Varðeldastjórar hurfu í reyk

SVIDI-ALLT-I-REYK---MYND-MED-FRETT-UM-FRAEDSLUKVOLD-16.1.14.2

„Reykurinn varð svo mikill að dansararnir hurfu og fólkið sem sat framarlega í hópnum, skátahöfðingi ásamt fyrirmennum og gestum, þurfti að hörfa frá“, segir Björn Hilmarsson margreyndur varðeldasstjóri kíminn um minnistætt atvik frá Landsmóti skáta árið 1990. „Við vorum beðnir að setja smá leikhúsreyk sem átti að liðast um gólfið á sviðinu um fætur dansaranna, en höfðum aldrei notað svona áður og settum allt of mikið af dufti í pottinn.“
„Þessi reynsla hefur oft vakið hlátur í minningunni og en um leið kennt okkur að gera ALDREI eitthvað á kvöldvökum sem við höfum ekki prófað áður“, segir Björn en hann leiðbeinir ásamt Gunnari Atlasyni og Guðmundi Pálssyni á fræðslukvöldi þar sem þeir ætla að kenna öll trixin í kvöldvöku- og varðeldastjórnun.

Gleði og fræðsla á fimmtudag

„Þetta verður bara eintóm gleði,“ segir Gummi Páls sem þykir fátt skemmtilegra en að taka lagið í góðra vina hópi. Þeir félagar hvetja fólk til að mæta í Skátamiðstöðina á fimmtudagskvöldið og hafa gaman saman!  „Og komast að leyndarmálunum á bak við að góða kvöldvöku sem lifir í minningu skátans í 100 ár, ef hann lifir svo lengi“ bætir Gunni Atla við.
Fræðslukvöldið á fimmtudag 16. janúar er haldið í Skátamiðstöðinni að Hraunbæ 123 og hefst dagskráin  kl. 19.30. Námskeiðið er ókeypis og opið öllum 16 ára og eldri. Margir hafa þegar skráð sig og má búast við góðri þátttöku. Þeir sem hafa ekki skráð sig eru beðnir um að gera það svo viðburðahaldarar vaði ekki reyk um þátttökuna.
Skráðu þig hér svo viðburðastjórar vaði ekki reyk  >>>

Hagnýt ráð

Þeir félagar munu gefa mörg hagnýt ráð og hér eru til upphitunar 10 atriði sem góðir kvöldvöku- og varðeldastjórar þurfa að hafa í huga:
  1. Vera alltaf vel undirbúin/n. Undirbúa dagskrá eftir aldri skátanna – yngri skátar hafa ekki úthald í langa dagskrá.
  2. Hafa pall – svið – hljóðkerfi – ef hópurinn er stór og skjávarpa fyrir texta frekar en textablöð
  3. Sjá skemmtiatriði ÁÐUR en þau fara „á svið“. Passa að þau séu ekki of löng.
  4.  Ekki gera neitt sem þú hefur ekki prófað áður
  5.  Hafa hljóðfæraleikara/undirspil ef hægt er, stilla hljóðfærin áður.
  6.  Láta alla sitja þétt og helst í röðum, það er gott fyrir hreyfisöngvana.
  7. Ef kvöldvakan er úti – passa vindátt – að neistar úr varðeldi fari ekki yfir hópinn.
  8. Ekkert hlé! Vera tilbúinn með aukalag eða leik ef það kemur bið eftir einhverju.
  9. Hafa aðstoðarfólk í að stýra hreyfisöngvum og láta alla taka þátt
  10.  Auðvitað er svo aðalatriðið að slá taktinn !

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar