grein_bjorn_jon_kandersteg

Í stærstu skátamiðstöð heims


Sá er þetta ritar starfaði sumarið 2001 í alþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg í svissnesku Ölpunum. Meðal samstarfsmanna minna þar voru tveir amerískir skátar sem urðu góðir vinir mínir og sögðu mér margt frá skátastarfi vestanhafs sem ég hef löngum verið hugfanginn af. Annar þessara skáta hafði starfað á þeim stað sem kalla má helsta stolt amerísku skátahreyfingarinnar – stærstu skátamiðstöð heims – Philmont Scout Ranch í Nýju Mexikó. Ég varð svo heillaður af lýsingum á viðureignum við birni, fjallaljón og skröltorma að ég einsetti mér að komast þangað hið fyrsta og það varð úr að ég sótti um starf í gegnum höfuðstöðvar Boy Scouts of America (BSA), en þeir hafa dagskrá fyrir erlenda skáta undir yfirskriftinni International Camp Staff Program. Á hverju ári er allt að 200 erlendum skátum boðið að vinna í einhverjum af um 400 skátamiðstöðvum BSA víðs vegar um Bandaríkin. Rétt er að taka fram fyrir áhugasama að hér er um launavinnu að ræða en ekki sjálfboðavinnu eins og í flestum skátamiðstöðvum í Evrópu. Hafi einhver áhuga á að sækja um starf af þessu tagi þá er undirritaður boðinn og búinn að aðstoða viðkomandi. Skátinn þarf að vera á aldrinum 18 – 30 ára, í góðu andlegu og líkamlegu formi og rétt er að taka fram að stúlkur geta einnig sótt um. Umsóknir þurfa að berast höfuðstöðvum BSA fyrir lok janúar.
Ferðalagið til Nýju-Mexíkó er nokkuð langt. Flogið var til Denver, Colorado, með millilendingu í Minneapolis, Minnesota. Gisti ég eina nótt í Denver áður en haldið var suður á bóginn til Cimarron, Nýju-Mexíkó, en skátamiðstöðin er við þann smábæ. Cimarron er frægur bær úr villta vestrinu. Þar börðust kappar eins og Buffalo Bill, Billy the Kid og síðast en ekki síst þjóðhetjan Kid Carson, sem bjó í Cimarron, en Philmont Scout Ranch rekur safn til minningar um Carson. Á hótelinu í bænum eru enn skotför í loftinu eftir byssubardaga á síðari hluta 19. aldar. Einhverju sinni á þeim tíma ku hafa birst frétt í stórblaði vestanhafs þar sem sagt var: „allt með kyrrum kjörum í Cimarron – enginn skotinn til bana síðastliðna viku“.
Skátamiðstöðin er mjög tilkomumikil og landareignin alls um 56 þúsund hektarar, aðallega skóglendi og fjallgarðar, gjöf frá olíuauðkýfingnum Waite Philips og konu hans árið 1938. Raunar vildi skátahreyfingin vestra ekki þiggja gjöfina í fyrstu, þar eð þeir töldu sig ekki geta staðið straum af rekstrarkostnaði en Philips gaf þá með skrifstofurturn í Tulsa, Oklahoma, sem gæti tryggt hinni nýju skátamiðstöð fastar tekjur. Eina kvöðin sem fylgdi gjöfinni var að skátarnir skyldu annast hest Philips. Ásamt með landareigninni fylgdu fjölmargar fasteignir en þeirra tilkomumest er sumarhöll Philips-fjölskyldunnar sem er á stærð við stærstu óðalssetur í Suðurríkjunum. Allir innanstokksmunir fylgdu með og er höllin nú safn til minningar um þessi heiðurshjón. Þá enn rekið stórbú í skátamiðstöðinni með gífurlegum fjölda nautgripa og buffalóa, en buffalókjöt er aðaluppistaðan í fæðu starfsfólksins.
Starfsmenn á sumrin eru alls um 1100 og dreifast vítt og breitt á tæplega 40 campa um fjöllin. Starfsfólk campanna er allt sérhæft í ákveðinni starfssemi, til að mynda klifri, silungsveiði, hestamennsku, skotfimi og svo mætti lengi telja. Raunar er kemur stór hluti starfsmanna úr hernum en Philmont hefur gert samninga við ýmsa herskóla þess efnis að liðsforingjaefni ljúki hluta af sinni þjálfun með því að starfa í nokkrar vikur sem leiðsögumenn (Rangers) í Philmont. Mestur hluti starfsfólks voru ungmenni á mínum aldri – aðallega háskólastúdentar. Einnig starfar mikið af eftirlaunaþegum í Philmont, sumir komnir yfir áttrætt, en enginn hámarksaldur er fyrir starfsfólk Boy Scouts of America. Amerískir skátar eru mjög stoltir af sínum skátabúningi og urðu allir gestir að vera klæddir búningi meðan þeir dvöldu í grunnbúðunum og starfsfólk varð ætíð að klæðast skátabúningi eða sérstökum starfsmannabúningi. Raunar mættum við Íslendingar taka Bandaríkjamenn okkur til fyrirmyndar í þessu efni en þeir bera stoltir sinn skátabúning við sem flest tækifæri og rík áhersla er lögð á að skátar klæðist ætíð fullum búningi – réttri skyrtu, belti, buxum og sokkum. Þá gerir liturinn á ameríska búningnum hann til muna hentugri við vinnu en þann íslenska.
Að auki er rekin þjálfunarmiðstöð fyrir foringja í tenglsum við skátamiðstöðina og alls eru gestir hátt í 40.000 yfir sumarið og langir biðlistar eru eftir að komast til Philmont. Stöðugt er bætt við nýjum cömpum og nýrri dagskrá en stór hluti starfseminnar fer þó fram utan hinnar 56 þúsund hektara landareignar. Eins og gefur og skilja er allt ákaflega stórt í sniðum í Philmont. Til að mynda á skátamiðstöðin á annað hundrað bifreiðar, rekur tvær slökkvistöðar og ein helsta tekjulind miðstöðvarinnar er rekstur skáta- og sportvöruverslunar sem er á stærð við Útilíf í Glæsibæ.
Sjálfur var ég að vinna í einum af fjölmörgum cömpum í fjöllunum, Zastrow, sem var um áratugaskeið miðstöð Gilwell-þjálfunar í Ameríku. Ég lét það verða mitt fyrsta verk þegar ég kom að flagga íslenska fánanum en varð að gjöra svo vel að flagga undireins í hálfa stöng og út mánuðinn fyrir Ronald Reagan sem þá var nýlátinn, en okkur hafði borist tilskipun þess efnis frá höfðustöðvum amerísku skátahreyfingarinnar – skipti engu þótt yfirmaður minn væri demókrati. Í Zastrow störfuðum við fimm strákar og okkar helsta verkefni var að kenna skátahópum sem til okkar komu notkun áttavita, korts, staðsetningartækja og ýmissa fornfálegra siglingatækja. Raunar höfðum við mikinn frítíma sem við vörðum til gönguferða um nágrennið, silungsveiði, íkornaveiði, pókerspils, lesturs amerískra heimsbókmennta, hafnarbolta og fjölmargs annars. Talverður tími fór í að reisa saunabað sem við við vinnufélagarnir byggðum niðri við ána og höguðum öllu þannig til að um raunverulegt indíánagufubað var að ræða, en amerískir skátar eru mjög uppteknir af háttum og siðum hinna fornu íbúa Norður-Ameríku og saumaði einn af vinnufélögum mínu sér indíánabúning um sumarið sem hann notaði við hátíðleg tækifæri. Á sjö daga fresti fengum við þrjá frídaga sem flestir notuðu til ferðalaga innan skátamiðstöðvarinnar en því miður náði sá er þetta ritar ekki að sækja nema um þriðjung campanna þrátt fyrir háleit markmið – slíkt er landflæmið. Er ég átti frí síðla í júní gekk ég ásamt nokkrum félögum mínum á hæsta tind Nýju-Mexíkó, Wheeler, sem er í 13.161 feta hæð. Engir almennilegir göngustígar eru upp á tindinn en gangan er nokkuð strembinn og það aftraði nokkuð för okkar að við fórum að næturlagi sem er ekki vitulegt fyrir margra hluta sakir, en við erum nú einu sinni skátar og máttum til með að gera okkur þetta sem erfiðast. Tjölduðum við á toppnum í nokkra gráðu frosti og fylgdumst með sólarupprás með útsýn yfir stóran hluta Nýju-Mexíkó, Arizona og Colorado. Hvílík fegurð – hvílíkt land!
