Eftir að þátttakendur World Scout Moot luku leiðangrum sínum um Ísland kom allur hópurinn saman á Úlfljótsvatni til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Þema dagskrárinnar á Úlfljótsvatni er Alþingi og er vísað til þess ævafornar siðar Íslendinga að koma saman til Alþingis eftir langt og strangt ferðalag.

Trommuhringur í dagskrárþorpi drekans

Dagskrá Alþingis er fjölbreytt og felur meðal annars í sér útivistarverkefni, vinnustofur, málþing, áskoranir af margvíslegu tagi og fjölmenningarleg viðfangsefni svo dæmi séu tekin. Dagskránni er skipt upp í nokkur dagskrársvæði og eru fjögur þeirra nefnd eftir íslensku landvættunum sem upp á ensku eru The Bull, The Eagle, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni.

Öll vinna þau þó með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.