Erlent samstarf

form_2jadalka_samstarf

Íslenskir skátar taka að sjálfsögðu þátt í fjölbreyttu erlendu samstarfi.

Heimsbandalög skáta

Skátahreyfingin er stærsta æskulýðshreyfing í heimi með um 38 milljónir félaga í nær öllum löndum heims. Bandalag íslenskra skáta er aðili að tveimur heimsbandalögum, World Association of Girl Guides and Girl Scouts (WAGGGS) og World Organization of the Scout Movement (WOSM).

Norrænt skátasamstarf

Norræn samstarfsverkefni
Reglulega eru í boði verkefni og viðburðir þar sem norrænum skátaforingjum og forystumönnum norrænna skáta gefst tækifæri til að hittast og miðla af reynslu og þekkingu. Eitt námskeið er haldið reglulega á vegum norrænu skátabandalaganna, NOPOLK (Nordisk program og ledertrænings konferance) fyrir þá sem vinna að skipulagningu skátadagskrár og foringjaþjálfunar. Heimsíðu samstarfsins má finna á hér

Vinabæjartengsl
Fjölmörg íslensk sveitarfélög eru í vinarbæjartengslum við sveitarfélög á hinum Norðurlöndunum. Norrænu félögin hafa haft forgöngu í málinu og halda skrá yfir þessi tengsl, sem staðið hafa í langan tíma og verið mjög ánægjuleg. Hópar fólks hafa farið í heimsóknir til annarra vinabæja, flutt með sér dæmi um menningu og félagsstarf í sínum heimabæ og eignast nýja vini og kunningja. Nokkur skátafélög hafa notfært sér þessi tengsl. Dæmi er um að skátahópur hafi farið í heimsókn til skáta í norrænum vinabæ, farið með skátunum þar á skátamót og þegið gistingu í heimahúsum að móti loknu. Þeir sem reynt hafa eru á einu máli um að tengsl sem þessi séu mjög ánægjuleg. Nánari upplýsingar um vinabæi og fleira norrænt samstarf er að finna á heimasíðu Norræna félagsins www.norden.is

Styrkir til norræns samstarfs
Norðurlandaráð kom á styrkjakerfi árið 1973 með það fyrir augum að styrkja samvinnu norrænna æskulýðssamtaka. Þetta kerfi hefur þótt gefa góða raun og er orðið fastur liður í samstarfi norrænu ríkjanna. Um er að ræða þrenns konar styrki. Ein tegundin er nefnd „styrkir til svæðisbundins samstarfs“. Þeir eru veittir til hópa í viðurkenndum æskulýðssamtökum sem starfa svæðisbundið með börnum og unglingum. Skátafélag, sem hyggst heimsækja skátafélag í öðru landi (t.d. í vinabæ) og taka þátt í einhverri skátadagskrá með skátunum þar, getur sótt um slíkan styrk. Hafið samband við skrifstofu BÍS ef aðstoðar er þörf.

Skátamót og heimsóknir
Á hverju ári berast BÍS boð frá fjölmörgum löndum um þátttöku í skátamótum. Alþjóðaráð velur jafnan eitt til tvö þessara móta til sérstakrar kynningar en veitir fúslega upplýsingar um önnur mót ef þess er óskað.  Listi yfir erlend skátamót sem BÍS berast boð á er einnig að finna hér á skátavefnum. Ef íslenskir skátar hafa áhuga á að sækja skátamót erlendis eru þeir aðstoðaðir til þess eftir föngum. Þau ár sem Landsmót skáta eru haldin, stendur BÍS að jafnaði ekki fyrir ferðum á erlend skátamót.

Nánari upplýsingar um norræn verkefni fást í Skátamiðstöðinni.  

Alþjóðlegar ráðstefnur

BÍS tekur þátt í heimsráðstefnum heimssamtakanna tveggja sem íslenskir skátar tilheyra:

  • WOSM (World Organization of the Scout Movement)
  • WAGGGS (World Association of Girl Guides and Girl Scouts)

Heimsráðstefnurnar eru þriðja hvert ár og eru þessar tvær haldnar sama árið en hvorki haldnar saman né í sama landi.

Auk heimsráðstefnanna eru haldnar álfuráðstefnur. Þar sem Ísland er í Evrópu sækja íslenskir skáta Evrópuráðstefnu.  Sú ráðstefna er sameiginleg með WOSM og WAGGGS.

Ísland er einnig í talsverðu samstarfi við norðurlöndin og fara fulltrúar íslenskra skáta á Norðurlandaþing þriðja hvert ár.