Sérstaklega minnisstæðar eru mér kvöldvökurnar í Philmont sem eru jafnvel enn fjörugri en hér heima og ekki er hægt að halda kvöldvöku í villta vestrinu án þess að hafa á að skipa að gítarleikara, banjóleikara og mandólínleikara og ekki er verra að hafa fiðlu og kontrabassa með. Það vakti athygli mína á ferðum um svæðið hve mikið var af mjög efnilegum tónlistarmönnum.  Matur var nokkuð fínn – en vandamálið var að við félagarnir þurftum að elda sjálfir og enginn okkar kunni að elda að neinu gagni, Ég er þó á því að flestum okkar hafi farið mikið fram í eldamennsku í sumar, að einum okkar undanskildum sem fékk aldrei að stíga inn í eldhúsið af hættu við skelfilegar afleiðingar. Afleiðingarnar þess að þurfa að elda sjálfur voru þær að undirritaður léttist um 12 kg svo hægt er að mæla með Philmont-kúrnum fyrir fólk í megrunarhugleiðingum.
Skátar sem koma til Philmont raðast í 12 – 14 manna hópa – en venjulega eru skátar úr sömu sveit í sama hóp. Fyrstu og síðustu nóttina gistu skátarnir í grunnbúðunum og sóttu tilkomumikla slita- og setningarvarðelda þar. Gengu hóparnir venjulega um hálfsmánaðarskeið um fjöllin og var foringi hópsins ætíð piltur á aldrinum 14 – 18 ára, en 14 ár er lágmarksaldur þátttakenda. Hins vegar voru eldri foringjar með í för en þeirra hlutverk var eingöngu að fylgja þeim yngri. Gista hóparnir í hinum og þessum cömpum þar sem þeir sóttu alls konar uppbyggilega dagskrá. Alls staðar var gist í tjöldum og báru skátarnir allan sinn farangur. Vegna þessa er öllum skátum, foringjum og starfsmönnum gert að uppfylla strangar kröfur um líkamlegt atgervi – enda sá ég ekki einn einasta feitan Bandaríkjamann í allt sumar (þeir fyrirfinnast þó einhvers staðar). Í Bandaríkjunum eru til sérstakar dróttskátasveitir sem kallast Ventures og í þeim eru bæði piltar og stúlkur á aldrinum 15 – 21. Ekki var algengt að þessar sveitir kæmu til okkar svo gestirnir voru nær eingöngu karlkyns, en þó vinnur nokkuð af stúlkum í Philmont sem sumar urðu góðar vinkonur okkar. Þær voru flestar momónar og því kom sér vel að hafa mormónabókina í trúarbragðaboxinu, en það var kassi við hliðina á sjúkratöskunni með ýmsum trúarritum til að grípa til ef á þurfti að halda (amerískir skátar eru ávallt viðbúnir).
Bandaríkjamenn eru upp til hópa miklir trúmenn og það endurspeglast í skátahreyfingunni þar í landi. Í grunnbúðunum voru fjórar kapellur, ein fyrir mótmælendur, önnur fyrir kaþólikka, sú þriðja ætluð gyðingum en hin fjórða og veglegasta er helgihús mórmóna. Messað var á hverjum degi kl. 19:00 og ekki er leyfilegt að hafa háreisti eða stunda aðra dagskrá milli kl. 19:00 og 20:00, því þá er kyrrðarstund. Alls starfa um 15 prestar, djáknar og rabbínar í Philmont og hafa ýmis hlutverk. Amerískir skátar taka sitt skátaheit alvarlega, þar á meðal skylduna við Guð. En þeirra skátaheiti hefur frá upphafi verið lengra og eru í því þrjár greinar til viðbótar við þær þrjár sem við höfum en þessar aukgreinar eru: að halda mér í líkamlegu jafnt sem andlegu formi og vera siðferðilega réttsýnn. Það er aðdáunarvert hve umhugað amerískum skátum er um að fylgja öllum þessum greinum í hvívetna og mættum við að mörgu leyti taka þá okkur til fyrirmyndar þar sem skátaheitið okkar er hálfmerkingarlaust orðagjálfur í eyrum flestra skáta.
Dýralíf er gríðarfjölskrúðugt í Philmont Scout Ranch. Af stærri spendýrum ber mest á dádýrum, antílópum og elgjum. En einnig er talsvert af björnum og fjallaljónum – sérstaklega í grennd við þann camp sem ég vann á. Einn morguninn er við vöknuðum var fullvaxinn björn hálfur inn um eldhúsgluggann hjá okkur og hafði dreift kaffi yfir eldhúsgólfið – og líklega étið eitthvað af því sjálfur því nafni minn kom tvisvar aftur í leit að meira kaffi. Fjallaljón voru líka nokkrum sinnum á tjaldsvæðinu hjá okkur en þau þarf að umgangast af mikilli nærgætni – til að mynda má ekki leggja á flótta sjái maður fjallaljón því þá fylgja þau á eftir. Vegna þessara forvitnu dýra var ætlast til að skátar sofi undir berum himni í Suðvesturríkjum Bandaríkjanna og gerðar eru víðtækar ráðstafanir til að engin sterklyktandi efni væru nálægt tjöldunum og þurftu skátar að setja allt lyktarsterkt í sérstaka bjarnarpoka og hengja í nálægt tré. Einnig er öll notkun svitalyktareyða bönnuð – en því fylgir bara verri lykt. Tilskipanir öftruðu okkur ekki frá því að sofa úti á verönd undir berum himni með alstirnda himinfestinguna yfir höfðum okkar og öskur fjallaljónanna í fjarska. Litlir frændur fjallaljónanna eru bobkéttirnir sem mjálma undarlega. Refir eru líka algengir, sem og skunkar sem sækja inn í tjöldin – þeir sem urðu fyrir árás skunks fengu frí í hálfan mánuð af skiljanlegum ástæðum. Skröltormar eru mjög algengir á þeim slóðum sem ég var og þurftum við að drepa eina 16 sem gerðust of ágengir. Ýmsar aðrar tegundir snáka eru líka þarna á ferli – en ekki eins hættulegir. Skröltormarnir halda músum í skefjum en þær ásamt rottum og íkornum bera með sér ýmsa banvæna sjúkdóma á þessum slóðum. Flær á feldi íkorna geta borið með sér svartadauða og því gerðum við sérstakt átak til að halda þeim í skefjum en vinnufélagar mínir fláðu líka íkornana af miklum hagleik. Einn íkornann reyndum við ítrekað að veiða en án árangurs en það var hinn goðsagnakenndi Fatty the Squirrel. Hann var á við tvo íkorna að burðum. Líklega höfum við drepið eitthvað á annað hundrað nagdýr yfir sumarið – en alltaf komu ný í staðinn! Segið svo ekki að skáti sé dýravinur.
Inni í skálanum í Zastrow kom ég mér upp sérstöku borði með ýmsu efni frá Íslandi til að kynna land og þjóð og þar sem við höfðum rafmagn gat ég sýnt myndband frá Ferðamálaráði. Íslandskynningin vakti gríðarmikla athygli og fjöldi skátaforingja lýsti áhuga sínum á að heimsækja þessa sérstæðu eyju og fékk ég fjöldann allan af heimboðum til skáta vítt og breitt um Ameríku. Þá vakti það einnig athygli mína hve margir foringjanna höfðu komið til Íslands, annað hvort sem ferðalangar eða starfað á vegum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Skátar frá austurströndinni voru að jafnaði mun betur að sér um land og þjóð en aðrir og virtist kynningarstarf ferðamálayfirvalda og Flugleiða þar hafa skilað umtalsverðum árangri. Raunar var mjög athyglisvert að hitta dags daglega skáta jafnvíða að úr Ameríku og líklega er þetta einhver besta leiðin til að kynnast Bandaríkjamönnum svona í heilu lagi. Einn af elstu starfsmönnunum í Philmont, gamall uppgjafahermaður, spurði mig mikið um Ísland en hann hafði lesið allar Íslendingasögurnar fjórum sinnum og betri að sér á sumum sviðum Íslandssögunnar en ég!
