Þetta er búið að vera algjörlega ótrúlega skemmtilegt og vel heppnað“, segja þeir Páll Viggósson og Eðvald Einar Stefánsson sem borið hafa ábyrgð á framkvæmd allra sameiginlegra viðburða World Scout Moot 2017.

Formleg mótssetning í Laugardalshöll, opnunarhátíð á Úlfljótsvatni og mótsslitin í dag eru á meðal þeirra verkefna sem þeir félagar hafa haft á sinni könnu.

Fjölbreytt viðfangsefni

„Okkar hlutverk var að skipuleggja og annast um framkvæmd þeirra viðburða þar sem allir þátttakendur mótsins koma saman“ segir Páll og bætir við að það hafi verið að ýmsu að hyggja enda umfangið mikið. „Þegar svona margir koma saman á einum stað þarf að huga að mörgu. Eitt er að skipuleggja áhugaverða dagskrá en annað er að sjá til þess að öll grunnþjónusta sé fyrir hendi á sama tíma og það má því með sanni segja að við höfum fengið að takast á við ansi fjölbreytt verkefni“ bætir Eðvald við.

Nokkrir risatónleikar í röð

„Þetta er ekki ósvipað því að skipuleggja nokkra risatónleika í röð. Við erum fyrst með formlega setningarathöfn í Laugardalshöll. Þegar allir þátttakendur komu svo saman á Úlfljótsvatni var sérstök opnunarhátíð þar og svo auðvitað mótsslitin sjálf á eftir“ segir Páll.

Að mörgu að huga

„Okkar hlutverk er að velja saman þau atriði sem gera hvern viðburð sérstakan, vinna með fjölda listafólks, tæknifólks á sviði hljóð- og myndtækni, uppfylla kröfur mótsins um nauðsynleg ávörp og slíkt svo það er að mörgu að huga“ segir Eðvald.

…og allt hitt

„Ofan á þetta hafa verið hér viðburðir um allt mótssvæðið sem þurfa hljóðkerfi, búnað og aðra aðstoð og við höfum gert okkar besta til að sinna öllum þessum málum og ég veit ekki betur en að allt hafi gengið vel upp. Við skátar eigum ótrúlegan fjársjóð í okkar mannauði og hann hefur svo sannarlega skilað sér“ segir Páll.

Tækniteymið til fyrirmyndar

Þeir félagar vilja koma því á framfæri að án öflugs tækniteymis hafi þeirra verkefni aldrei getað gengið upp. „Haukur Harðar, Gísli Guðna, Davíð og allt hans fólk og fleiri hafa svo sannarlega staðið sig í stykkinu og lagt okkur lið og okkar verkefnum – allt þetta fólk, sem og aðrir sjálfboðaliðar mótsins, eiga hrós skilið fyrir þeirra framlag“ segir Eðvald.

Gísli Guðnason og Haukur Harðarson hafa reynst viðburðarteyminu vel síðustu daga.

Lokastundin nálgast

„Okkar síðasta stóra verkefni eru mótsslitin á eftir. Þau eru vel undirbúin eins og annað hér á World Scout Moot en við verðum fegnir þegar þeim er lokið“ segja þeir félagar og kveðja með brosi á vör.