur Bragi Björnsson