Starfsmenn voru úr öllum fylkum Bandaríkjanna nema Hawai, en þó komu til okkar skátasveitir þaðan. Erlendir starfsmenn voru þó aðeins tveir, sá er hér heldur á penna, auk skátastúlku frá Slóvakíu sem starfaði við barnagæslu í foringjaþjálfunarmiðstöðinni. Það vakti þó strax athygli mína þegar ég sá lista yfir starfsfólkið að meðal starfsmanna var piltur að nafni Stefan Steingrimur Hermannsson frá Californíu. Hann reyndist vera barnabarn Steingríms Hermannssonar fyrrverandi forsætisráðherra en talaði þó enga íslensku og hafði aðeins einu sinni komið til Íslands. Hann hafði þó mikinn áhuga á að kynnast landi og þjóð betur og urðum við ágætis kunningjar.
Hitinn var talsvert mikill yfir daginn en það gat fryst á næturna. Hæsti hiti var um 40°C. Laust eftir hádegi tók jafnan að draga ský fyrir sólu og venjulega var hellidemba síðdegis. Einu sinni sáum við ekki til sólar í þrjá sólarhringa samfleytt og rigndi stöðugt allan þann tíma. Þá voru íkornarnir farnir að synda í hinu nýmyndaða stöðuvatni fyrir utan hjá okkur.
Einhverju sinni þegar við Paul vinnufélagi minn sátum úti á verönd á sólríkum eftirmiðdegi kemur Mr. John Van Dreese starfsmannastjóri á harðakani niður hlíðina á jeppanum sínum og segir að mér sé ekki til setunnar boðið – ég verði að drífa mig í skátabúninginn þar sem ég þurfi að halda erindi um Ísland á alþjóðlegri ráðstefnu eftir fimm mínútur (akstur í þjálfunarmiðstöðina tekur um 20 mínútur). Algjörlega óundirbúinn hélt ég nokkra tölu um Ísland og skátastarf á Íslandi og fékk meðal annars þá spurningu hvort ekki væri lítið af skógum á Íslandi og hugðist ég þá segja þann kunna brandara hvað gera skyldi ef maður villtist í skógi á Íslandi en gat ekki klárað skrítluna því salurinn var undireins sprunginn úr hlátri og mér tjáð að þeir hefðu heyrt brandarann. Varð ég nokkuð hugsi yfir þessu. Eftir erindið kom til mín Mr. Art Frith, fyrrum sveitarforingi á Keflavíkurflugvelli, og bað mig afsökunar á að hafa eyðilagt brandarann fyrir mér, en hann hafði þá fáeinum mínútum áður haldið erindi um Ísland og var með kynningarspjöld með myndum af ýmsum kunnum íslenskum skátum, eins og Mr. Magnusson, Mr. Asgeirsson og Mr. Guðleifsson. Þarna var líka mynd af aðstoðarforingjanum mínum Ágústi Snorrasyni. Hitti ég fjölmarga skáta þarna sem höfðu ýmis tengsl við Evrópu og sumir við Ísland og báðu fyrir kveðjum til hinna og þessa. Þar sem þetta var alþjóðleg ráðstefna hafði ýmsum háttsettum erlendum skátaforingjum verið boðið eins og framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu skáta og nýja stjórnandanum í Kandersteg. Þess er rétt að geta að amerískir skátar hafa löngum stutt vel og dyggilega við bakið á skátabræðrum sínum víðs vegar um heiminn og til að mynda fékk evrópska skátahreyfingin mikla styrki frá Bandaríkjunum til uppbygginar skátastarfs að síðari heimsstyrjöld lokinni.
Þess má til gamans geta að við félagarnir áttum óvinaflokk eins og allir sannir skátaflokkar en það var starfsfólkið í næsta campi, Abreu. Þau ræktuðu hænsni, geitur og asna. Ásökuðu þau okkur um að hafa stolið frá þeim beikoni, sem við höfðum vitaskuld ekki gert. Hvað svo rammt að þessum ásökunum að eitt kvöldið er ég var að fara að læsa eldhúsinu, áður en gengið var til náða, hafði pakka af beikoni verið stolið úr ísskápnum okkar. Nú voru góð ráð dýr og hugðum við á hefndir. Við Paul vinnufélagi minn vorum því sendir til Abreu um hánótt til að hefna harma okkar. Brutumst við því inn í eldhúsið í Abreu með nokkuð heiðarlegum hætti, hreinsuðum út úr ískápnum, dreifðum matnum snyrtilega yfir gólfið og tókum ískápinn úr sambandi. Náðum þvínæst í þrjár hænur og settum þær inn í ískápinn, en skyldum eftir smárifu svo þær fengju nú nóg súrefni. Þar með höfðum við hefnt okkar á starfsfólkinu í Abreu með hinum fullkomna glæp sem aldrei upplýstist (fyrr en hér). Höfðum varan á okkur eftir þetta – en vitaskuld gátu félagar okkar í Abreu ekki hefnt þeirrar miklu smánar sem þau höfðu nú orðið fyrir.
Óhætt er að mæla með dvöl í amerískum skátacampi fyrir alla djarfhuga skáta með snert af ævintýraþrá. Hægt er að dvelja nánast hvar sem er í Bandaríkjunum og laun eru alls ekki slæm. Skipulag og allur aðbúnaður er eins og best verður á kosið. Í þessu sambandi er raunar umhugsunarvert hvort íslenskir skátar ættu ekki að sækja í meira mæli til Norður-Ameríku í hvers kyns samstarfi. Hingað koma reglulega amerískar skátasveitir í heimsókn en íslenskur skátahópur hefur ekki farið til Bandaríkjanna síðan 1983. Það er einnig umhugsunarefni fyrir íslensku skátahreyfinguna hvort að skátastarf í Ameríku sé okkur ekki hollari fyrirmynd en það evrópska. Félagar í Boy Scouts of America eru 6,5 milljónir. Ef íslenskir skátar af báðum kynjum ættu að vera jafnmargir að tiltölu væru þeir 12.500. Svo margir hafa íslenskir skátar aldrei verið – en það er ekkert sem segir okkur að þeir geti ekki orðið svona margir. Að mínum dómi er margt í starfsemi sumri skátabandalaga í Evrópu, sér í lagi þess enska, sem er lítt til fyrirmyndar. Evrópskir skátar halda margir að ráðið við sífellt fækkandi fjölda skáta sé að hreinsa út úr skátastarfi allt sem minnir á skátastarf og eftir situr fánýtt félagsheimiladundur. Ameríska skátahreyfinginn hefur til að mynda haldið fast í sitt verkefnakerfi með nýliðaprófi, II. flokks prófi, I. flokks prófi og sérprófum: star scout – life scout – eagle scout (knapi – skjaldsveinn – riddari), sem gefst enn mjög vel. Auðvitað þarf skátahreyfingin að svara kalli tímans og breyta verkefnum í takt við tækni samtímans – en umgjörðin líkt og Bowell-Powell skóp hana á að fá að halda sér í aðalatriðum.
Hvers vegna ekki að leita upprunans og vera trúr hugsjónum skátahreyfingarinnar og þeim gildum sem hún byggir á. Eitt af slagorðum amerískra skáta nú um stundir er: Bandaríkjamenn eru að hverfa aftur til fyrri gilda – skátahreyfingin hefur aldrei yfirgefið þau. Staðfesta og stöðugleiki eru að sönnu einkunnarorð Boy Scouts of America og þeir skátar sem ekki vilja læra neitt af amerískum skátum munu fljóta sofandi að feigðarósi. Íslenskir skátar – vestrið er land framtíðarinnar.

Björn Jón Bragason var deildarforingi í Skf. Skjöldungum